Áramótakveðja frá biskupi Íslands

31. desember 2021

Áramótakveðja frá biskupi Íslands

Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands - mynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson

Gamlársdagur – nýársdagur. Þessir dagar falla saman á dagatalinu. Annar tilheyrir því sem var hinn því sem verður.

Á síðasta degi ársins lítum við gjarnan um öxl og tökum með okkur lærdóm og reynslu ársins inn í nýtt ár. Á nýársdag horfum við til framtíðar með allar okkar vonir og væntingar.

Síðastliðin tvö ár hafa verið okkur erfið. Við höfum tekist á við margt sem jarðarbúar hafa ekki reynslu af. Heimsfaraldurinn er þar efst á blaði og óþolinmæði farið að gæta hjá vertíðarþjóðinni sem er alvön að takast á við áföll og tímabundin verkefni en minna þjálfuð í að takast á við langtímaverkefni sem ekki sér auðveldlega fyrir endann á. Það skapar óvissu sem alltaf er slæm. Þá er gott að hafa í huga orðin úr Orðskviðunum 3.5: „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.“

Við vitum ekki nákvæmlega hvað nýja árið færir okkur en vonum að það verði farsælt og gott. „Hvað boðar nýárs blessuð sól?“ spurði sr. Matthías í áramótasálmi sínum og í trúarvissu sinni hvetur hann okkur til dáða:

„Ó, sjá þú Drottins björtu braut,
þú barn, sem kvíðir vetrar þraut.
Í sannleik, hvar sem sólin skín
er sjálfur Guð að leita þín.

Guð er með okkur. Hann kom til okkar í barninu Jesú eins og jólin boða. Því megum við treysta og trúa.

Gleðilegt og farsælt ár 2022 með þökk fyrir árið 2021.

Agnes M. Sigurðardóttir,
biskup Íslands

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Biskup

logo.jpg - mynd

Biskupsstofa lokuð í dag

08. sep. 2025
Lokað er vegna útfarar sr. Gylfa Jónssonar
Sr. Gylfi Jónsson

Andlát

02. sep. 2025
Sr. Gylfi Jónsson er látinn.
Biskup Íslands með nývígðum prestum, djákna og vígsluvottum

Hátíðleg stund í Dómkirkjunni í Reykjavík

25. ágú. 2025
...tveir prestar og einn djákni vígður