Góður gestur
Samkirkjulega bænavikan sem nú stendur yfir beinir sjónum sínum einkum að Miðausturlöndum. Þess vegna var helsti sérfræðingur okkar Íslendinga í þeim málum, dr. Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sögu Miðausturlanda við Williams College í Massachussets, Bandaríkjunum, kallaður til að fjalla um þau mál. Dr. Magnús Þorkell setur mál sitt fram með beittum, vekjandi og skemmtilegum hætti svo eftir er tekið. Hann er búsettur þar ytra en fyrirlestur hans verður fluttur gegnum fjarfundabúnað, Zoom, kl. 20.00, nú í kvöld, þriðjudaginn 18. janúar. Slóðin er hér.
Kirkjan.is sló á þráðinn til dr. Magnúsar Þorkels og ræddi stuttlega við hann.
Fyrst var spurt hvað stæði upp úr í sögu kristninnar í Miðausturlöndum.
„Það er svo margt en það sem einkennir þessa sögu en það sem stendur upp úr er hversu gömul hún er,“ sagði dr. Magnús Þorkell. „Svo er það fjölbreytileikinn sem stendur einnig upp úr.“
Er það rétt að kristin samfélög í Sýrlandi, Egyptalandi, Írak, Líbanon og Palestínu, séu smám saman að hverfa?
„Já, það er staðreynd,“ svarar dr. Magnús Þorkell og bætir við: „Það hefur verið mikil fækkun bæði hvað varðar heildartölu og einnig sem hlutfall íbúa í þessum löndum.“
Geta og eiga Vesturlandabúar að styðja við bakið á kristnum samfélögum Miðausturlanda?
„Já, það er að vera meðvitaðir um stöðu þeirra og þá erfiðleika sem þeir standa frammi fyrir,“ segir dr. Magnús Þorkell og bætir við með áherslu. „Og heyra ef kallið kemur.“
Það er samstarfsnefnd kristinna trúfélaga á Íslandi sem skipuleggur bænavikuna hér heima. Eins og nafn nefndarinnar segir til um koma fulltrúar ýmissa kristinna trúfélaga að málum. Auk fulltrúa þjóðkirkjunnar í nefndinni eru í henni fulltrúar frá kaþólsku kirkjunni, Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu, Óháða söfnuðinum, Hjálpræðishernum, Íslensku Kristskirkjunni, Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni og Betaníu.
Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga hefur sem fyrr samstarf um bænavikuna við Alkirkjuráðið.
Kirkjan.is hvetur alla til að fylgjast með fyrirlestri dr. Magnúsar Þorkels nú í kvöld, þriðjudaginn 18. janúar, kl. 20.00.
Facebókarsíða samkirkjulegu bænavikunnar.
hsh