Samstaða í tónum

28. febrúar 2022

Samstaða í tónum

Kór Fella- og Hólakirkju syndur undir stjórn Arnhildar Valgarðsdóttur - skjáskot: hsh

Í gær var flutt í mörgum kirkjum hér á landi tónlist sem tengist Úkraínu með einum eða öðrum hætti. Fjöldi organista lék þjóðsöng Úkraínu í lok guðsþjónustunnar. Þá fluttu margar kirkjur litanínu fyrir Úkraínu og sungu í henni úkranískt bænalag sem er að finna í sálmabókinni, nr. 739.

„Man ekki eftir slíku átaki í kirkjunni en það er gleðilegt þegar kirkjufólk stendur saman,“ segir Guðmundur Sigurðsson, organisti við Hafnarfjarðarkirkju en þar var leikinn þjóðsöngur Úkraínu í lok guðsþjónustunnar.

Magnús Ragnarsson, organisti í Langholtskirkju, útsetti úkraínska þjóðlagið Hljóðnar nú haustblær, fyrir blandaðan kór.

Sálmabókanefnd þjóðkirkjunnar sendi biskupi Íslands, sr. Agnesi M. Sigurðardóttur, tillögu sem var Litanía vegna innrásinnar í Úkraínu. Biskup sendi hana svo til presta og organista.

 
Kór Fella- og Hólakirkju syngur Hljóðnar nú haustblær - Arnhildur Valgarðsdóttir stjórnar og leikur undir

Litanía
Miskunna þú okkur, miskunna þú okkur, miskunna þú okkur, Drottinn Guð. Miskunnsami Guð. Með ótta og hryllingi horfum við til atburðanna í Ukraínu. Við óttumst stríð sem leiðir af sér þjáningu og dauða yfir fólk í Úkraínu, í Rússlandi og í Evrópu allri. Við biðjum þig að vernda og blessa bræður okkar og systur gegn innrás rússneska hersins. Um leið biðum við þig að blessa þau sem send hafa verið af yfirvöldum í Rússlandi inn í Ukraínu til þess brenna borgir og deyða og meiða börn og ungmenni, fullorðna og aldraða sem áður voru og enn eru bræður og systur þeirra og okkar.
Við áköllum þig !

Miskunna þú okkur, miskunna þú okkur, miskunna þú okkur, Drottinn Guð.

Við biðjum fyrir þeim sem gegna ábyrgðarstöðum í Rússlandi, Úkraínu, Hvítarússlandi, Bandaríkjum Norður Ameríku og í Evrópusambandinu að þau finni leið út úr stigmögnun ófriðarins. Lát okkur öll afvopnast með orðum og gjörðum. Milda hin forhertu hjörtu. Varðveit okkur fyrir siðlausum og spilltum duttlungum hinna voldugu þessa heims og lát þau þekkja og virða sín eigin mæri og mörk sem og landamæri allra ríkja.
Við áköllum þig!

Miskunna þú okkur, miskunna þú okkur, miskunna þú okkur, Drottinn Guð.

Friðarins Guð. Við biðjum þig að standa gegn þeim sem spilla friði í heiminum en efla þau sem styðja sátt og einingu. Gef frið í Ukraínu. Gef frið á jörðu. Gef frið í hjörtu allra þinna barna í Jesú nafni.
Við áköllum þig!

Miskunna þú okkur, miskunna þú okkur, miskunna þú okkur, Drottinn Guð.

Bænastund í Fella- og Hólakirkju 25. febrúar s.l. vegna innrásarinnar í Úkraínu

hsh

  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju