Dagur kirkjutónlistarinnar með myndarbrag

7. nóvember 2021

Dagur kirkjutónlistarinnar með myndarbrag

Sr. Agnes afhenti Glúmi tónlistarviðurkenningu þjóðkirkjunnar fyrir framlag hans til uppbyggingar á barnakórastarfi við kirkjur og hins íslenska tíðasöngs - mynd: hsh

Dagur kirkjutónlistarinnar var haldinn í gær í Áskirkju. Dagskrá hans var fjölbreytt að vanda og hófst hann klukkan tíu um morguninn á sálmasöng viðstaddra. Sungnir voru nýir sálmar.

Dr. Skúli Sigurður Ólafsson, sóknarprestur í Neskirkju, flutti athyglisvert erindi um leiðtogahlutverk presta og organista. Erindið var rætt af viðstöddum og voru umræður líflegar. Síðan kynnti Guðný Einarsdóttir, organisti í Háteigskirkju, verkefnið Orgelkrakkar. Þá var fræðst um ný orgel, annað í Grafarvogskirkju sem kemur eftir áramótin, og hitt sem er í nýkomið í Keflavíkurkirkju.

Stuttar kynningar fóru fram á ýmsu sem tengist kirkjutónlist eins og tíðasöng, og Ísleifsreglunni, norræna kirkjutónlistarmótinu í Helsinki, Leitourgia-ráðstefnunni í Skálholti en henni er nýlokið, útgáfa sálmabókarinnar.

Janne Mark, sálmahöfundur, söngkona og píanóleikari ásamt Espen Mark kontrabassaleikara og fleirum kynntu fyrir viðstöddum sálma og kenndu þá; sungu einnig nokkra danska sálma í jazz-stíl af verðlaunuðum plötum Janne Mark; Kontinent, Pilgrim og Salmer fra Broen.

Tónlistarviðurkenning þjóðkirkjunnar
Degi tónlistarinnar lauk á stuttri athöfn þar sem biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, afhenti Glúmi Gylfasyni, organista á Selfossi, tónlistarviðurkenningu þjóðkirkjunnar fyrir framlag hans til uppbyggingar á barnakórastarfi við kirkjur og hins íslenska tíðasöngs.

Dagur kirkjutónlistarinnar var einkar ánægjulegur og fjölbreytilegur eins og áður sagði. Í undirbúningsnefndinnni voru Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Bjartur Logi Guðnason, organisti í Áskirkju, og Lára Bryndís Eggertsdóttir, organisti í Neskirkju.

Glúmur Gylfason
Hann er fæddur 12. mars 1944. Lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1964. Hóf tónlistarnám á barnsaldri, stundaði nám við Tónskóla þjóðkirkjunnar, var við nám í Kennaraháskóla Danmerkur í Kaupmannahöfn (orgel, söngur o.fl.), við orgelnám í Róm á Ítalíu, hefur kennt tónlist og stýrt tónlistarskólum, verið organisti og kórstjórnandi. Sat í fyrstu stjórn Ísleifsreglunnar, vann að úgáfu sígilds kirkjusöngs: Íslenskur tíðasöngur, þýddi kennslubók í kórstjórn, settur söngmálastjóri þjóðkirkjunnar 1989. Frumkvöðull í kórastarfi með börnum.

hsh


Dr. Skúli Sigurður flutti áhugavert erindi


Hluti áheyrenda - grímurnar eru að koma aftur - því miður


Menn voru djúpt hugsi- þó ekki yfir fatarmáli þríhyrnings


Danir nettir að vanda - Kristján Hrannar við flygilinn


Glúmur og Margrét söngmálastjóri sem hélt utan um alla þræði með glæsibrag


Ánægjulegt var að meistarinn sjálfur, Haukur Guðlaugsson, sá sér fært að koma

 

  • Fundur

  • List og kirkja

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju