Kirkjuhúsið enska

11. mars 2022

Kirkjuhúsið enska

Úrvalið í Church House er mjög gott - mynd: hsh

Þegar kirkjan.is á leið um London kemur hún gjarnan við í Great Smith Street 31 sem er steinsnar frá Westminsterdómkirkjunni en þar er að finna góða bókabúð, Church House, eða bara Kirkjuhúsið eins og hér heima. Það er vönduð bókaverslun með það nýjasta í kirkjufræðum og guðfræði; einnig er þar gott úrval af tónlist og ýmsum hjálpargögnun til nota við kristindómsfræðslu. Öll þau sem áhuga hafa á þessum málum og vilja halda sér við í þeim ættu að leggja leið sína i þessa verslun þegar þau heimsækja heimsborgina London. Þetta er hlýleg verslun og þar er afskaplega góð þjónusta veitt.

Á dögunum átti kirkjan.is sem sé erindi í Kirkjuhúsið enska og hitti þar eins og oft áður hinn þægilega og kurteisa Paul Ewans sem hefur starfað hjá versluninni í langan tíma. Kirkjuhúsið enska er að sögn hans sjálfstæð rekstrareining enda þótt hún sé í sömu húsalengju og höfuðstöðvar ensku kirkjunnar. Hún er nú meðal annars hluti af nokkrum útgáfusprotum eins og SCM  (Student Christian Movement). 

„Já, verslunin er gömul,“ svarar Paul þegar spurt er hvenær hún hafi verið stofnuð, „það má segja að hún hafi verið sett á laggirnar 1940 og svo má líka segja að hún hafi verið stofnuð 1862.“ Þannig getur saga fyrirtækja oft verið margslungin og kirkjan.is fer ekki nánar út í þá sálma. Nóg er að vita að verslunin er rótgróin að hætti enskra. Paul segir að verslunin gangi mjög vel. Hún eigi afar stóran hóp viðskiptavina um allt England sem haldi tryggð við hana og geti gengið að góðum vörum og vönduðum sem vísum. Eins og í nútíma verslunum er netsala stór hluti af viðskiptum og gengur hún vel fyrir sig.

En verslunin enska er vel í borg sett þar sem í næsta nágrenni hennar er menntamálaráðuneytið og innanríkisráðuneytið. Margir eiga leið í þær stofnanir og koma við í bókaversluninni. Nú, þegar enska kirkjan heldur sínar sýnódur sem geta verið býsna fjölmennar, hátt í 600 manns, þá streyma þátttakendur hennar inn í búðina og eru fullir hungurs eftir góðu guðfræðiefni sem þarna fæst.

Það er gaman að segja Paul frá því að systurverslun þeirrar sem hann vinnur hjá, Kirkjuhúsið, heima á Fróni, er með sumt það sama til sölu og þeir ensku. Til dæmis krossarnir litríku frá Mið-Ameríku, El Salvador, – þeir eru líka vinsælir hér að sögn Pauls eins og heima. Þá má og nefna hinar litríku stólur sem sumir íslenskir prestar eiga – þær eru frá Gvatemala og með ýmsum táknum.

Kirkjuhúsið enska þjónar ekki aðeins ensku kirkjunni heldur leitast það við að ná til allra kristinna trúfélaga í Englandi og gengur það bara vel að sögn Pauls.

Bak bókabúðinni er svo önnur verslun í Tuftonstræti sem selur og saumar messuklæði, Watts & Company. Þar er gaman að koma inn og skoða litskrúðug klæðin og sjá skraddarana sitja við saumaskapinn. - Einnig eru þar alls konar kirkjumunir til sölu eins og voldugir altariskrossar og kertastjakar.

Það er svo sem óþarfi að segja lesendum kirkjunnar.is til vegar, snjallsíminn leiðir fólk um stræti og torg í erlendum borgum. En næsta neðanjarðarlestarstöð er St James.

hsh


Inngangur í Kirkjuhúsið enska er á horni


Watts & Company er í Faith House, í næstu götu við Kirkjuhúsið


Skraddarinn að störfum


Kórkápur og höklar


Höfuðstöðvar ensku kirkjunnar eru í sama húsi og verslunin

  • Guðfræði

  • Heimsókn

  • Menning

  • Tónlist

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju