Sungið fyrir friði í Úkraínu

3. mars 2022

Sungið fyrir friði í Úkraínu

Söngfólk af öllum toga kom saman til að biðja fyrir friði/AMFInnrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu hefur hreyft við heimsbyggðinni allri og víða um heim kemur fólk saman til að sýna samstöðu með þeim sem líða í þeim hildarleik. Ef til vill má segja að máttur almennings til að hafa áhrif sé lítill í slíkum aðstæðum, þar sem aðgerðir sem beinast að því að hafa áhrif á stríðsrekstur Rússa fara fram á sviði efnahagsmála heimsins, enn sem komið er. 
Það breytir því ekki að fólk kemur saman og skipuleggur friðsamleg mótmæli til að eiga samfélag um þá von að til friðar horfi. Að morgni fimmtudagsins 3. mars komu hátt á annað hundrað manns saman við sendiráðsbyggingar við Túngötu og Garðastræti til að biðja fyrir friði með táknrænum hætti og mátti þar sjá mikið af söngfólki sem tengst hefur kirkjulegu kórastarfi í gegnum tíðina. 
 
Sameiginlegar rætur þjóðanna í kirkjusögulegu ljósi
Bæði Lúterska heimssambandið og Alkirkjuráðið (World Council of Churces) hafa fordæmt innrás Rússa í Úkraínu með afgerandi hætti og eru bæna- friðar- og samstöðustundir skipulagðar í kirkjum víðsvegar í Evrópu auk þess sem helgihaldið og bænarefnin mótast af þessum heimsögulegu atburðum. Ekki er nóg með að kennilýðurinn fjalli um stöðuna í prédikunum sínum heldur gerir söngfólk sitt besta til að velja tónlist sem tali inn í samtímann, meðal annars til að færa söfnuðina nær þeim ríkulega kirkjulega og menningarsögulega arfi sem tengist Úkraínu.

Þess má geta að áskoranir hafa borist frá Alkirkjuráðinu til Kýrils patríarka yfir rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni til að reyna hafa áhrif á framgang mála, enda er mikil hætta á að ómetanlegar menningarsögulegar byggingar og sameiginlegur trúarlegur arfur Úkraínumanna og Rússa verði fyrir miklum skaða verði ráðist inn í Kænugarð með stórvirkum herafla. Í borginni eru margar kirkjur, sumar hverjar á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna, og hafa prýtt borgina í yfir 1000 ár. Segja má að rætur rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar liggi í þeim atburði þegar Vladimir mikli (einnig 'grimmi') tók skírn ásamt öllum íbúum Kænugarðs í ánni Dnepr árið 988.  Vladimir þessi, stofnandi stór-rússneska keisaradæmisins var síðar tekinn í dýrlingatölu.

Árið 2019 klauf úkraínska rétttrúnaðarkirkjan sig frá hinni rússnesku, með samþykki Bartholomeusar patríarka í Konstantínópel sem formlega er litið á sem höfuð Austurkirkjunnar, með sama hætti og kaþólskir hlýða úrskurðum eða ákvörðunum Frans páfa í Róm. Hafa þau sjónarmið leynt og ljóst komið fram hjá rússneskum ráðamönnum að undirliggjandi ástæða Pútíns fyrir því að innlima Úkraínu í Rússland og sér í lagi Kænugarð, upprunastað kristindómsins í rússnesku samhengi, sé sú að stefna þurfi að „andlegri og menningarlegri sameiningu á ný.“ Þó skal ósagt látið hversu sterk guðfræðileg rök hnígi að því að réttlæta stríð sitt með þeim hætti.

Það verður þó að segjast að í þessu ljósi var ákaflega viðeigandi að samstöðustund söngfólksins litaðist af þeim bænar- og friðaranda sem kristinn siður vill standa fyrir í samtímanum. Dagskráin hófst á því að sálmur Kolbeins Tumasonar við lag Þorkels Sigurbjörnssonar, „Heyr himna smiður“ var sunginn en síðan tók við „Til þín, drottinn hnatta og heima“ sálmur Páls Kolka, einnig við lag Þorkels. Lauk dagskránni svo á Maístjörnu Halldórs Laxness sem þjóð öll þekkir. 

amf/ 

Myndir með frétt

  • Fjölmiðlar

  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist