Viðtalið: Margt á döfinni

11. apríl 2022

Viðtalið: Margt á döfinni

Starfshópurinn og sjálfboðaliðar - frá vinstri: sr. Toshiki Toma, Kristín Guðnadóttir, leikskólakennari, sr. Eva Björk Valdimarsdóttir, Konstantin Stroginov, Olga Khodos og sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir - mynd: hsh

Þau hafa öll drjúga reynslu af samskiptum við innflytjendur og flóttafólk. Einvala hópur. Þess vegna voru þau skipuð í starfshóp af biskupi Íslands, sr. Agnesi M. Sigurðardóttur, til að vera í forsvari fyrir starf með flóttafólki frá Úkraínu.

Þetta eru þau sr. Toshiki Toma og sr. Ásu Laufey Sæmundsdóttir, prestar Alþjóðlega safnaðarins í Breiðholtskirkju. Með þeim í teyminu er einnig sr. Eva Björk Valdimarsdóttir, prestur í Fossvogsprestakalli.

Kirkjan.is ræddi við þau.

„Við höfum öll reynslu af því að vinna með flóttafólki og hælisleitendum ásamt því að við vorum hluti af starfshópi sem fékk það hlutverk að setja fram stefnu þjóðkirkjunnar í málefnum innflytjenda og fólks á flótta, sem samþykkt var á kirkjuþingi haustið 2021,“ segir sr. Toshiki Toma.

Milljónir manna hafa lagt á flótta undan stríðsátökunum í Úkraínu. Flóttafólkið hefur streymt einkum til nágrannaríkjanna en sumt til fjarlægari landa. Þau sr. Toshiki, sr. Ása Laufey og sr. Eva Björk segja að atburðarásin hafi verið mjög hröð. Nú þegar í aprílmánuði séu komnir rúmlega 600 flóttamenn til landsins. Það er stór hópur á skömmum tíma enda hafi margir aðilar verið rétt byrjaðir að undirbúa móttöku þeirra þegar þeir komu. „Við settum okkur strax í samband við Úkraínsku flóttamannamiðstöð Íslands, Hjálparstarf kirkjunnar, Reykjavíkurborg, Fjölmenningarsetur, Félagsmálaráðuneytið og Rauða krossinn,“ segir sr. Ása Laufey.

Sr. Eva Björk segir þau hafa verið í góðu sambandi við Úkraínsku flóttamannamiðstöðina og aðra aðila næstum því á hverjum degi. „Helsti fókusinn okkar hingað til hefur verið að rjúfa einangrun mæðra og barna, og því var strax markmið okkar að útbúa athvarf fyrir foreldra og börn í samstarfi við Hvítasunnukirkjuna Fíladelfíu, í húsnæði hennar, og Úkraínsku flóttamannamiðstöðvarinnar,” segir hún. Sr. Toshiki segir að þangað hafi foreldrar og börn mætt á daginn þar sem enn er ekki komið úrræði fyrir börn á leikskóla eða skóla, fyrir þennan hóp. Sr. Ása Laufey bætir því við að starfið þar sé nokkuð sjálfbært, þar sem foreldrar skiptist á að líta eftir með börnunum en einnig hafi þar verið sjálfboðaliði sem hefur haft yfirumsjón með starfseminni.

Starfsemin vindur upp á sig

Þau sr. Toshiki, sr. Ása Laufey og sr. Eva Björk segja að nú þegar sé búið að opna athvarf í Hafnarfjarðarkirkju, alla virka daga, fyrir þau sem dvelja í Hafnarfirði. Ástjarnarkirkja og Víðistaðakirkja bjóða einnig upp á dagskrá í sínum söfnuðum. Þá er einnig þessa dagana til athugunar að opna þriðja athvarfið í söfnuði hér á höfuðborgarsvæðinu.

„Þá höfum við líka verið í sambandi við sjálfboðaliða sem vilja láta gott af sér leiða og við aðstoðum þau eftir bestu getu,“ segir sr. Ása Laufey og sr. Eva Björk bætir því við að það sé margt fólk sem sé að gera góða hluti. „Til dæmis kona sem hefur sett sér það markmið að allt flóttafólk frá Úkraínu fái sundföt, en við höfum geymt lagerinn fyrir hana í kirkjunni.“

Þau segjast hafa reynt að vera öðrum söfnuðum innan handar með upplýsingar og leiðsögn um hvaða úrræði þeir geti boðið en þessar fyrstu vikur hafi markmiðið verið að brúa bil þangað til fólk sé komið í varanlegra úrræði og þá sé það von þeirra að sveitarfélögin og nærsamfélagið allt taki við að koma til móts við þarfir fólksins.

Hjálpin kemur víða að


Tungumál getur verið hindrun í samskiptum en með aðstoð góðs fólks er hægt að komast yfir hana. Móðurmál flóttafólksins er að sjálfsögðu úkraínska.

„Margir tala ensku í hópnum og hafa tekið að sér það hlutverk að túlka fyrir þau sem ekki tala ensku,“ segir sr. Eva Björk. Þá hafi þau einnig verið í samskiptum við úkraínska sjálfboðaliða sem búa hér á Íslandi og tala íslensku og þeir hafi einnig hjálpað þeim við að túlka.

Þau segja að fjölmargir söfnuðir hafi boðið fram krafta sína og húsnæði. Þeir hafi boðið upp á foreldramorgna, opið hús, bænastundir í kirkjunni.

„Einnig hafa nokkrir söfnuðir staðið fyrir styrktartónleikum þar sem samskot renna til neyðarsöfnunar Hjálparstarfs kirkjunnar fyrir mannúðaraðstoð í Úkraínu og nágrannalöndum,“ segir sr. Toshiki.

„Við teljum að þegar fólk fer í varanlegri úrræði innan sveitarfélaganna að þá geti söfnuðir kirkjunnar komið sterkt inn í að þjóna fólkinu og þörfum þeirra í nærsamfélaginu,“ segir sr. Ása Laufey.

Fram hefur komið í fréttum að konur og börn eru mikill meirihluti flóttafólksins. Karlmennirnir verði eftir heima til að gegn herþjónustu.

Sjálfboðaliðarnir koma bæði úr hópi flóttamanna sem sjá um athvarfið fyrir börnin, einnig sjálfboðaliðar sem tengjast þjóðkirkjunni og Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu og þeirra sem tengjast Úkraínsku flóttamannamiðstöð Íslands.

,,Nokkrir Rússar sem eru á móti innrásinni gengu í hjálparliðið í flóttamannamiðstöðinni. Og aðstoð þeirra þýðir mikið af því að margir Úkraínumenn skilja rússnesku eða jafnvel að hún er móðurmál þeirra,"segir sr. Toshiki.

Samband við flóttafólkið og hagur þess

Starfshópnum eru nokkuð þröngar skorður settar í sambandi við bein samskipti við flóttafólkið. Það er fyrst og fremst vegna öryggisreglna sem settar eru til að vernda flóttafólkið frá of miklu utanaðkomandi áreiti og þess vegna hefur fólk ekki aðgang að dvalarstöðum flóttafólksins. En fólkið fær að vita af starfshópnum í gegnum Úkraínsku flóttamannamiðstöð Íslands, einnig í gegnum persónuleg tengsl. Þá eru þau sr. Toshiki, sr. Ása Laufey og sr. Eva Björk í hópspjalli á samfélagsmiðlum.

„Áhersla okkar hefur verið að skapa tækifæri og vettvang fyrir fólk að hittast og þar hafa tengsl okkar myndast við flóttafólkið,“ segir sr. Toshiki.

Þau sem flýja land sitt vegna stríðsástand bera þá von í brjósti að komast einn góðan veðurdag heim. Landið sem það dvelst í er tímabundinn dvalarstaður hjá flestum og eru þau þakklát fyrir hann.

„Það er okkar tilfinning að flestir flóttamannanna vilji fara aftur til síns heimalands þegar stríðinu lýkur og ástandið telst nokkuð öruggt,“ segir sr. Ása Laufey. Sr. Eva Björk bendir á að fyrir innrásina í Úkraínu hafi verið hér um 200 manns frá Úkraínu. Erfitt sé eins og sakir standa að átta sig á því hvort einhverjir í hópi flóttafólksins vilji setjast hér að til langframa.

En það er að mörgu að hyggja í sambandi við komu flóttafólks til landsins. Til dæmis heilsugæslu.

Hver sér um hana?

„Móttökumiðstöð flóttafólks (Domus Medica) ber ábyrgð á því sem við kemur réttindum, heilsugæslu og læknisþjónustu,“ segir sr. Toshiki. „Við beinum fólki þangað. Hins vegar vitum við af sálfræðingi í hópi flóttafólksins sem fólk hefur leitað til, eðlilega þar sem tilfinningar er best að tjá á sínu móðurmáli.“

Þau sr. Toshiki, sr. Ása Laufey og Eva Björk segja að við verðum að vera meðvituð um það að þegar fólk er komið í varanlegra húsnæði og dreifist um landið þá verði líklega meiri þörf á aðkomu safnaða að taka á móti flóttafólkinu og hlúa að því. „Við verðum þá söfnuðum áfram innan handar,“ segja þau. „Við leggjum áherslu á það að vera í virku samtali við fólkið sem kemur og hlusta á þarfir þeirra, fyrst og fremst. Einnig þurfum við að vera vakandi fyrir þeim sem einangra sig og finna þá leiðir til að rjúfa einangrun.“

Athvarfið

Þegar kirkjan.is skoðaði sig um í athvarfinu fyrir úkraínsku flóttabörnin og foreldra þeirra var Kristín Guðnadóttir, leikskólakennari, að ljúka störfum sem sjálfboðaliði. Hún hafði lagt fram starfskrafta sína og var mikill fengur að þar sem hún hefur bæði reynslu og starfsmenntun á þessu sviði. Kristín sagði að börnin væru mismörg en flest um þrjátíu. Oft eru foreldrar með, eða mæðurnar, og þær létta mikið undir. Hún sagði að börnin fylltust öryggisleysi ef mæðurnar þyrftu að skreppa frá um stundarsakir og það væri skiljanlegt vegna ástandsins sem þau hafa mátt þola. Sjálfboðaliðar koma líka úr hópi flóttafólksins og það gerir mikinn gæfumun. 

Konstantin Stroginov og Olga Khodos eru bæði frá Úkraínu og hafa verið búsett á Íslandi í nokkur ár og tala íslensku. Þau hafa líka verið sjálfboðaliðar í athvarfinu og hafa borið hita og þunga af starfsemi athvarfsins og hafa verið þar frá því að það opnaði. Slíkir sjálfboðaliðar eru ómetanlegir.

Athvarfið er ágætlega útbúið og eru allir boðnir og búnir að veita stuðning. Húsnæði athvarfsins er bjart og heimilislegt.

Samkirkjulegt svipur

Hvítasunnumenn hafa lánað húsnæði undir athvarfið, þjóðkirkjan leggur fram teymið góða. Sjálfboðaliðar koma úr ýmsum áttum og sumir í gegnum kirkjustarf. Því má segja að á vissan hátt sé samkirkjulegt yfirbragð á þessari starfsemi og er það til mikillar fyrirmyndar.

En mestu máli skiptir að taka á móti flóttafólkinu af kærleika og hlýju sem allir leitast við að gera.

hsh















  • Flóttafólk

  • Frétt

  • Kirkjustarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sjálfboðaliðar

  • Úkraína

  • Biskup

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur
Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Fossvoginum

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall