Dásemdarstaður

26. janúar 2022

Dásemdarstaður

Langamýri í Skagafirði umvafin friðarboga Guðs - fagur staður og friðsæll - mynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ekki er laust við að þó nokkur bjartsýni ríki í samfélaginu um að kórónuveiran sé á það miklu undanhaldi að taktur mannlífsins fari á næstu vikum og mánuðum að slá með eðlilegum hætti. Eins og allir vita þá liggja í loftinu ýmsar afléttingar í sambandi við sóttkví og fjöldatakmarkanir og sumar þeirra nú þegar orðnar að veruleika.

Sumarið er ekki langt undan. Og takið eftir að þetta er sagt í byrjun þorra!

Það er jafnan mikil aðsókn að orlofsbúðum eldri borgara á Löngumýri í Skagafirði en þær eru á vegum Eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastsdæma, Ellimálanefndar og þjóðkirkjunnar. Og margir eldri borgarar farnir að velta því fyrir sér hvort ekki eigi að skella sér í orlofsdvöl! Ekki seinna vænna að skipuleggja sumarið sem kemur örugglega - að minnsta kosti fyrir norðan!

Þau sem hafa veg og vanda af orlofsbúðunum eru þær Þórey Dögg Jónsdóttir, djákni og framkvæmdastjóri Eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastsdæma, og Anna Hulda Júlíusdóttir, djákni. Gunnar Rögnvaldsson, staðarhaldari á Löngumýri, kemur og að málum með ýmsum hætti. Þá hafa nemendur úr guðfræði- og trúarbragðadeild einnig þann kost að vinna þar hluta af starfsnámi sínu.

Það segir sig sjálft að vel þarf að standa að verki þegar tekið er á móti sex þrjátíumanna hópum eldri borgara yfir sumar, eða samtals 180 manns, frá því í lok maí fram í miðjan júlí.

Kirkjan.is ræddi við djáknana, þær Þóreyju Dögg og og Önnu Huldu, um orlofsbúðirnar. Fyrst var spurt um hvernig síðasta sumar hefði gengið fyrir sig með tilliti til veirunnar.

„Síðasta sumar var hreint út sagt stórkostlegt, við náðum að bjóða upp á sex hópa eða sex tímabil og við urðum ekki fyrir neinum meiriháttar truflunum vegna Covid og upplifðum hvað allir eru orðnir meðvitaðir um eigin sóttvarnir,“ segir Anna Hulda og Þórey Dögg bætir því við gleði að meðal gesta þeirra hafi verið mikil þar sem þau voru að hittast aftur eftir tveggja ára hlé! Árið 2020 voru engar orlofsbúðir starfandi vegna veirunnar.

En hvað er það sem eldri borgararnir sækja mest í þegar kemur að starfi orlofsbúðanna?

Samfélagið
„Það er samfélagið,“ svarar Anna Hulda ákveðin, „að eiga samfélag og næra þessa grunnþörf okkar, maður er jú manns gaman, ekki satt?“ Þórey Dögg bætir við að umhverfið hafi mikið aðdráttarafl og það öryggi sem staðurinn veitir. „Þau þekkja staðinn og okkur og vita því nákvæmlega að hverju þau ganga,“ segir Þórey Dögg. „Við höfum alla tíð lagt okkur fram um að sinna hverjum og einum af okkar bestu getu og leyst hvert þeirra vandamál ef eitthvað kemur upp á, t.d. varðandi læknis- og lyfjaþjónustu.“ Anna Hulda tekur undir hvað mikilvægi umhverfisins snertir, að þekkja það og njóta þess. Fegurðin er mikil í Skagafirðinum. „Við erum aldrei of gömul til að leika okkur og hlæja,“ segir Anna Huld og bætir því við sem skiptir náttúrlega gríðarlega miklu máli: „Og svo komumst við ekki hjá því að nefna matinn og viðmótið frá starfsfólki Löngumýrar sem er alveg einstakt, heimilislegur, næringarríkur og góður matur og við eigum öll það sammerkt að elska að heyra þessi fallegu orð: Það er kominn matur, og það oft á dag.“

Þær Þórey Dögg og Anna Hulda segja að tekist hafi að halda kostnaði við rekstur orlofsbúðanna innan hóflegra marka og þátttakendur ráði við að borga ferðina á staðinn og dvölina. Dvölin sé niðurgreidd árlega og svo hafi Reykjavíkurprófastsdæmin styrkt orlofið myndarlega á undanförnum árum. Og fleiri prófastsdæmi hafa bæst við í styrktarhópinn. Þá hafi verið haldnir fjáröflunartónleikar frá 2013 sem reyndar féllu niður í fyrra og hitteðfyrra. Þessir tónleikar hafa gefið vel í aðra hönd. Einnig sé reynt að leita styrkja sem víðast og gengur það eins og við að búast með ýmsu móti.

Báðar eru þær Þórey Dögg og Anna Hulda bjartsýnar með starfið á komandi sumri. Fullar tilhlökkunar yfir því að komast í Skagafjörðinn og þjóna eldri borgurum landsins.

Skráning í sumarbúðirnar hefst 21. mars n.k.

hsh


Samrýmdir djáknar halda utan um allt starfið - Þórdey Dögg og Anna Hulda


Margt er til gamans gert


Í veðurblíðunni á Löngumýri

  • Menning

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju