Nýr organisti – og nýtt orgel

14. febrúar 2022

Nýr organisti – og nýtt orgel

Lára Bryndís Eggertsdóttir - mynd: Gunnar Freyr Steinsson

Þau í Grafarvogi sitja ekki auðum höndum.

Nýr organisti kemur senn til starfa og nýtt orgel verður tekið i notkun. 

Lára Bryndís Eggertsdóttir hefur verið ráðin organisti við Grafarvogssókn. Þar með verða tveir organistar í fullu starfi við sóknina. Hinn er Hákon Leifsson.

Hver er Lára Bryndís?
Hún byrjaði ung að læra á píanó og 14 ára gömul tók hún fyrstu skrefin sem afleysingaorganisti í Langholtskirkju. Hún lauk einleikaraprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar með hæstu einkunn vorið 2002 undir handleiðslu Harðar Áskelssonar. Lára Bryndís flutti árið 2018 aftur heim til Íslands eftir 10 ára búsetu í Danmörku þar sem hún lauk meistaraprófi í kirkjutónlist frá Tónlistarháskólanum í Árósum vorið 2014. Aðalkennarar hennar þar voru Ulrik Spang-Hanssen og Lars Colding Wolf. Einnig starfaði hún sem organisti við Sønderbro kirkju í Horsens og semballeikari hjá barokksveitinni BaroqueAros í Árósum. Fyrst eftir heimkomuna var Lára Bryndís organisti Hjallakirkju í Kópavogi, en starfar nú tímabundið við Neskirkju í Reykjavík uns hún tekur við stöðu organista og kórstjóra í Grafarvogskirkju. Meðfram organistastörfunum kennir Lára orgelleik við Tónskóla þjóðkirkjunnar. Lára hefur haldið fjölmarga einleikstónleika á orgel, bæði hérlendis og á hinum Norðurlöndunum. Árið 2014 stóð hún fyrir tónlistarverkefninu „Ég heyrði þytinn frá vængjum þeirra“, þar sem sjö íslensk tónskáld sömdu orgelverk að beiðni Láru, og gaf út samnefndan geisladisk.

Lára Bryndís mun m.a. stjórna kórnum Vox Populi sem fyrst og fremst syngur í Kirkjuselinu í Spöng auk þess að sinna hefðbundnu starfi organista í samvinnu við Hákon Leifsson tónlistarstjóra Grafarvogssóknar.

Gert er ráð fyrir því að Lára Bryndís hefji störf í Grafarvogssókn í aprílmánuði.

Nýtt orgel verður sett upp í Grafarvogskirkju í maímánuði. Orgelið er 33 radda, snemm-rómantískt 19. aldar pípuorgel smíðað af orgelsmiðnum Farago Attila. Orgelið hefur nútímalegt útlit sem hæfa mun kirkjunni og verður með fullkomnum stafrænum búnaði svo eitthvað sé nefnt.

Til stóð að orgelið yrði sett upp fyrr en kórónuveirufaraldurinn tafði verkið eins og svo margt annað. Þegar búið verður að setja orgelið upp þarf að „spila það til“ í sumar og gefa því tækifæri til að jafna sig og venjast nýjum aðstæðum. Stefnt er að því að vígja hljóðfærið í septembermánuði.

hsh


  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Starf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju