Sr. Bjarni Th. Rögnvaldsson, pastor emeritus, kvaddur

27. mars 2022

Sr. Bjarni Th. Rögnvaldsson, pastor emeritus, kvaddur

Sr. Bjarni Th. Rögnvaldsson - 1932-2022

Sr. Bjarni Theódór Rögnvaldsson, pastor emeritus, lést 16. mars s.l., á Landspítalanum í Fossvogi. Útför hans fer fram frá Fossvogskapellu 29. mars kl. 15.00.

Sr. Bjarni fæddist 25. ágúst 1932 á Húsavík. Foreldrar hans voru Rögnvaldur Freysveinn Bjarnason, múrarameistari, og Elísabet Jónasína Theódórsdóttir, húsfreyja.

Unnusta sr. Bjarna var Hjálmfríður Guðrún Hansdóttir, sjúkraliði. Hún lést 2006. Þau voru barnlaus en Hjálmfríður átti kjördóttur, Sigríði Kristínu Jónsdóttur.

Sr. Bjarni tók kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1953 og lauk prófi í heimspeki, líffræði, landafræði og sögu frá Toronto Teacher´s College og Centennial College í Kanada. Auk þess stundaði hann nám við Lakehead University, Thunder Bay, og við heimspekideild Háskóla Íslands. Þá var hann með sveinspróf í múraraiðn. Guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands lauk hann 1983. Áður en sr. Bjarni vígðist kenndi hann víða um land og var meðal annars skólastjóri. Þá fékkst hann við smíðar og múrverk.

Kirkjuleg þjónusta sr. Bjarna hófst í Djúpavogsprestakalli en þar var hann settur sóknarprestur frá 1. júlí 1983, vígður 12. júlí sama ár. Þá var hann settur sóknarprestur í Staðarprestakalli 1984-85, síðar settur sóknarprestur á Raufarhöfn 1. júní 1985 til 31. maí 1986. Loks settur prestur í Prestbakkaprestakalli í Húnavatnsprestakalli 1. júlí 1987 til 1989.

Sr. Bjarni var ljúflyndur maður og vildi öllum vel, drengur góður. Hugur hans var á vissan hátt glaðlega bernskur og gat á stundum farið á flug – og oft var flogið hátt. Stundum þurfti að beisla hann svo ekki færi fram úr hófi. Hann var vinveittur öllum og hafði ríka lund til að þjóna sem prestur þótt sú þjónusta yrði ekki langvinn. Starfshugur hans var einlægur og margt sem hann innti af hendi í þjónustunni var fólki eftirminnilegt á sinn hátt og því þótti vænt um prestinn sinn þó sumt væri með öðrum brag en það átti að venjast. Í hverju verki var hann fölskvalaus og skyldurækinn þjónn.

Sr. Bjarni stundaði ritstörf jöfnum höndum með námi og vinnu. Bækurnar gaf hann út á eigin kostnað. Þetta voru ljóðabækur, smásögur og framtíðarvangaveltur.

Sr. Bjarni Th. Rögnvaldsson er kvaddur með virðingu og þökk. Guð blessi minningu hans.

hsh


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Andlát

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju