Vígslubiskupinn á Hólum

26. mars 2022

Vígslubiskupinn á Hólum

Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum - mynd: hsh

Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, kvaddi sér hljóðs á kirkjuþingi í morgun. Minntist hún þeirra tímamóta að á þessu ári væru fjörutíu ár frá því að hún vígðist til prests. Hún hefur þjónað bæði í sveit og borg. Undanfarin ár hefur hún sinnt störfum vígslubiskups á Hólum. Lagði hún áherslu á það í máli sínu að vígslubiskupsstörfin yrðu með óbreyttu sniði og frekar efld heldur en hitt.

Taldi hún það yrðu hrapallelg mistök ef vígslubiskupsstörfin yrðu gerð að hlutastarfi.

Tilkynnti hún kirkjuþinginu að hún léti af störfum sem vígslubiskup 1. september n.k.

Ræða hennar var svofelld:

Ávarp vígslubiskups á Hólum á kirkjuþingi

Forseti!
Ágæta kirkjuþingsfólk!

Á næsta ári verða 40 ár síðan ég vígðist til prests í Dómkirkjunni í Reykjavík. Öll þessi ár hef ég þjónað kirkjunni minni bæði í borg og í sveit og nú síðast liðin 10 ár sem einn af þremur biskupum Þjóðkirkjunnar. Allan þennan tíma hef ég leitast við að efla og styrkja grunnstoðir kirkjunnar sem er kirkjustarfið sjálft unnið bæði af miklu fagfólki og sjálfboðaliðum um allt land. Ég hef alla tíð unnið að því að sem mest samvinna sé á öllum sviðum og öll sjónarmið fái áheyrn.

Í biskupstíð minni hef ég í mikilvægu biskupateymi með frú Agnesi M. Sigurðardóttur í fararbroddi og Kristjánum tveim unnið að því að sameina prestaköll, sem stuðlar að því að jafna þjónustubyrði og auka samvinnu.

Ég var kosin á Kirkjuþing árið 2010 og hef því setið hér í 12 ár með og án kosningaréttar, en ævinlega með málfrelsi og tillögurétt.

Nú eru tímamót í lífi mínu og hyggst ég láta af embætti þann 1. september næst komandi.

Á þessum tímamótum hefur Kirkjuþing aldrei verið eins mikilvægt og því er mikilvægara en nokkru sinni áður að biskupateymið haldi lífi. Að einangra biskupsembættið með því að gera vígslubiskupsembættin að hlutastarfi væru hrapalleg mistök fyrir kirkjuna enda voru mætir menn og konur búnir að berjast fyrir því að biskupsstólarnir tveir myndu öðlast þann sess sem þeim ber.

Við þessi tímamót í lífi mínu sé ég fyrir mér að mikilvægasta skref sem nýtt Kirkjuþing stendur frammi fyrir nú þegar ný Þjóðkirkjulög hafa öðlast gildi sé að Kirkjan komi sér upp stjórnarskrá sem sé grundvöllur starfsemi hennar þannig að ekki sé hægt að breyta grunnstoðum kirkjunnar á aukakirkjuþingum og jafnvel með afbrigðum.

Ég þakka Guði fyrir þá handleiðslu sem ég hef fundið fyrir hvern dag í þjónustunni minni og vona og bið þess að ég geti áfram lagt kirkjunni sem ég elska lið mitt.

Guð blessi ykkur öll í lífi og starfi.

hsh


  • Kirkjuþing

  • Menning

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Vígslubiskup

  • Frétt

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar