Frábær samkoma
Í gær var Dagur kirkjutónlistarinnar haldinn í Neskirkju. Dagskrá dagsins var fjölbreytileg eins og kirkjan.is greindi frá.
Deginum stjórnaði Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, með sinni alkunnu röggsemi og eðlislægri bjartsýni sem er öllu kirkjufólki mikil hvatning.
Líflegar umræður urðu um þau mál sem voru á dagskránni eins og tónlistina í safnaðarstarfinu en þar kom þungavigtarfólk úr því starfi að. Þá kynnti Arndís Björk Ásgeirsdóttir Sálmavarpið en Margrét, söngmálastjóri, og Pétur Markan, biskupsritari, ræddu Sálmamaraþonið. Stefnt er að útkomu sálmabókarinnar 4. september nú í haust. Það verða mikil tímamót og í bígerð að ræsa Sálmamaraþon í því sambandi – þau mál eru öll í undirbúningi.
Jónatan Garðarsson, dagskrárgerðarmaður á Ríkisútvarpinu, flutti mjög athyglisvert erindi um útvarpsguðsþjónustuna, gæði hennar sem útvarpsefnis, þróun og framtíðarmöguleika.
Guðfræðingurinn og fyrrum útvarpsmaðurinn, Ævar Kjartansson, stýrði umræðum.
Stofnskrá hins nýja Tónlistarsjóðs kirkjunnar og STEFs var undirrituð við hátíðlega athöfn. Það gerðu þær Margrét Bóasdóttir og Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs. Í ávörpum sínum lýstu þær báðar mikilli ánægju með stofnun sjóðsins.
Nýi sjóðurinn veitti þremur einstaklingum viðurkenningu, þeim Sigurði Sævarssyni, Sigurði Flosasyni og Aðalsteini Ásbergi Sigurðssyni, fyrir framlag þeirra til kirkjutónlistar á Íslandi.
Nokkrir aðilar hafa gefið nótur og hljómplötur til söngmálastjóra þjóðkirkjunnar og fengu þeir þakklætisvott fyrir. Það voru Mótettukórinn, kammerkórinn Schola Cantorum, Erla Elín Hansdóttir, og Ólöf Kolbrún Harðardóttir. Einnig þær Gróa Hreinsdóttir og Þorgerður Ingólfsdóttir en þær áttu ekki heimangengt til að vera viðstaddar athöfnina.
Þessar gjafir ásamt öðrum hafa orðið til þess að nú er kominn sterkur vísir að góðu og öflugu kirkjutónlistar Nytjabókasafni sem kirkjutónlistarfólk getur sótt í.
„Nú er bókasafnið staðsett í safnaðarheimili Hjallakirkju í Kópavogi og þar verður aðstaða til alls þessa; að skoða, hlusta og spila. En það kostar peninga að kaupa bækur og nótur í bókasafnið og það hefur alltaf skort fjármagn til að auka og efla safnið, eins og öll önnur söfn.
Nú er allt þetta sagt sem innleiðing að því, að nú er þar komið, að bókasafnið getur farið að kallast Nytjabókasafn, því allar þær stórkostlegu gjafir sem borist hafa, eru nú orðnar undirstaða þess að geta boðið fram allt aðra og aukna þjónustu og að safnið geti verið það kirkjutónlistarbókasafn sem styður og eflir tónlistarstarf kirkjunnar.
Þessar dýrmætu eigur ykkar sem svo margar minningar eru líka bundnar við, munu halda áfram að þjóna tónlistinni og trúnni eins og þið hafið sjálf gert. Guð blessi góðan gjafara eins og sagt er og þó sagt sé að þakklætið sé ekki þungt í vasa, þá megið þið vita að þess verður minnst lengi að fá slíkan stuðning við starfið sem þessar gjafir veita.“
Heiðursviðurkenninguna í kirkjutónlist hlaut að þessu sinni Hörður Áskelsson, kantor og stjórnandi Mótettukórsins, fyrir hið mikla tónlistarstarf hans við Hallgrímskirkju í Reykjavík. Söngmálastjóri rakti hinn glæsilega feril hans í nokkrum orðum. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, afhenti honum viðurkenninguna og þakkaði honum sérstaklega fyrir hið mikla tónlistarstarf hans fyrir kirkju og þjóð.
Nýir sálmar voru sungnir milli dagskráratriða og var að sjálfsögðu hressilega tekið undir. Lára Bryndís Eggertsdóttir, organisti Neskirkju, lék undir á píanó.
hsh