Bókaumsögn: Vörn í orðum

29. janúar 2022

Bókaumsögn: Vörn í orðum

Meinvarp, ljóðabók eftir Hildi Eir Bolladóttur - mynd: hsh

Ljóð eru dularfullt tjáningarform sem þjónar manneskjunum með ýmsu móti og í hinum ólíklegustu lífsaðstæðum. Ljóðskáldið sem fer höndum um tjáningarvöðva þess forms hefur úr ýmsu að velja.

Sr. Hildur Eir Bolladóttir stígur fram á svið í sinni annarri ljóðabók sem er nýútkomin og heitir: Meinvarp. Rödd skáldkonunnar er hæg og ómþýð. Hrein og bein. Persónuleg. Orðavalið skýrt og hugsunin prúð og á köflum ögrandi. Já, kaldhæðin með kímni í auga. Horfir yfir sviðsmyndirnar sem blasa við henni af yfirvegun.

Margir telja eflaust ljóð um jafn erfiðan sjúkdóm sem krabbabein er ekki búa yfir seiðandi aðdráttarafli eins og ljóð um land, þjóð og tungu og allt það sem upphefur landann til skýjanna og fyllir hann stolti. Krabbamein er árás á líkama og ekkert skemmtiefni nema síður sé. En þó efniviður bókarinnar sé í raun fráleitt aðlaðandi þá nær höfundur að kalla til lesandans svo hann heyrir og áhugi til að lesa áfram vaknar. Það er galdur ritlistar – að fá fólk til að lesa og ígrunda texta sem augun þræða út í gegn. Höfundur hefur listatök á þessum galdri og fer glæsilega með hann.

Ljóðskáldið svo að segja grípur undir hönd lesandans og fer með hann í dálítið ferðalag á staði sem hann er í hjarta sínu fegnastur að yfirgefa. En ferðalagið skilur eftir ýmsar hugrenningar hjá lesandanum um blæbrigðaríkar og áhrifamiklar myndir sem ljóðskáldið, fararstjórinn, bregður á loft. Þess vegna finnur lesandinn að þetta ljóðaferðalag um óþægilega staði styrkir hann sem manneskju því hann veit um svo marga sem þar hafa gengið um garða.

Lesandinn er býsna nálægt höfundinum án þess þó að hvorugur sé að kássast upp á hinn. Og það er ákveðinn þroski í ljóðlist þegar höfundur nær slíku taki. Kannski er það hispursleysi höfundar sem kemur þar við sögu ásamt einlægri og hófstilltri tilfinningaútrás sem sýnir lesanda yfirvegaða manneskju í sæld og þraut.

Ljóðskáldið snýr vörn í sókn gegn vágesti sem sækir líkama hennar heim og bregður ljóðinu fyrir sig fimlega. Ljóðið verður sem skjöldur hennar og vopn, huggun og umhugsunarefni. Það er vandasamt verk að yrkja um snúinn og lúmskan sjúkdóm sem krabbameinið er. Hún gengur á hólm við hann með ljóðstafinn í hönd sem fer henni vel.

Hildi Eir tekst að ná sér niðri á vágestinum með hinu gamla og síbeitta vopni sem er háðið og kaldhæðnin. Vissulega er hún á hættuslóð en sem betur fer var hún „fullklædd þegar vondar“ fréttir bárust því að:

vondar fréttir verða hörmulegar fréttar í láréttri stöðu
útafliggjandi
fáklædd
fullkomlega varnarlaus

því þakka ég forlögunum
að ég var nýböðuð og fullklædd
þegar mér bárust fregnirnar

                                            (bls. 8)

Trúin er sterkur undirtónn í ljóðum höfundar og skyldi engan undra þar sem hann er prestur. Þó ekki með þeim hætti að eitthvert trúboð sé á ferð heldur er trúin samofin lífi höfundar og kemur eðlilega fram eins og andardráttur hennar sjálfrar. Hvorki þarf hún að þykjast eða leika i þeim efnum heldur bara er trúin þarna. Svona. Hrein og bein, falleg, undursamleg, handan þessa heims en þó í honum. Trú hennar er sterk eins og fram kemur í ljóði um lyfjameðferðina – þar er allt í Guðs hendi (bls. 26).

Höfundur deilir hugsunum sínum með lesandanum og viðbrögðum sínum, minningum úr æsku með föður sínum og sterkri trú með sjálfsögðum og eðlilegum hætti, án allra upphrópana eða innsoginna amena. Í ljóði sem segir frá svæfingu kemst höfundur meðal annars svo að ljóðorði – hér er brot úr því ljóði:

Þunguð af djúpgráum svefni með blágræn augu stíg ég
frá borði
fiðruðum dúnmjúkum skrefum
æðarvarpið heima
og ég er barn
og pabbi rær rauðum báti
bítur í vör, brosir
lifandi
ekki dáinn eins og þegar ég sofnaði
............
Vöknun
fallegasta orð íslenskrar tungu
með ylvolga blautklúta í höndum
hreyfingarnar hægar en fumlausar
ég er sýkt
þær eru mýkt
og ég svíf inn í guðspjöllin og man þá orð nunnunnar
sem hjúkraði pabba forðum á Landakoti
hún sagðist sjá Jesú í augum allra sinna sjúklinga

                                    (bls. 11 og 12)


Kaldhæðnisleg kímni kemur vel fram hjá Hildi Eir í stuttum ljóðskotum eins og þegar matseðillinn á sjúkrahúsinu eru hrogn og lifur en mein hennar er í eigin lifur – hér er eitt brot úr því ljóði:

ég stanga meinvarp úr tönnum
og skima eftir falinni myndavél

                                 (bls. 13)

Fleiri slík ljóðskot er að finna en hér verður lesandinn ekki sviptur ánægju af þeim heldur fær að njóta þeirra við lesturinn.

Hörð lífsreynsla tekur sinn toll af fólki. Það reynir á sál og líkama. Krabbameinið sem aðrir sjúkdómar breyta fólki og iðulega ytri ásýndinni sömuleiðis, og þá oftast tímabundið. Hreinskilni kemur fram þegar höfundur svarar því til hvernig krabbameinið hafi breytt henni – hér er brot úr því ljóði:

Mér líkar betur við sjálfa mig
ég þarf ekki lengur að vera gáfuleg
ekki frekar en að vera með hár eða kynhvöt
það eina sem skiptir nú máli
er að ég fái að sitja til borðs með fólkinu mínu
eins og Jesús benti réttilega á ....

                                   (bls. 30).

Ófáar eru reynslusögur fólks sem hefur glímt við margvíslega sjúkdóma og þar á meðal krabbamein - og sagt frá því: Í blöðum, tímaritum og bókum. Sjónvarpi og kvikmyndum. Hver hefur sína sögu að segja. Manneskjan er nefnilega manneskja sögunnar. Er saga. Þegar einhver vill loka þeirri sögubók með offorsi krabbameinsins þá vaknar þörf sálarinnar til að mótmæla og segja söguna. Lífssöguna. Hildur Eir ber saman ástand líkama síns eftir geisla, skurðaðgerð, lyfjameðferð, við ástand gamallar sveitakirkju – hér er brot úr því ljóði:

málningin utan á tekin að flagna
sáluhliðið ryðgað
það ískrar í hjörum
dauðar fiskiflugur í gluggum
móða á milli glerja

                        (bls. 21)

Trúin kemur og þar fram sterk og meitluð því að hún sér trú í hverri pensilstroku altaristöflunnar í kirkjunni siginaxla.

En samlíkingin við kirkju er líka vel til fundin. Mörg okkar vita hvernig gamlar kirkjur geta verið að niðurlotum komnar. En þær eru seigar þó harðir stormar hafi leikið um þær. Þær standa þó enn. Höfundur er ung kona, hefur staðið úti í stórviðri meðferðar og sér sjálfa sig í hinu gamla guðshúsi. En hún er seig eins og það. Stendur stórviðrið af sér.

Eða í fáum orðum sagt:

Ljóðin í bókinni Meinvarp eru yfirveguð og falleg. Ljóðin eru einlæg, hispurslaus, ögrandi, kaldhæðin, kímin. Mannleg. Trúin er aldrei langt undan á ferðalagi lífsins, hún slær með hjartanu og birtist í kærleiksríku samferðafólki. Þau sýna styrkleika manneskjunnar og heilsteypt mannleg viðbrögð andspænis ógn, vágesti, sem enginn vill hýsa. Þess vegna getur þessi bók verið öðrum styrkur sem horfast í augu við harða reynslu sem sækir manneskjurnar heim. Það er sjálfssálgæsla að lesa hana sem vekur skilning á öðru fólki. Það er ekki lítið.

Kirkjan.is óskar Hildi Eir til hamingju með þessa ljómandi góðu ljóðabók.

Meinvarp, Hildur Eir Bolladóttir, Vaka-Helgafell, Reykjavík 2022, 34 bls.

hsh


  • Samfélag

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Menning

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju