Föstutónar í Hvalsneskirkju

26. mars 2022

Föstutónar í Hvalsneskirkju

Hvalsneskirkja á Rosmhvalanesi byggð 1886-1887 - mynd: hsh

Það er vel til fundið að halda föstutónleika í Hvalsneskirkju á sunnudaginn 27. mars kl. 17.00. Þá er 4. sunnudagur í föstu. 

Ef eitthvert skáld er skáld föstunnar þá er það sr. Hallgrímur Pétursson (1614-1674). 

Á efnisskrá tónleikanna verða sálmar eftir sr. Hallgrím Pétursson við þjóðlög í útsetningum Smára Ólasonar. Það verða flutt nokkur vers úr Passíusálmum sr. Hallgríms en einnig sálmar sem talið er að hann hafi ort á Hvalsnesárunum, þar á meðal erfiljóðin eftir Steinunni dóttur hans.

Flytjendur eru söngvararnir Hugi Jónsson, Kristín Sigurðardóttir, Magnea Tómasdóttir og Vilhjálmur Þór Sigurjónsson en þau eru öll meðlimir í sönghópnum Lux Aeterna.

Eftir tónleika verður tónleikagestum boðið í molasopa í Hvalsnesbænum.

Enginn aðgangseyrir.

Tónleikarnir eru styrktir af Uppbyggingasjóði Suðurnesja og Héraðssjóði Kjalarnesprófastdæmis.

Hvalsnesár sr. Hallgríms
Þótt Hvalsnesárin í lífi sr. Hallgríms Péturssonar hafi ekki verið mestur hamingjutími hans þá ól Guðríður Símonardóttir honum barn í Ytri-Njarðvík er þau voru nýkomin til landsins. Grunsemdir vöknuðu um að þau Hallgrímur og Guðríður hefðu gerst sek um frillulífsbrot en um þau gilti Stóridómur og guldu þau sekt fyrir, einn ríkisdal. Hallgrímur var „púlsmaður danskra“ í Keflavík og bjuggu þau Guðríður við sára fátækt. Hann stundaði sveitastörf og sjómennsku til að framfleyta fjölskyldu sinni. Sumir töldu hann liggja meira í bókum en vinnu. Og þótt hann hefði ekki lokið prófi og væri með skírlífisbrot á sér kom það ekki í veg fyrir að sr. Brynjólfur Sveinsson vígði hann til Hvalsnesþinga - endurreisti hann sem sé af frillulífsbrotinu og tók nám hans gilt til embættisgengis – það var ekki tilefni til að hneykslast á því að mörg voru fordæmin fyrir slíkri uppgjöf. Samfélagið tók öllu harðar á þeim sem höfðu fests í fátækt og þess vegna voru ýmsir sem „álösuðu biskupi og reiknuðu fyrir heilagrillur hans að vígja til prests so fátæka og auðvirðilega skepnu.“ Prestskaparár hans á Hvalsnesi urðu honum um margt erfið því að mörg sóknarbarna hans úr efra lagi samfélagsins mátu hann ekki að verðleikum. En hann sýndi og sannaði hvað í sér bjó og það gerði honum fært að sækja síðar um Saurbæ á Hvalfjarðarströnd árið 1650.

hsh


  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju