Ætlar þú að bjóða þig fram?

3. mars 2022

Ætlar þú að bjóða þig fram?

Mynd frá kirkjuþingi - stundum þarf að gera fundarhlé - mynd: hsh

Kirkjuþingskosningar fara fram á næstunni en frestur til að skila inn framboðum rennur út 15. mars nk.

Þau sem sitja á kirkjuþingi gegna ábyrgðamiklu hlutverki þar sem þingið hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, og þar með talið fjárstjórnarvald, nema lög segi annað til um það, 

Kirkjuþingsfulltrúar móta stefnu í málaflokkum sem snerta þjóðkirkjuna en þó ekki í þeim málum er snúa að kenningu hennar. Þingið hefur vakandi auga með öllu starfi kirkjunnar. Ábyrgð kirkjuþingsfulltrúa er vissulega mikil en henni fylgir ánægja og góð tilfinning fyrir því að vinna þjóðkirkjunni gagn.

Alls sitja 29 fulltrúar á kirkjuþingi, 12 vígðir og 17 leikmenn. Kosið er til fjögurra ára.

Að sjálfsögðu er æskilegt að fólk á öllum aldri sitji á kirkjuþingi, karlar og konur, landsbyggðarfólk og þéttbýlisfólk, úr sem flestum starfsstéttum til að sýna hina miklu breidd sem þjóðkirkjan hefur. 

Hvernig er ferillinn þegar fólk vill gefa kost á sér til kirkjuþings?

1. Hver er kjörgengur?
Svar:
a) Hver vígður einstaklingur, prestur eða djákni, sem á kosningarrétt skv. 3. gr. starfsreglna um kjör til kirkjuþings.
b) Hver leikmaður sem skírður er, hann eða hún verður að vera í þjóðkirkjunni, og hafa náð 18 ára aldri – verða sömuleiðis að hafa meðmæli sóknarnefndar sinnar.
c) Þá verða öll þau er fullnægja þessum skilyrðum að hafa óflekkað mannorð eins og segir í 2.-3. mgr. 7. gr. reglna um kjör til kirkjuþings.

2. Hvað eiga þau að gera sem hafa ákveðið að gefa kost á sér?
Svar:
Þetta gildir um alla frambjóðendur:
a) Tilkynna kjörstjórn framboð sitt skriflega í síðasta lagi 15. mars 2022: Nafn, kennitala, heimilisfang, netfang, símanúmer. Senda skal tilkynninguna í Katrínartún 4, 105 Reykjavík, eða í tölvupósti á kirkjan@kirkjan.is – gott er að senda ljósmynd með sem verður á kjörseðli.
b) Skila inn sakavottorði. Það er hægt að sækja á vefinn hér.
c) Vera í þjóðkirkjunni en biskupsstofa staðfestir að frambjóðandi sé skráður í þjóðkirkjuna.

Leikmenn sem ekki hafa setið á kirkjuþingi:

a) Skila inn fæðingarvottorði/skírnarvottorði. Þjóðskrá gefur út fæðingarvottorð með skírnardegi skráðum inn á vottorðið en biðja þarf sérstaklega um það. Fæðingarvottorð með skráðum skírnardegi dugar. Sótt hér. - Hægt er að fá vottorðið rafrænt gegnum island.is eða semja um öðruvísi afhendingu.
b) Skírnarvottorð fæst hjá presti í þeirri kirkjusókn sem skírn fór fram.

Allir leikmenn:
a) Fá meðmæli sóknarnefndar. Skrifleg yfirlýsing frá sóknarnefndarformanni um meðmæli sóknarnefndar með framboði viðkomandi frambjóðanda.
b) Sóknarnefndarformaður sendir meðmælin á: kirkjan@kirkjan.is Sjá einnig hér undir flipanum: Frambjóðendur.

3. Hvar kemur kirkjuþing saman?
Svar: Kirkjuþing hefur komið saman á ýmsum stöðum. Hin síðari ár einkum í Katrínartúni 4, þá í safnaðarheimilum – og svo í gegnum fjarfundabúnað á kórónuveirutíð

4. Hvar get ég lesið mig til um kirkjuþing?
Svar: Starfsreglur sem segja til um störf þingsins (þingskapareglur). Þjóðkirkjulög, 7. -9. gr.

5. Fyrir hvaða kjördæmi á ég að bjóða mig fram?
Svar: Kjördæmi fyrir vígt fólk eru þrjú og níu fyrir þau sem ekki eru vígð. Sjá hér 2. gr. starfsreglna um kjör til kirkjuþings. Þú þarft að vita í hvaða prófastsdæmi sókn þín er í og fá svo meðmæli frá sóknarnefnd þinni.

6. Er mikil vinna í því að vera fulltrúi á kirkjuþingi?
Svar: Þingið fundar oft eina viku í einni lotu, stundum skemur og þá í fleiri lotum. Það fer eftir því hvaða mál eru til umfjöllunar. Yfirleitt er reynt að halda fund um helgar og fram í vikuna þar á eftir. Auðvitað þurfa fulltrúar að kynna sér mál, lesa þau og setja sig inn í þau.

7. Er greitt fyrir að sitja á kirkjuþingi?
Svar: Já, það er svokallað þingfararkaup. Um 50.000 kr. fyrir hvern dag og svo þóknun fyrir að sitja nefndarfundi milli þingfunda.

8. Hver veitir nánari upplýsingar?
Svar: Ragnhildur Benediktsdóttir, starfsmaður kjörstjórnar: ragnhildurbe@kirkjan.is

9. Hvenær verður kosið?
Svar: Fimmtudaginn 12. maí frá kl. 12.00 til kl. 12.00 þriðjudaginn 17. maí.

10. Hvenær kemur svo nýkjörið þing saman?
Svar: Í haust.

Atkvæðagreiðsla til kirkjuþings er rafræn. 

Kirkjan.is mun á næstu dögum birta stutt viðtöl við fólk sem setið hefur á kirkjuþingi. Það varpar ljósi á störf kirkjuþings sem geta verið afar skemmtileg og upplýsandi um störf kirkjunnar fyrir þau sem eru að velta því fyrir sér að gefa kost á sér til þingstarfa. Vissulegar er stundum tekist á en oftar en ekki er fólk nokkuð samstíga. Allir vilja standa við bakið á þjóðkirkjunni og vinna henni sem mest gagn. Öll þessi viðtöl sýna að kirkjuþingsseta er gefandi og lærdómsrík.

hsh

 

  • Kirkjuþing

  • Kosningar

  • Leikmenn

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þing

  • Frétt