Kjósum á kirkjuþing: Þau hafa setið á kirkjuþingi

8. mars 2022

Kjósum á kirkjuþing: Þau hafa setið á kirkjuþingi

Halla Halldórsdóttir

Frestur til að skila inn framboðum til kirkjuþings rennur út 15. mars. Tilkynningu um framboð skal skilað inn ásamt fylgigögnum á netfangið: kirkjan@kirkjan.is 

Rafrænar kosningar fara svo fram nk. 12. maí - 17. maí.

Kirkjan.is mun á næstu dögum birta stutt viðtöl við fólk sem setið hefur á kirkjuþing og segir það frá reynslu sinni í stuttu máli.

Kirkjuþing er sterkur lýðræðislegur vettvangur í starfi kirkjunnar. Þau sem sitja á kirkjuþingi hafa ábyrgðarmikið hlutverk sem felst meðal annars í því að hafa vald á hendi, til dæmis í fjármálum kirkjunnar. Seta á kirkjuþingi kallar á heilindi, samviskusemi og ábyrgðartilfinningu.

Fólk sem setið hefur á kirkjuþingi hefur komið úr flestum ef ekki öllum starfsstéttum samfélagsins og unnið gott starf í þágu þjóðkirkjunnar. Karlar og konur, fólk til sjávar og sveitar, þéttbýli og dreifbýli. Fólk á öllum aldri. Þetta hefur sýnt breidd þjóðkirkjunnar og sveigjanleika sem er nauðsynlegur í því fjölbreytta samfélagi sem kirkjan er. 

Seta á kirkjuþingi er líka gefandi og ánægjulegt starf þar sem kirkjuþingsfulltrúar eiga gott samfélag og kynnast þjóðkirkjunni á nýjan hátt.

Halla Halldórsdóttir er fædd 1948 og býr í Kópavogi. Hún lauk meistaraprófi í lýðheilsufræðum, er menntuð ljósmóðir og með BSc-próf í hjúkrunarfræðum; markþjálfi og með diplómu í kennslufræðum.

Halla er framkvæmdastjóri og eigandi Heilsuljóssins ehf.

Hún vann á mörgum deildum Landspítalans, kenni við Hjúkrunarskóla Íslands og Nýja hjúkrunarskólann. Sat í bæjarstjórn Kópavogs frá 1994 – 2006 og var m.a. forseti bæjarstjórnar og formaður margra nefnda. Hún hefur verið í mörgum nefndum á vegum ýmissa félaga og sveitarfélaga.

Halla sat á kirkjuþingi 2014 – 2018.

Hvað er áhugaverðast við það að sitja á kirkjuþingi?
Það var mjög margt sem var áhugavert. Ánægjulegt var að finna hversu mikil áhersla var lögð á að allir kirkjuþingsfulltrúar tækju þátt í öllum störfum þingsins. Einnig var áhugaverður fjöldi og fjölbreytileiki mála sem voru tekin fyrir á kirkjuþingi.

Hvaða ráð myndir þú gefa þeim sem hafa áhuga á að bjóða sig fram til setu á kirkjuþingi?
Láta sína sóknarnefnd vita af áhuga sínum. Hafa samband við einhvern fyrrverandi kirkjuþingsfulltrúa til að fá upplýsingar um hvernig sé best að kynna sig.

Hvað kom þér mest á óvart í störfum kirkjuþings?
Það var margt sem kom mér á óvart við að sitja á kirkjuþingi. Í fyrsta lagi hversu mörg mál voru tekin fyrir á hverju kirkjuþingi. Í öðru lagi hversu faglega það fór fram.

Hvernig fannst þér andrúmsloftið og samstarfsandinn hafa verið á kirkjuþingi?
Andrúmsloftið og samstarfsandinn var alveg til fyrirmyndar. Öll aðstoð sem maður fékk frá starfsfólki biskupsstofu og starfsfólki kirkjuþings var til fyrirmyndar. Einnig var gott að leita ráða og fá aðstoð kirkjuþingsfulltrúa.

Er eitthvað eitt sem stendur upp úr í minningunni frá tíma þínum á kirkjuþingi?
Mér fannst sérstaklega gaman að vinna í faghópunum og hefði viljað gera meira af því. Einnig hefði ég viljað hafa kirkjuþing fleiri daga þar sem málefnin voru það mörg og mikilvæg, svo að sömu málin séu ekki að koma upp aftur og aftur á nýju kirkjuþingi.

hsh


  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Þing

  • Kirkjuþing