Kirkjulandið

16. nóvember 2021

Kirkjulandið

Þykkvabæjarklausturskirkja - í forgrunni er minnigarsteinn um Þykkvabæjarklaustur. Mynd: Pétur Georg Markan

Árla morguns 9. nóvember hélt biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttur, í vísitasíu suður með landinu til heimsóknar við fólkið og kirkjuna í Kirkjubæjarklaustursprestakalli. Á Vegamótum við Landveg gekk sr. Halldóra Þorvarðardóttir prófastur suðursins til liðs við biskup og var þá orðið þrímennt – en biskupsritari fylgir biskupi eftir í vísitasíum, skráir og færir til bókar kirkjulífið.

Fyrsta stopp biskups Íslands var Þykkvabæjarklausturskirkja. Þar tók á móti biskupi, sóknarpresturinn sr. Ingimar Helgason og sóknarnefndarfólkið, Arnfríður Jóhannesdóttir og Jóhannes Gissurarson, sem sýndu kirkjuna og staðinn og buðu í kaffi í nýju og notadrjúgu þjónustuhúsi við kirkjuna. Biskup hélt helgistund í notalegri kirkjunni og var kirkjugarðurinn tekinn út. Nú var sr. Ingimar genginn til liðs við föruneyti biskups og áfram var haldið inn í prestakallið.

Næsti viðkomustaður var Grafarkirkja og Grafarkirkjugarður. Tóku á móti biskupi Ólafur Björnsson, kirkjuhaldari, Lilja Guðgeirsdóttir, meðhjálpari og Auður Guðbjörnsdóttir, formaður sóknarnefndar. Kirkjan falleg og í góðu standi.


Ólafur Björnsson, Auður Guðbjörnsdóttir, Lilja Guðgeirsdóttir, biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, sr. Halldóra Þorvarðardóttir, prófastur og sr. Ingimar Helgason
.

Um kvöldið var síðan messa í Prestsbakkakirkju hvar sr. Ingimar Helgason þjónaði fyrir altari og biskup Íslands predikaði. Eftir messu var fundað með sómafólkinu í sóknarnefnd á heimili Elínar Önnu Valdimarsdóttur, formanni sóknarnefndar. Heimili Elínar er falllegur og sögufrægur bær, Kirkjubæjarklaustur, bær sem ber nafn með sóma og sanni.


Ómfagur og kátur kirkjukórinn með hjónunum Zbigniew Zuchowicz og Teresu Zuchowicz

Daginn eftir var haldið af stað fyrir dagsins roða og bænhúsið að Núpsstað heimsótt af biskupi.


Bænhúsið að Núpsstað

Þar á eftir var haldið í átt að Kálfafellskirkju þar sem Ragnheiður Hlín Snorradóttir tók á móti föruneyti biskups. Kirkjan er fallegt guðshús með eina elstu, ef ekki elstu, altaristöflu landsins.


Altaristaflan í Kálfafellskirkju er falleg.

Næsti viðkomustaður biskups Íslands var Kirkjubæjarskóli á Síðu sem er grunnskóli Skaftárhrepps. Þar er samstarf skóla og kirkju til mikillar fyrirmyndar. Meðal annars fékk biskup Íslands fallegan einleiksflutning á píanó frá efnilegum nemenda í tónlistarskólanum. Í tónlistarskólanum kenna hjónin Zbigniew Zuchowicz og Teresa Zuchowicz, Zbigniew veitir skólanum forstöðu. Zbigniew og Teresa eru hryggjarstykkið í tónlistarlífi prestakallsins, Zbigniew er organisti safnaðanna, og hafa þau unnið tónlistarlífi kirkjunnar mikið og gott starf frá því þau komu til landsins. Það er einmitt fyrir slíkan mannauð, sem þjónar kirkjum víðsvegar um landið, að tónlistarskólar og annað menningarlíf samfélaganna njóta góðs af. Ein góð og skýr birtingarmynd af kirkjulandinu.


Katrín Gunnarsdóttir, skólastjóri og biskup Íslands.

Því næst var hádegismatur snæddur með sóknarnefndum prestakallsins og farið yfir helstu mál og framtíðarmúsík.

Eftir mat var haldið í minningarkapellu sr. Jón Steingrímssonar, eldklerks. Á undan var stoppað í minningargrafreitnum hvar Jón er jarðsettur. Minningarkapellan er dásamlega fallegt guðshús sem reist var á áttunda áratugnum og ber arkitektúr kapellunnar þess fagurt vitni.


Minningarreitur eldklerksins sr. Jóns Steingrímssonar 


Minningarkapellan er stílhrein og falleg.

Þaðan lá leiðin á Klausturhóla, dvalar- og hjúkrunarheimili. Þar heilsaði biskup Íslands upp á heimilisfólk og ræddi um Guð, sveit og mannlíf.


Kapellan á Klausturhólum er mikið notuð af heimilisfólki

Seinasta stopp biskups Íslands var Langholtskirkja í Meðallandi. Þar má finna dásamlega perlu eftir Jóhannes Kjarval í sálmatöflu kirkjunnar. Þannig leynist menning landsins um allt í Kirkjulandinu.


Langholtskirkja í Meðallandi


Íslensk menningarsaga er víða í kirkjum landsins. Jóhannes Kjarval málaði þessa sálmanúmera töflu í Langholtskirkju

pgm

  • Frétt

  • Heimsókn

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Sóknarnefndir

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Biskup

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju