Innflytjendur og fátækt

10. desember 2021

Innflytjendur og fátækt

Fáni Sameinuðu þjóðanna - mynd: SÞ

Í dag er mannréttindadagur Sameinuðu þjóðanna. Hann á sér þá sögulegu skírskotun að Marteinn Lúther brenndi þennan dag árið 1520 bannhótunarbréf páfans og rómverska kirkjuréttinn í Wittenberg og með því mótmælti hann óréttlæti sem hann var beittur sem einstaklingur.

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna heldur úti eftirliti með stöðu mannréttinda í aðildarríkjum sínum og hefur m.a. það hlutverk að bjóða félagasamtökum vettvang til að benda stjórnvöldum á hvar skóinn kreppir í þeim efnum.

Nú er röðin komin að Íslandi. Í samstarfi við Lútherska heimssambandið hefur þjóðkirkjan fylgt eftir sínum áherslum í þessu eftirlitsferli Sameinuðu þjóðanna, og bendir á það sem betur má fara í því hvernig við stöndum vörð um mannhelgi og mannréttindi í samfélaginu í dag.

Ferlið gengur undir heitinu Universal Periodic Review (UPR) og fer fram með reglulegum hætti.

Nú í desember, gafst íslenskum félagasamtökum kostur á að ávarpa fulltrúa ríkja Sameinuðu þjóðanna á zoom-fundi og bera fram sínar áherslur í málaflokknum. Þar á meðal var þjóðkirkjan.

Á fundi Mannréttindaráðsins fyrir nokkru setti sendiherra Íslands í fastanefnd gagnvart Sameinuðu þjóðunum í Genf, Harald Aspelund, þann hluta fundar Mannréttindaráðs S.Þ., sem íslensku félagasamtökin fengu að kynna sitt mál.

Fyrst á svið var fulltrúi þjóðkirkjunnar, sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, og flutti hún skilboð frá þjóðkirkjunni til ríkisstjórnar Íslands um það sem má betur fara í mannréttindamálum á Íslandi í dag. Hún lagði í máli sínu áherslu á tvo málaflokka – stöðu flóttafólks og hælisleitenda annars vegar og fátækt hins vegar. Hér fyrir neðan er myndband þar sem sr. Solveig Lára flytur sitt innlegg. 

Sr. Solveig Lára sló tóninn fyrir þau sem á eftir komu, því nákvæmlega þessi málefni, innflytjendur og fátækt, voru rauði þráðurinn í málflutningi hinna samtakanna og er staða þessara málaflokka áberandi í starfi félagasamtaka á Íslandi. Auk þjóðkirkjunnar áttu á fundinum talsmenn: Mannréttindaráð Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Barnaheill og Þroskahjálp.

Talsmenn allra samtakanna fluttu í samhljómi ákall um að betur væri staðinn vörður um þau viðkvæmustu í samfélaginu, innflytjendur, konur, börn og þau sem eiga undir högg að sækja vegna félagslegrar stöðu. Þjóðkirkjan vill leggja sitt á vogarskálarnar til að vekja athygli stjórnvalda á þessum málum og þakkar fyrir þennan vettvang til að koma þeim á framfæri.

Í undirbúningi sínum fyrir kynninguna vann þjóðkirkjan með Mannréttindaskrifstofu Lútherska heimssambandsins (Action for Justice) sem er aðildarkirkjum sambandsins innanhandar með framsetningu á samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar í málaflokki mannréttinda.

Endanleg umfjöllun Mannréttindaráðs S.Þ. mun eiga sér stað í janúar á næsta ári, þar sem íslenskum stjórnvöldum verður kynnt niðurstaða úttektarinnar.

Þess má geta í lokin að sú hefð hefur skapast við útialtarið á Esjubergi á Kjalarnesi að 10. desember ár hvert er mannréttindadags Sameinuðu þjóðanna minnst með þeim hætt að tendrað er svokallað réttlætisbál. Fólk  getur fleygt á bálið blöðum sem það ritar margvísleg óréttlætismál á: eytt því með táknrænum hætti eins og Marteinn Lúther gerði forðum við óréttlætisbréf valdsins. Fólk getur líka lesið óréttlætismál upp af blaði í heyranda hljóði og fleygt svo í eldinn. Í dag hefst þessi viðburður kl. 17.00 og lýkur 17.30, spáð er góðu veðri. Kirkjukór Reynivallaprestakalls syngur undir stjórn Þórðar Sigurðarsonar, organista. Umsjón hefur sr. Arna Grétarsdóttir, sóknarprestur, ásamt Sögufélaginu Steina og sóknarnefnd.

Kristín Þórunn Tómasdóttir/hsh



  • Fundur

  • Menning

  • Samfélag

  • Þing

  • Trúin

  • Vígslubiskup

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju