Yfirtaka kirkju

27. febrúar 2022

Yfirtaka kirkju

Hafnarkirkja á Höfn í Hornafirði, í Bjarnanesprestakalli - mynd: Gunnar Stígur Reynisson

Kirkjan.is rak augun í að fermingarbörn í Bjarnanesprestakalli munu láta til sín taka í dag með áþreifanlegum hætti. Boðuð er yfirtaka þeirra á Hafnarkirkju á Höfn í Hornafirði í guðsþjónustu kl. 14.00. Eftir yfirtökuna bjóða þau svo í messukaffi.

Hvað er um að vera?
„Það er smávegis uppreisnarandi í þessu sem við höfum gaman að,“ segir sóknarpresturinn sr. Gunnar Stígur Reynisson glaðhlakkalegur þegar kirkjan.is spyr hann út í málið. „En þetta er vel skipulagður uppreisnarandi hjá okkur sr. Maríu Rut Baldursdóttur.“

„Yfirtakan fer þannig fram að væntanleg fermingarbörn fá að skipuleggja hvern lið messunnar,“ segir sr. Gunnar Stígur, „við hittum þau og förum yfir liðina, þau velja sálma og lög með hjálp okkar sr. Maríu Rut.“

Sr. Gunnar Stígur segir að þau velji líka bænir og hann ásamt sr. Maríu Rut fara yfir bænirnar sem þau vilja fara með. „Guðspjall og prédikun verða í formi flettimyndabibliu.“

Fermingarbörnin sjá líka um að kveikja á kertum og taka á móti fólki. Þau kynnast þá mikilvægum störfum meðhjálpara og kirkjuvarða.

Og þau bjóða í messukaffið? Baka þau?

„Já, við höfum hvatt þau til að baka og einhver þeirra gera það. Þetta verður spennandi,“ segir sr. Gunnar Stígur.

Þessi aðferð virkjar fermingarbörnin og þau kynnast kirkjustarfinu hinu megin frá ef svo má segja og það mun reynast þeim hollt. Auk þess æfir þetta framkomu þannig að það er viðbúið að þau sjálf muni læra mikið af því og hafa sömuleiðis ánægju af.
Sr. Gunnar Stígur segir að fermingarfræðslan hafi gengið sinn vanagang þrátt fyrir kórónuveiruna og bætir við að þau hafi verið heppin hvað smit snertir allt þar til síðustu tvær vikurnar. „..þrátt fyrir að hafa verið heppin þá við treystum okkur ekki í fermingarferð í vetur. En stefnum á ferð í einhverri mynd næsta vetur.“

Hvað eru fermingarbörnin mörg?

„Þau eru færri núna en undanfarin ár og líklega aldrei verið færri síðan ég kom til Hafnar sem prestur fyrir tíu árum,“ segir sr. Gunnar Stígur. Það eru sautján börn sem fermast.

En hvað er um fermingarfræðsluna að segja? Læra fermingarbörn enn sálma utan bókar?

„Við höfum nú ekki tekið upp á því að láta þau læra sálma,“ segir sr, Gunnar Stígur, „bæn eins og Faðir vorið sem allir kunnu hér áður er fyrir sumum nánast ókunnug og þess vegna höfum við einbeitt okkur að grunninum.“ Hann segir að þar séu efst á blaði Faðir vorið og trúarjátningin. „Svo höfum við leyft þeim að velja á milli Gullnu reglunnar, Litlu Biblíunnar eða Tvöfalda kærleiksboðorðsins.“ Þá læra þau bænavers sr. Hallgríms Péturssonar Vertu Guð faðir.

„En annars fórum við af stað með þessa yfirtöku-messu til að kynna þeim messuformið og tengjast messunni betur,“ segir sr. Gunnar Stígur í lokin.

Þá er bara óska þeim á Höfn góðs gengis og vona að yfirtakan takist sem best og allir læri sem mest af henni.

hsh

 


  • Frétt

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Fræðsla