Æskulýðsdagurinn

5. mars 2022

Æskulýðsdagurinn

Í Grensáskirkju: Æft fyrir Æskulýðsdag þjóðkirkjunnar - Davíð Sigurgeirsson leiðbeinir börnunum - mynd: Kristján Kjartansson

Á morgun verður Æskulýðsdagur þjóðkirkjunnar haldinn hátíðlegur víða í kirkjum um land. Augum er sérstaklega beint að börnum og unglingum og reynt að sníða dagskrána með þeirra þarfir í huga. Víða eru líka fjölskyldumessur þar sem boðið er upp á fjölbreytilega dagskrá.

Hér verða aðeins tínd til nokkur dæmi sem sýna hvað margt er í boði vítt og breitt um landið– kirkjan.is hvetur fólk til að líta á heimasíður safnaða sinna og Feisbókarsíður og sjá hvað er í boði.

Æskulýðsdagur þjóðkirkjunnar
Síðustu tvö árin hefur barna- og unglingastarf safnaðanna raskast á ýmsan hátt vegna kórónuveirunnar. Nú eru hins vegar bjartir tímar fram undan og veiran að færast smám saman út af sviðinu. Því fagna allir – og ekki síst æska landsins - sem getur núna stigið fram á sviðið, prúð og frjálsleg í fasi. Æskulýðsdagur þjóðkirkjunnar er kærkominn dagur til þess.

Þetta er í 63. sinn sem Æskulýðsdegi þjóðkirkjunnar er fagnað en hann var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1959.

Kirkjan.is vill benda á dagskrá í kirkjunum tveimur í Fossvogsprestakalli, Bústaðakirkju og Grensáskirkju, á æskulýðsdaginn.

Æskulýðsmessan byrjar kl. 11.00 í Grensáskirkju, þar sem fermingarbörn þjóna ásamt Sóleyju Öddu, sr. Evu Björk Valdimarsdóttur og messuþjónum. Stúlknakór Reykjavíkur syngur, Ásta Haraldsdóttir organisti leikur á hljóðfærið

Barnamessa fyrir yngstu börnin fer fram í Bústaðakirkju klukkan 11.00 þar sem Jónas Þórir verður við hljóðfærið. Daníel Ágúst Gautason, Kata og séra Þorvaldur Víðisson leiða stundina, þar sem brúður gleðja börnin, Biblíusaga verður sögð, mikill söngur og gleði

Æskulýðsmessa fer fram klukkan 13.00 í Bústaðakirkju, þar sem Pálmi Gunnarsson stórsöngvari mun syngja við undirleik Jónasar Þóris organista. Samspilshópur Einars Vals Schevings úr Tónlistarskóla FÍH mun koma fram. Félagar úr Kammerkór Bústaðakirkju syngja, fermingarbörn lesa bænir og ritningarlestra og þjóna ásamt messuþjónum og Sóleyju Öddu Egilsdóttur, sr. Evu Björk Valdimarsdóttur og sr. Þorvaldi Víðissyni.

Þau blása líka til hátíðar í Árbæjarkirkju. Þar taka börnin þátt í guðsþjónustu sem hefst kl. 11.00 ásamt þeim sr. Þór Haukssyni, Ingunni Björk Jónsdóttur, djákna, djákna, Aldísi Elvu Sveinsdóttur, Andreu Önnu Arnardóttur og Thelmu Rós Arnardóttur. Aðalheiður Þorsteinsdóttir leikur á flygilinn. Í lok stundarinnar verða börnin með góðgerðasölu og rennur allur ágóði til Hjálparstarfs kirkjunnar. Þá er boðið upp á kleinur, kaffi og ávaxtasafa.

Og í Seljakirkju verður líka æskulýðsfjör – sunnudagaskólinn kl. 11.00 með söng og brúðuleikhúsi. Svo er guðsþjónusta kl. 13.00. Þar prédikar Steinunn Anna Baldvinsdóttir en sr. Bryndís Malla Elídóttir þjónar. Æskulýðsfélagið Sela tekur þátt í guðsþjónustunni. Kjörorð þeirra er: Biðjum fyrir friði í heiminum!

Í Guðríðarkirkju sprettur fram töframaðurinn Einar Aron og leikur listir sínar. Það er sr. Pétur Ragnhildarson sem þjónar fyrir altari. Tónlistarflutningur í umsjá Ásbjargar Jónsdóttur. Fjölskyldumessan hefst kl. 11.00. Kaffi og ávaxtasafi í lok stundarinnar.

Í Langholtskirkju  verður fjölskyldumessa í tilefni dagsins og hefst hún kl. 11.00. Sr. Aldís Rut Gísladóttir leiðir stundina. Krúttakórinn vinsæli kemur fram en honum stjórnar Björg Þórsdóttir og Móeiður Kristjánsdóttir. Að lokinni guðsþjónustunni verður léttur hádegisverður.

Á Selfossi verður fjölskylduguðsþjónusta kl. 11.00 í Selfosskirkju. Unglinga- og barnakór kirkjunnar syngur undir stjórn organistans, Edit A. Molnár. Það eru þau Sjöfn Þórarinsdóttir æskulýðsfulltrúi og sr. Gunnar Jóhannesson sem sjá um stundina. Unglingakórinn selur í lok stundarinnar kleinupoka í fjáröflunarskyni.

Fjölskylduguðsþjónusta verður í Hveragerði, barnakór kirkjunnar syngur og það í fyrsta sinn við guðsþjónustu. Sr. Ninna Sif Svavarsdóttir sér um stundina.

Í Fella- og Hólakirkju  slá þau heldur ekki slöku við. Um kvöldið verður æskulýðsguðsþjónusta og hefst hún kl. 20.00. Sr. Pétur Ragnhildarson leiðir stundina, Íris Rós og Jóhanna Elísa sjá um tónlistina og leiðtogar úr barna- og unglingastarfinu taka þátt í stundinni ásamt fermingarbörnum úr Fella- og Hólakirkju og Breiðholtskirkju. Eftir stundina verður boðið upp á léttar veitingar.

Í Lágafellskirkju verður fjölskylduguðsþjónusta kl. 13.00. Hún er í umsjón sr. Ragnheiðar Jónsdóttur og Boga Benediktsson. Ungmennakórinn Fermata leiðir tónlist og þar við stjórnvölinn er Magnús Þór Sveinsson. Svo í lokin verður vöfflu-messukaffi í safnaðarheimili þeirra Mosfellsbúa í Þverholti 3. Fermingarbörnin selja vöfflu fyrir steinhús til styrktar munaðarlausum börnum í Úganda.

Í Hallgrímskirkju efna þau til æskulýðs-og friðarguðsþjónustu kl. 11.00 og fermingarbörn aðstoða. Kammerkórinn Aurora syngur undir stjórn Sigríðar Soffíu Hafliðadóttur. Danshópurinn Dass kemur og sýnir okkur dansatriði. Það verða makkarónur og kleinur í messukaffinu.

Hafnarfjarðarkirkja boðar til æskulýðsmessu undir kjörorðinu: Kærleikurinn er mestur! Hún hefst kl. 20.00. Halli Melló talar og syngur. Unglingakór Hafnarfjarðarkirkju syngur undir stjórn Helgu Loftsdóttur. Agnar Már Magnússon leikur á píanó. Fermingarbörn verða með atriði. Sóknarpresturinn sr. Jónína Ólafsdóttir sér um messuna.

Þema dagsins á æskulýðsdeginum í Neskirkju er friður. Fermingarbörn aðstoða í æskulýðsguðsþjónustunni sem hefst kl. 11.00. Barnakór Neskirkju syngur undir stjórn Láru Bryndísar Eggertsdóttur, organista, sem einnig leikur undir söng. Kristrún Guðmundsdóttir og Hilda María Sigurðardóttir aðstoða. Prestur er sr. Steinunn A. Björnsdóttir. Hressing og samfélag eftir guðsþjónustu.

Æskulýðsmessa verður í Borgarneskirkju og hefst hún kl. 11.00. Fermingarbörn taka þátt í henni með ýmsum hætti en prestur er sr. Þorbjörn Hlynur Árnason. Heiðrún Helga annast stund með börnunum. Kirkjukórinn leiðir sálmasöng undir stjórn Steinunnar Árnadóttur organista.

Kópavogskirkja – þar verður barna-og fjölskylduguðsþjónusta kl. 11.00 sem sr. Sigurður Arnarson stýrir ásamt sunnudagaskólakennurum og hljómsveit. Börn úr skólakór Kársness syngja undir stjórn Álfheiðar Björgvinsdóttur.

Æskulýðspresturinn sr. Sigurður Már Hannesson prédikar í æskulýðsguðsþjónustu í Ástjarnarkirkju kl. 17.00. Barnakór kirkjunnar syngur en honum stjórnar Davíð Sigurgeirsson. Sr. Arnór Bjarki Blomsterberg þjónar fyrir altari ásamt prédikara. – Þeir prestarnir verða svo á ferð í Kálfatjarnarkirkju kl. 14.00 í sömu erindagjörðum og þá verður Ungmennakórinn Vox Felix með í för en honum stjórnar Rafn Hlíðkvist Björgvinsson.

Bessastaðakirkja er með æskulýðsguðsþjónustu kl. 11.00. Þar er einvalalið við stjórn, prófasturinn sr. Hans Guðberg Alfreðsson, Vilborg Ólöf djákni og Sigrún Óska, sunnudagaskólaleiðtogi. Söngur undir stjórn Ástvaldar Traustasonar. Íþróttakonan Kolbrún Þöll Þorradóttir flytur ræðu.

Urriðaholtsskóli er í Garðasókn/Vídalínskirkja og þar verður kl. 11.00 sunnudagaskólahátíð sem sr. Matthildur Bjarnadóttir, æskulýðsprestur, sér um. Barna- og unglingakórar syngja undir stjórn Davíðs Sigurgeirssonar. Hinn kunni leikhópur, Lotta, kemur í heimsókn.

Fjölskyldumessa verður í Digraneskirkju og um hana sér sr. Karen Lind Ólafsdóttir, hefst hún kl. 11. 00. Tónlistin í höndum Ásdísar Magdalenu Þorvaldsdóttur. Einnig fjölskyldumessa í Hjallakirkju kl. 17.00 í höndum sama prests en tónlist á könnu Matthíasar V. Baldurssonar.

Fjölskyldumessa í Dómkirkjunni kl. 11.00. Sr. Sveinn Valgeirsson þar í stafni ásamt sr. Elínborgu Sturludóttur. Dómkórinn á staðnum að vanda.

Fjölskylduhátíð verður í Víðistaðakirkju kl. 11.00. en sunnudagaskólinn hefst klukkutíma fyrr. Barnakór kirkjunnar syngur undir stjórn Sveins Arnars Sæmundssonar. Benedikt Sigurðsson og Helga Ingibergsdóttir sjá um stjórna stundunum.

Í Útskálakirkju hefst fjölskyldumessa kl. 14.00, Gerðaskólakórinn syngur en honum stjórnar Freydís Kneif Kolbeinsdóttir.

Í kirkjunni á Egilsstöðum verður mikið um að vera: Barna- og fjölskylduguðsþjónusta kl. 10.30. Þau kalla það fimm ára messu. Börn sem fædd eru 2017 eru heiðursgestir og fá bókagjöf. Um stundina sjá Berglind Hönnudóttir, fræðslufulltrúi og Dóra sólrún Kristinsdóttir, djákni, og teymi þeirra. Barnakór Egilsstaðakirkju syngur en honum stjórnar Torvald Gjerde.

Æskulýðsmessa verður á Löngumýri  kl. 11.30 og er fólk á öllum aldri velkomið. Fermingarbörnin sjá um veitingar í hádeginu og safna peningum til Hjálparstarfs kirkjunnar og rennur ágóðinn nú til barna í Úkraínu. Kirkjukórinn syngur ljúfa sálma og Stefán spilar.

hsh


  • Barnastarf

  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju