Sígildur jóladrykkur

3. desember 2021

Sígildur jóladrykkur

Siglufjarðarkirkja sómir sér vel með jólaölinu - mynd: hsh

Þegar steðjað er í gegnum stórverslanir þar sem gosdrykkir standa í miklum stæðum og stöflum í alls konar umbúðum verður ekki komist hjá því að virða þær fyrir sér. Framleiðendur gosdrykkja vita eins og aðrir seljendur vöru að alltaf verður að brydda upp á einhverju nýju til að vekja athygli kaupandans. Ekkert selur sig sjálft þó að það kunni að vera mjög vinsælt. Nýjar umbúðir skjóta upp kolli á hverju ári eða einhvers konar útfærsla á góðum og sígildum vörumerkjum sem standa fyrir sínu.

Vörumerkingar eru af alls konar tagi. Snjöll umbúðahönnun getur komið góðri vöru býsna langt. En ekkert kemur þó í staðinn fyrir innihaldið. Það verður alltaf að skara fram úr.

Það er fremur fátítt hér á landi að eitthvað sem tengist beint kristinni trú rati á vöruumbúðir þó svo þess séu dæmi. Sjaldan koma fyrir á vöruumbúðunum kirkjur og trúarleg tákn.

Jólaöl og appelsín!
Þegar umbúðir utan um jólaöl og appelsín frá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni eru skoðaðar á þessari aðventu kemur í ljós falleg þorpsmynd. Hlýleg þó að snjór sér, og myndarleg Betlehemsstjarnan lýsir himininn upp. Þar sér í rismikla hvíta kirkju með rauðu þaki og mörg hús í kring, tré og göngustíg. Svo ber við fjall sem er mörgum kunnugt. Það heitir Hólshyrna. Og er í Siglufirði.

Já, þetta er hin glæsilega Siglufjarðarkirkja sem reist var 1932. Hún á sviðið á umbúðum jólaölsins og appelsínsins þetta árið.

Hvernig stendur á því?

„Já, ég á ættir að reka til Siglufjarðar,“ segir Jón Ingiberg Jónsteinsson, grafískur hönnuður hjá auglýsingastofunni EnnEmm, „allar mínar ættir eru þarna úr Fljótunum, Siglufirði og Skagafirðinum.“

Jón Ingiberg segist hafa ákveðið að búa til lítið jólaþorp og fengið innblástur frá Siglufirði. Hvað annað. Þar hafi hann verið býsna oft hjá ömmu sinni og afa. Annar afi hans var Jón Þorsteinsson, mikil skíðagarpur og íþróttamaður, og hinn var Jósafat Sigurðsson, og var með fiskbúðina. „Og ömmur mínar voru síldarstúlkur.“

„Mér fannst jólalegt að setja kirkjuna þarna inn,“ segir Jón Ingiberg, „hún er aðeins stílfærð, og húsunum raðað upp í kring – eiginlega nýtt skipulag!“ Honum finnst kirkjan á Siglufirði vera glæsileg og standa á mjög fallegum stað.

En það var ekki sjálfsagt að kirkjumynd fylgdi með auglýsingunni. „Við tókum umræðu um það en niðurstaðan var sú að hún fylgdi þorpinu,“ segir Jón Ingiberg og bætir því við að svona mynd sé eiginlega táknmynd fyrir alla bæi landsins – fallegar kirkjur umkringdar húsum eru í nær öllum þorpum og bæjum á Íslandi.

Kirkjan.is mælir með því að fólk skoði þessar fallegu umbúðir og ekki sakar að prófa jólaölið frá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni. Það hefur aldrei brugðist væntingum. Og bragðast reyndar óvenju vel núna – það skyldi þó ekki vera vegna kirkjunnar á Siglufirði og Betlehemsstjörnunnar? Hver veit.

Jón Ingiberg er með BA-gráðu í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands. Hann vinnur við auglýsingagerð og ýmsu sem henni tengist. Fjölmargar auglýsingar, plaggöt, bókarkápur o.m.fl., liggja eftir hann.  Öflugur ungur maður á sínu sviði. - Hann ólst upp í Reykjavík en ferðaðist oft til Siglufjarðar á yngri árum. Foreldrar hans eru báðir fæddir og uppaldir á Siglufirði og heita Jónsteinn Jónsson og Þóranna Jósafatsdóttir.

hsh


Hér er grafíski hönnuðurinn, Jón Ingiberg, ungur að aldri, á Siglufirði og kirkjuturninn fallegi á sínum stað


Og hinn grafíski hönnuður eins og hann lítur út í dag ... 


  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Frétt

Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju
Prestarnir Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir og Toshiki Toma ásamt Olgu Khodos

Manneskjan er flóknasti og fallegasti leyndardómur tilverunnar.

20. nóv. 2024
...segir Olga Khodos sálfræðingur frá Úkraínu