Ekki alveg búið...

26. febrúar 2022

Ekki alveg búið...

Lindarbakki í Bakkagerði á Borgarfirði eystri, reistur 1899 - kennileiti í þorpinu eins og kirkjan - mynd: hsh

Það hefur ekki farið farið fram hjá neinum að búið er að aflétta öllum sóttvarnaaðgerðum vegna kórónuveirunnar. Hvort tveggja reglum sem voru í gildi innanlands og við landamærin. Segja má að nú séu engar takmarkanir til staðar í daglegu lífi fólks nema þær sem það setur sjálft og svo landslög.

Þessu hefur að sjálfsögðu verið fagnað.

En svo er að sjá sem allir landsmenn séu ekki alveg búnir að bíta úr nálinni með kórónuveiruna þó að fögnuðurinn sé mikill yfir afléttingunum.

Kirkjan.is rak augun í það á kirkjuvappi sínu að guðsþjónusta sem vera átti í Bakkagerðiskirkju á morgun, 27. febrúar, var blásin af sem og kaffihúsamessa sem átti að vera á Arnhólsstöðum í Skriðdal sama dag. Skýringin á því var sú að á svæðinu væri mikill fjöldi kóvidsmita – og auk þess væri færðin tæp.

Kirkjan.is hafði samband við sóknarprestinn, sr. Þorgeir Arason, og spurði hann nánar út þetta.

„Já, það er allt vaðandi í kóvid hér á Héraði þessa dagana,“ segir sr. Þorgeir, „þá kom upp smit á Borgarfirði eystra, Bakkagerðissókn, í fyrsta skipti í öllum faraldrinum.“

Sr. Þorgeir segir að báðum messunum sé aflýst að ósk sóknarnefndanna sem telja ekki ráðlegt að safna fólki saman eins og sakir standa. Þá komi einnig til erfið færð.

Arnhólsstaðir í Skriðdal
„Er félagsheimili þeirra Skriðdælinga - þar hefur aðventuhátíð sóknarinnar jafnan farið fram, kirkjukaffi eftir sumarmessu í Þingmúlakirkju o.fl. viðburðir tengdir kirkjunni (t.d. erfidrykkjur og skírnarveislur) enda bara steinsnar milli Þingmúla og Arnhólsstaða. Ekki er venja að messa í þessari fámennu sókn á útmánuðum, en aðdragandinn að kaffihúsamessunni var sá að bæði aðventuhátíðin og jólamessan féllu niður vegna veirunnar skæðu og átti nú að safnast saman til helgrar stundar í gleði og þakklæti þess í stað. En svo fór sem fór, en stefnt á að reyna aftur eftir nokkrar vikur,“ segir sr. Þorgeir.

Finnur þú fyrir því að fólk sé áhugasamara um að mæta á kirkjulega viðburði eftir að flest öllu var aflétt?

„Það er nú varla komin sú reynsla að hægt sé að dæma um það,“ svarar sr. Þorgeir, „sér í lagi í ljósi kóvid-ástandsins hérna. En ég get þó nefnt að mætingin í sunnudagaskólann hefur verið alveg prýðileg eftir að við gátum byrjað aftur, um 20 börn í samveru og annað eins af foreldrum. Mér þykir það ágætt - og raunar betra en stundum áður á þessum árstíma - í ljósi þess að á sunnudagsmorgnum eru hér bæði körfuboltaæfingar og skíðaskóli fyrir yngstu börnin.“

Kaffihúsamessan sem minnst var á hér að framan vekur upp spurningar hvort þau í Egilsstaðaprestakalli séu með fleiri messuform.

„Við höfum prófað okkur áfram með ýmis messuform í prestakallinu, t.d. gospelmessu, bleika messu í október, græna messu tileinkaða umhverfismálum o.fl.“ segir sr. Þorgeir. „Síðastliðinn var árleg konudagsmessa sem að þessu sinni var í umsjá sr. Brynhildar Óla Elínardóttur og Dóru Sólrúnar Kristinsdóttur, djákna, en þær skipta nú með sér afleysingu í prestakallinu.“ Hann segir að Dóra hafi flutt áhrifaríkan trúarvitnisburð og sr. Brynhildur hafi stýrt prédikun í formi leikræns gjörnings. Messuform og bænir hafi verið í anda Kvennakirkjunnar. „Þá kom kvennakórinn Héraðsdætur fram og mæting var fín, og góður andi,“ segir sr. Þorgeir í lokin.

Sjálfur hefur sóknarpresturinn ekki smitast af veirunni svo hann viti.

Úr frétt RÚV
Næstum einn af hverjum tuttugu Austfirðingum liggur nú í covid og vantar fjórðunginn af nemendum í Egilsstaðaskóla. ...

Á Austurlandi búa næstum 11 þúsund manns og slapp landsfjórðungurinn hvað best allra landshluta í fyrri bylgjum faraldursins. Nú er hins vegar mikið um smit. Í gær var tilkynnt um rúmlega 160 ný smit og í morgun bættust 115 í hópinn. Um 500 manns eru í einangrun. Smitin grassera ekki síst á Egilsstöðum núna og í Egilsstaðaskóla vantar í dag 115 börn og um 20 starfsmenn.

Kirkja við ysta haf, kirkjan.is 24. júní 2021. 

hsh


  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Sóknarnefndir

  • Trúin

  • Covid-19

holarihjaltadal.jpg - mynd

Hólahátíð 2025: Forseti Íslands flytur Hólaræðu

12. ágú. 2025
Hólahátíð fer fram dagana 16. - 17. ágúst n.k. Halla Tómasdóttir forseti Íslands flytur Hólaræðuna að þessu sinni.
garpsdalskirkja2.jpg - mynd

Kirkjuklukkum á Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hringt samtímis til stuðnings íbúum Gasa

05. ágú. 2025
Fimmtudaginn 7. ágúst kl. 13:00 verða kirkjuklukkum dómkirknanna þriggja á Íslandi hringt og hvetja biskupar Íslands til þess að öðrum kirkjuklukkum verði hringt samtímis. Systurkirkjur Þjóðkirkjunnar í Noregi, Svíþjóð...
Elísa Mjöll Sigurðardóttir

Elísa Mjöll ráðin

22. júl. 2025
...sóknarprestur við Breiðafjarðar og Strandaprestakall