Hjálp send til Úkraínu

8. apríl 2022

Hjálp send til Úkraínu

Hjálparstarf kirkjunnar í Ungverjalandi tekur á móti flóttafólki frá Úkraínu í þorpinu Barabas. Í fjöldahjálparstöðinni fær fólkið mat, drykk og hreinlætisvörur. Mynd: Antti Yrjönen/Hjálparstarf kirkjunnar í Finnlandi.

Hjálparstarf kirkjunnar á Íslandi hóf neyðarsöfnun í kjölfar innrásar Rússlandshers í Úkraínu og hefur nú sent 15 milljóna króna framlag frá fyrirtækjum, einstaklingum og sóknum þjóðkirkjunnar ásamt 20 milljóna króna styrk frá utanríkisráðuneytinu til verkefna systurstofnana í ACT Alliance á svæðinu.

Nú eru sex vikur liðnar frá því að Rússlandsher hóf innrás í Úkraínu með þeim skelfilegu afleiðingum að nær 1500 almennir borgarar hafa látið lífið, enn fleiri liggja særðir eftir og nær fjórðungur þjóðarinnar, um tíu milljónir íbúa, hefur neyðst til að yfirgefa heimili sín. Af þeim hafa yfir 4,3 milljónir íbúa flúið yfir landamærin til nágrannaríkja og yfir 600 íbúar Úkraínu, flest konur og börn, hafa nú sótt um vernd hér á Íslandi.

Hundruð þúsunda íbúa eru hins vegar föst á átakasvæðunum og fólkið sem eftir situr er fólkið sem á erfiðast með að bjarga sér sjálft; fólk sem hefur særst, aldrað fólk, fólk með fötlun, barnshafandi konur sem bjuggu við erfið skilyrði fyrir og börn. Þetta fólk upplifir nú óbærilegar hörmungar.

Systurstofnanir Hjálparstarfs kirkjunnar í Alþjóðlegu Hjálparstarfi kirkna - ACT Alliance, hafa starfað í Úkraínu og í nágrannalöndum um langt skeið. Um leið og innrásin var gerð hófu þær að veita fólkinu aðstoð, bæði í landinu sjálfu og flóttafólki í nágrannalöndunum í samstarfi við stofnanir Sameinuðu þjóðanna og önnur hjálparsamtök á svæðinu.

Það er mikið verk að samhæfa faglegt hjálparstarf í ringulreið og skipulagning áframhaldandi hjálparstarfs fer fram samhliða því sem lífsbjargandi aðstoð er veitt. ACT Alliance hefur sent út neyðarkall um fjárstuðning við viðamikið hjálparstarf sem framundan er bæði í Úkraínu og í nágrannaríkjunum Ungverjalandi, Rúmeníu, Póllandi og Slóvakíu.

Hjálparstarf kirkjunnar heldur áfram neyðarsöfnun og hefur nú sent fólki á aldrinum 30 – 80 ára 2.400 króna valgreiðslu í heimabankann.

Fréttatilkynning/hsh


  • Flóttafólk

  • Frétt

  • Hjálparstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Söfnun

  • Úkraína

  • Alþjóðastarf

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju