Erlend frétt: Menningu ógnað

16. mars 2022

Erlend frétt: Menningu ógnað

Kristslíkneski komið í skjól í Lviv - mynd: KristeligtDagblad: Global Media Group/SIPA/Ritzau Scanpix.

Stríði fylgja skelfingar og mannslíf eru til fárra fiska metin. Þetta vita allir en samt eru stríð háð og fólki fórnað. Það er þyngra en tárum taki.

Innrás Rússa í Úkraínu er á allra vörum. Það eru ekki bara hermenn sem hafa fallið heldur hefur og fjöldi almennra borgara látið lífið og margir örkumlast í árásum á borgir og bæi.

En stríð þyrmir engu.

Menningarverðmætum er iðulega grandað í stríðsátökum. Stundum meðvitað til að draga baráttuþrek úr andstæðingnum eða í ógáti.

Miklum menningarverðmætum var til dæmis eytt á sínum tíma í Grosní í Tjéténíu og í Aleppó í Sýrlandi. Þau óhæfuverk koma í huga þeirra sem vilja slá vörð um menningarverðmæti í Lviv.

Margar gamlar kirkjur í austurhluta Úkraínu hafa verið lagðar í rúst og öðrum menningarverðmætum hefur verið eytt með eldi og sprengjuregni.

Úkraínska borgin Lviv í vesturhluta landsins er fögur borg með mikla sögu allt frá 12. öld og stendur við ána Poltva. Skammt er til pólsku landamæranna. Borgin er hvað snertir menningu og viðskipti næst mikilvægasta borg Úkraínu á eftir höfuðborginni, Kíev (Kænugarði).

Hluti Lviv er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, frá 1998.

„Borgarskipulagið: Byggingarlist í Lviv er glæsilegur vitnisburður um samruna hefða í arkitektúr og list í Austur-Evrópu með rætur í ítölskum og þýskum hefðum,“ sagði í umsögn UNESCO þegar Lviv komst á heimsminjaskrána.

Í borginni er að finna margar glæsilegar kirkjur frá fyrri öldum. Stríðsátök hafa færst nær borginni eftir að rússneski herinn gerði árás á nærliggjandi borgir í því skyni að granda herstöð og herflugvelli. Á fjórða tug féllu.

Nú hafa borgaryfirvöld gripið til sinna ráða til að vernda þennan menningararf heimsins. Byrjað er að fjarlægja trúarlistaverk úr kirkjum og koma þeim í örugga geymslu eins og gert var í síðari heimsstyrjöld. Búið er vandlega um verkin í steinull og einangrunarefnum. Þá hafa steindir gluggar í Dómkirkju uppstigningar heilagrar Maríu til himna, verið slegnir málmplötum til að vernda þá. Sú kirkja er frá 14. öld.

Önnur merk kirkja í Lviv á heimsminjaskrá UNESCO er Armenska dómkirkjan en hún er reist í armenskum kirkjustíl frá 14. öld, með rómverskum, gotneskum og galískum dráttum. Þá skal getið um Boim-kapelluna sem er í síðendurreisnarstíl frá byrjun 17. aldar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Lviv stendur ógn af stríði. Rússneskur her tók borgina herskildi í fyrri heimsstyrjöld 1914 en þá var hún hluti af austurríska-ungverska keisaradæminu. Í seinni heimsstyrjöldinni var borgin hernumin af Rússum eftir að Stalín og Hitler höfðu skipt á milli sín Mið- og Austur-Evrópu.

Þó trúar- og menningarverðmæti skipti máli þá er annað sem er mikilvægara þegar öllu er á botninn hvolft. Það er fólkið sem sækir þessi öldnu guðshús reglulega og á þar andlegt heimili eins og fyrri kynslóðir.

KristeligtDagblad /Tobias Stern Johansen/ hsh

Steindir gluggar Dómkirkju uppstigningar heilagrar Maríu til himna, huldir með málmplötum

 

 

Boim-kapellan - hún er í síðendurreisnarstíl

Armenska dómkirkjan

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Erlend frétt

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði