Mikill samhugur

17. mars 2022

Mikill samhugur

Á flótta frá innrásarhersveitum í Úkraínu - mynd: KristeligtDagblad

Óhætt er að segja að úkraínska þjóðin njóti mikils stuðnings og velvilja í þeim hörmungum sem hún stendur nú andspænis eftir að rússneski herinn hóf innrás í landið fyrir þremur vikum. Fréttir af stríðssvæðum í Úkraínu eru skelfilegar og sérstaklega þar sem rússneski herinn ræðst að húsum almennra borgara, sjúkrahúsum og stöðum sem tryggja áttu börnum öruggt skjól.

Á sunnudaginn 20. mars verður efnt til friðarmessu og styrktartónleika í Bústaðakirkju undir yfirskriftinni: Biðjum fyrir friði í Úkraínu. Ókeypis er inn á viðburðinn sem hefst kl. 13.00 en viðstöddum er boðið að styrkja Hjálparstarf kirkjunnar sem gengst fyrir miklu hjálparstarfi meðal úkraínskra flóttamanna sem kosið hafa að yfirgefa landið vegna innrásar rússneska hersins.

Dagskrá tónleikanna er vönduð og efnismikil
Alexandra Chernyshova sópran frá Kænugarði, syngur ásamt: Ragnheiði Gröndal, Guðmundi Péturssyni, Sigrúnu Hjálmtýsdóttur (Diddú), Grétu Hergils, Jóhanni Friðgeir Valdimarssyni og Matthíasi Stefánssyni.

Kammerkór Bústaðakirkju syngur jafnframt undir stjórn Jónasar Þóris. Þjóðsöngur Úkraínu mun óma ásamt miskunnarbæn frá Úkraínu, bæn Bortnyanski og fleirum tónlistarperlum.

Séra María Guðrúnar Ágústsdóttir mun leiða stundina með prestum og starfsfólki Bústaðakirkju og Grensáskirkju, sem og fulltrúum úr samstarfsnefnd kristinna trúfélaga. Sveinn Rúnar Sigurðsson læknir flytur ávarp.

Tekið verður við frjálsum framlögum til Hjálparstarfs kirkjunnar, og mun fjármagnið renna óskipt til fólks á flótta undan innrás rússneska hersins í Úkraínu.

Hjálparsamtök kirkna í Úkraínu og Ungverjalandi hafa nú þegar aðstoðað flóttafólkið með helstu nauðsynjar en þörf er á víðtækari aðstoð.

Systurstofnanir í Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna í öðrum nágrannalöndum Úkraínu, og þar á meðal í Rússlandi, hafa sömuleiðis aðstoðað flóttafólk og ACT Alliance samhæfir nú enn frekara hjálparstarf á svæðinu.

Hjálparstarf kirkjunnar á Íslandi tekur þátt í starfinu með því að senda fjárframlag til systurstofnana á vettvangi sem þekkja staðhætti og eru færastar um að koma hjálpinni til skila með sem skilvirkustum hætti.

Söfnunarféð mun renna óskipt til Hjálparstarfs kirkjunnar, og mun allt fjármagnið renna til stuðnings flóttafólki frá Úkraínu.

Ýmsar leiðir er hægt að fara til að styrkja málefnið

Millifæra á söfnunarreikning númer 0334-26-886 kennitala: 450670-0499

Gefa stakt framlag hér á vefsíðunni: https://www.hjalparstarfkirkjunnar.is/

Gefa framlag með Aur í númer 123-5284400

Senda sms-ið HJALPARSTARF í síma 1900 (2500 krónur)

Hringja í söfnunarsíma 907 2003 (2500).

Fréttatilkynning frá Bústaðakirkju /hsh


  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • List og kirkja

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Frétt