Kjósum á kirkjuþing: Þau hafa setið á kirkjuþingi

13. mars 2022

Kjósum á kirkjuþing: Þau hafa setið á kirkjuþingi

Sr. Sjöfn Jóhannesdóttir

Frestur til að skila inn framboðum til kirkjuþings rennur út þriðjudaginn 15. mars. Tilkynningu um framboð skal skilað inn ásamt fylgigögnum á netfangið: kirkjan@kirkjan.is 

Rafrænar kosningar fara svo fram nk. 12. maí - 17. maí.

Kirkjan.is hefur birt stutt viðtöl við fólk sem setið hefur á kirkjuþing og segir það frá reynslu sinni. Þetta er næst síðasta viðtalið.

Kirkjuþing er sterkur lýðræðislegur vettvangur í starfi kirkjunnar. Þau sem sitja á kirkjuþingi hafa ábyrgðarmikið hlutverk sem felst meðal annars í því að hafa vald á hendi, til dæmis í fjármálum kirkjunnar. Seta á kirkjuþingi kallar á heilindi, samviskusemi og ábyrgðartilfinningu.

Fólk sem setið hefur á kirkjuþingi hefur komið úr flestum ef ekki öllum starfsstéttum samfélagsins og unnið gott starf í þágu þjóðkirkjunnar. Karlar og konur, fólk til sjávar og sveitar, þéttbýli og dreifbýli. Fólk á öllum aldri. Þetta hefur sýnt breidd þjóðkirkjunnar og sveigjanleika sem er nauðsynlegur í því fjölbreytta samfélagi sem kirkjan er. 

Seta á kirkjuþingi er líka gefandi og ánægjulegt starf þar sem kirkjuþingsfulltrúar eiga gott samfélag og kynnast þjóðkirkjunni á nýjan hátt.

Sr. Sjöfn Jóhannesdóttir er fædd í Rvk árið 1953. Lauk guðfræðiprófi árið 1987 og var vígð til þjónustu í Fáskrúðsfjarðarprestakalli árið 1988 í veikindaleyfi sóknarprests þar. Þjónaði eftir það Bjarnarnesprestakalli 1989 -90 í námsleyfi sóknarprests þar og síðan frá árinu 1990-2019 var hún sóknarprestur Djúpavogsprestakalls. Frá haustinu 2019 hefur sr. Sjöfn verið starfandi héraðsprestur í Reykjavíkurprófastdæmi eystra og hefur síðustu tvö árin þjónað sem prestur í Kársnesprestakalli.

Sr. Sjöfn bauð sig fram til kirkjuþings árið 2014 og átti þar sæti næstu fjögur árin eða til 2018.

Hvað er áhugaverðast við að sitja kirkjuþing?
Það er áhugavert að fá tækifæri til að kynnast og vera þátttakandi í ákvörðunum sem varða málefni kirkjunnar og kynnast starfsemi hennar í víðu samhengi, fjárhag, æðstu stjórn, málefnum sókna, prestakalla og prófastdæma.

Það verður líka svo ljóst með setu á kirkjuþingi hvað kirkjan er frjálst og lýðræðislegt félag, þar sem margir taka virkan þátt og vilja láta gott af sér leiða.

Einnig er svo gefandi að fá að kynnast fólkinu öllu sem kosið til kirkjuþings og finna hvað margir eru áhugasamir og hvað kirkjan skiptir miklu máli í lífi samfélags og einstaklings. Það er dýrmæt reynsla að fá að kynnast þessu öllu, eftir að hafa verið sóknarprestur í mörg ár og við hvert og eitt sem sitjum kirkjuþing höfum mikið að gefa og miðla af reynslu okkar, svo kirkjan okkar megi dafna og vaxa. Það verður svo ljóst hvað kirkjan er lifandi og fjölbreytt og fallegt samfélag, þar sem við öll höfum sama mark og mið.

Hvaða ráð mundir þú gefa þeim sem hafa áhuga á að bjóða sig fram til kirkjuþings?
Þau sem hafa áhuga á málefnum kirkjunnar, þá endilega að bjóða sig fram. Kirkjuþing þarf fólk með fjölbreytta reynslu, fólk sem á það sameiginlegt að þykja vænt um kirkjuna og kirkjustarfið og vilja auka veg og sýnileika og gott starf og þjónustu kirkjunnar.

Hvað kom þér mest á óvart í starfi kirkjuþings.
Hvað það er mikilvægt að setja sig vel inní málin sem eru til umræðu. Alltof margar ræður eru fluttar á kirkjuþingi um allt og ekkert sem skila litlu. Hins vegar er kirkjuþing mjög gott og gefandi samfélag. Stundum vissulega tekist á og ekki eru allir sammála, en samt eining og vinátta. Og athyglisvert og gaman að sjá og reyna, hvað margir eru tilbúnir að leggja mikið á sig í þágu kirkjunnar.

Hvernig fannst þér andrúmsloftið og samstarfsandinn hafa verið á kirkjuþingi?
Andinn var yfirleitt góður og samstarfið gott og vinahugur og traust mikið. Vissulega er fólk ekki alltaf sammála og oft tekist á, en jafnan reynt að komast að niðurstöðu og vinna vel úr málum og lýðræðisleg vinnubrögð eru mikilvæg.

Er eitthvað eitt sem stendur upp úr í minningunni frá tíma þínum á kirkjuþingi?
Kaffi-og matarpásur og allar sögurnar sem maður heyrði þá voru dásamlegar. Gott samfélag, sem hefur sama mark og mið - að efla kirkjuna og kirkjustarfið.

hsh


  • Kirkjuþing

  • Kosningar

  • Samfélag

  • Þing

  • Frétt