Viðtalið: Síðasti lesturinn
Sigurður Skúlason flytur Passíusálmana í Hallgrímskirkju á morgun, föstudaginn langa, 15. apríl, kl. 13.00-18.30. Þetta er í tólfta skipti sem hann les alla sálmana opinberlega. Og það síðasta. Það eru tímamót.
Sigurður er þjóðkunnur leikari. Leikið í leikhúsi, útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum. Hann hefur lagt sérstaklega fyrir sig upplestur og er einn besti upplesari landsins. Sigurður hefur einnig stundað ritstörf og starfað við kennslu.
Kirkjan.is tók hann tali og spurði hann fyrst hvernig hann mæti Passíusálmana sem skáldverk, trúarlegt verk og menningarsögulegt.
En hvenær lastu þá fyrst opinberlega upp í heild sinni?
„Það var í Hallgrímskirkju í Saurbæ á föstudaginn langa 2009 og las þá þar fimm ár í röð,“ segir Sigurður. „Síðan hef ég lesið þá bæði þar og í ýmsum kirkjum höfuðstaðarins: Grafarvogskirkju, Guðríðarkirkju, Hallgrímskirkju og Kópavogskirkju auk þess að lesa þá nokkrum sinnum ásamt öðrum.“
Skyldi einhver einn sálmur vera í uppáhaldi hjá hinum reynda upplesara?
„Eftir að hafa flutt sálmana í heild sinni svona oft hefur tilfinningin fyrir því að þeir eru einmitt það – heild – styrkst meir og meir,“ segir Sigurður, „og þess vegna finnst mér það bæði erfitt og kannski ekki sanngjarnt að taka einhvern eða einhverja þeirra út úr.“
Hann segir sálmana að sjálfsögðu höfða til hans á mismunandi vegu og það geti hvorttveggja verið vegna innihalds og forms.
„Sumir sálmanna eru eins og léttari eða aðgengilegri í flutningi en aðrir. Ég hef tekið eftir því að margt fólk á sér eftirlætissálm og talar gjarnan þá um perlu. Og menn þá frekar sammála um hvaða sálmar það eru, þeir eru ekki margir. Ég ætla þó að neita mér um það hér að taka einn út úr.“
Hversu mikil andleg og líkamleg áreynsla er að lesa sálmana svona samfellt í einni lotu? Undirbýrðu þig með einhverjum hætti?
Sigurður segist lesa þá yfir nokkrum sinnum vikurnar á undan og reyni að leysa það sem hann hafi ekki leyst almennilega fram að því, hvort sem það lúti að skilningi á efni eða úrlausnarmálum í bragarháttunum, einkum þó hvað varði ljóðstafina, oft með góðri hjálp. Síðustu dagana fyrir lesturinn hyggur hann að það sé best að hvíla sig almennilega.
Það er því fullt tilefni til að leggja leið sína í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa og hlýða á hinn einstaka upplestur Sigurðar Skúlasonar.hsh