Hjálparstarf kirkjunnar á fleygiferð

6. desember 2021

Hjálparstarf kirkjunnar á fleygiferð

Margt var um að vera hjá Hjálparstarfinu í morgun - sjálfboðaliðar gáfu sér tíma til að líta framan í myndavél. Frá vinstri: Mjöll Þórarinsdóttir, Valborg Hannesdóttir, Auður María Aðalsteinsdóttir, Sjöfn Aðalsteinsdóttir, Elsa Sveinsdóttir, og Kristín Ólafsdóttir, fræðslu- og upplýsingafulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar - mynd: hsh

Jólin sækja fólk misjafnlega heim. Fátækar fjölskyldur eiga í basli með að halda jól með viðunandi hætti sem og einstaklingar sem standa höllum fæti í samfélaginu, íslenskir sem útlendir.

Eins og fyrir undanfarin jól hefur Hjálparstarf kirkjunnar í nógu að snúast. Jólasöfnun stendur yfir og úthlutun á mat, fötum, gjöfum og hvers kyns félagslegri aðstoð.

Frestur til að sækja um mataraðstoð á netinu rennur út 10. desember n.k. Umsóknarblaðið er á ensku og spænsku – spænskan er aðallega fyrir fólk frá Venesúela.

Kirkjan.is ræddi í morgun við Kristínu Ólafsdóttur, upplýsinga- og fræðslufulltrúa Hjálparstarfsins. Nú fer mikill álagstími í hönd hjá þeim í Hjálparstarfinu og eru þau mjög svo þakklát fyrir þann hóp sjálfboðaliða sem streymir til þeirra og léttir vel undir starfinu með þeim.

Kristín afhendir tíðindamanni kirkjunnar.is starfsskýrslu Hjálparstarfs kirkjunnar fyrir árið 2020-2021. Skýrslan er stórfróðleg og dregur fram umfangsmikið starf Hjálparstarfsins og mikilvægi þess í íslensku samfélagi. Skýrsluna má sjá hér.

„Við eigum gott samstarf við Mæðrastyrksnefndir, Hjálpræðisherinn og Rauða krossinn í sambandi við úthlutanir,“ segir Kristín og bætir við kirkjusóknum um landið allt. „Við eru ótrúlega lánsöm hve mikils trausts við njótum, fyrirtæki, einstaklingar og stofnanir láta fé af hendi rakna til þess að starfsemin geti gengið vel og snurðulaust fyrir sig.“

Kristín segir að að aðstoðin innanlands sé að lang mestu leyti fólgin í matarinneignarkortum; aðstoð við að leysa út lyf og aðstoð við barnafjölskyldur í sambandi við íþróttir og tómstundir.

Flestar fjölskyldur sækja um einu sinni til tvisvar en tíu prósent sækja um fimm sinnum eða oftar – það er fólkið sem býr við verstu aðstæðurnar.

Hátt í fimm þúsund einstaklingar fá aðstoð frá Hjálparstarfinu á hverju ári. Rúmlega helmingur umsækjenda, eða 66%, eru Íslendingar og 34% af öðru þjóðerni. Þegar litið er til annars þjóðernis er það býsna víðtækt þótt Pólverjar eru flestir, þá Sýrlendingar, fólk frá Venesúela og Írak. Það kemur ekki á óvart að tæplega 70% þjónustuþega Hjálparstarfsins koma af höfuðborgarsvæðinu.

Á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar og í samvinnu við önnur samtök er rekin í útlöndum öflug mannúðaraðstoð og þróunarsamvinna.

Mjöll Þórarinsdóttir fer fyrir hópi sjálfboðaliða er afhendir umsækjendum fatnað og fleira.

Framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar er Bjarni Gíslason.

Samfélagsverkefni unnin á vegum Hjálparstarfsins

Neyðaraðstoð
Hjálparstarf kirkjunnar aðstoðar fólk sem býr við kröpp kjör svo það geti gert sér dagamun yfir hátíðirnar.

Valdefling – sjálfstyrkingarnámskeið og hópstarf
Félagsráðgjafarnir benda jafnframt á úrræði í samfélaginu sem kunna að gagnast fólki við að komast út úr erfiðum aðstæðum.

Málsvarastarf
Hjálparstarf kirkjunnar hefur það að markmiði að auka almenna vitund um mannréttindi og mikilvægi félagslegs réttlætis fyrir almenna farsæld.

Skjólið
Skjólið er opið hús fyrir konur sem glíma við heimilisleysi, búa við óöruggar aðstæður eða eru nýkomnar í búsetuúrræði eftir heimilisleysi. Skjólinu er ætlað að vera öruggur samastaður sem konurnar geta sótt að deginum til. Unnið er eftir skaðaminnkandi hugmyndafræði og verður starf Skjólsins þróað og mótað með þeim konum sem það sækja. 

Taupoki með tilgang
Efni er endurunnið af hópi innflytjenda, flóttafólki og hælisleitendum og öðrum sem félagsleg einangrun getur sótt að. Konurnar endurvinna efni sem almenningur hefur gefið og læra að sauma úr því fjölnota innkaupatöskur, grænmetispoka, dúka, skiptiteppi fyrir börn o.fl.

Margt smátt - fréttabréf Hjálparstarfs kirkjunnar

Hjálp til sjálfshjálpar...

Konur með lítið tengslanet...

 


Skjáskot úr skýrslu Hjálparstarfs kirkjunnar

hsh


  • Hjálparstarf

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Söfnun

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju