Sterk hefð og góð

15. apríl 2022

Sterk hefð og góð

Minnismerki Hallgríms Péturssonar eftir Einar Jónsson, gert 1914-1922; verkið er í garðinum við Hnitbjörg, smellið á myndina til að sjá listaverkið betur -mynd: hsh

Í dymbilviku bjóða margar kirkjur upp á Passíusálmalestur. Hann er í margvíslegu formi. Valdir sálmar lesnir á sumum stöðum af mörgum eða einum lesara, allir sálmarnir lesnir af einum lesara eða mörgum.

Segja má að höfuðkirkja landsins þegar kemur að Passíusálmunum sé Hallgrímskirkja í Saurbæ í Garða- og Saurbæjarprestakalli. Þar hefst lestur Passíusálmanna kl. 13.00. Það er sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, sem les fyrsta sálminn. Síðan tekur hver lesandinn við af fætur öðrum; heimafólk úr prestakallinu. Dagskránni lýkur rúmlega um kl.18.00. Kór Akraneskirkju syngur og stjórnandi er Hilmar Örn Agnarsson.

Ekki má gleyma fyrsta viðkomustað eftir að Hallgrímur Pétursson kom heim að utan, Hvalsneskirkju á Reykjanesi, en þangað var hann vígður. Sagan segir að sr. Bryjólfur Sveinsson, biskup, hafi gefið honum við þau tímamót hest með öllum reiðtygjum, alklæðnað góðan og hempu. Valin erindi úr Passíusálmunum verða lesin þar á föstudaginn langa. Tónlist milli lesta verður í höndum þeirra Arnórs Vilbergssonar og Elmars Þórs Haukssonar.

Hallgrímskirkja í Reykjavík býður einnig upp á Passíusálmalestur. Það er Sigurður Skúlason, leikari, sem les sálmana. Þetta er í tólfta skipti sem hann les sálmana opinberlega og það síðasta.

Fleiri kirkjur vítt og breitt um landið bjóða upp á Passíusálmalestur.

Laugardaginn fyrir páska, 16. apríl, verður 50. Passíusálmur lesinn í Ríkisútvarpinu. Þetta árið eins og oft áður var farið í segulbandasafn Ríkisútvarpsins og fundin góð upptaka með fyrirtakslesara. Þorsteinn Ö. Stephensen, leikari, var kunnur stórleikari á sinni tíð. Hafði einstaklega þýða og fallega rödd eins og hlustendur sálmanna hafa tekið eftir. Hljóðritunin er frá 1976 og það er Páll Ísólfsson sem leikur á orgel á undan hverjum lestri.

Austfjarðaprófastsdæmi

Í Hofskirkju lesa sóknarbörn Hofs- og Vopnafjarðarsókna Passíusálmana – og reyndar fleiri – Stephen Yates organisti sér um orgelleik. Í Egilsstaðaprestakalli fer fram Passíusálmastund í Vallaneskirkju á föstudaginn langa kl. 17.00-18.30. Þar verður hluti sálmanna lesinn og tónlist flutt. Dóra Sólrún Kristinsdóttir djákni leiðir stundina. Kór Vallaness og Þingmúla og Torvald Gjerde organisti annast tónlistarflutning.

Passíusálmar verða lesnir í Seyðisfjarðarkirkju og tónlist leikin á milli lestra. Kór Seyðisfjarðarkirkju leiðir almennan safnaðarsöng. Organisti er Sigurður Jónsson. Sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir þjónar og meðhjálpari er Jóhann Grétar Einarsson.

Það er löng hefð fyrir því að lesa Passíusálmana í kirkjunum fyrir austan, þá alla eða valda, og þetta árið fellur lesturinn í hlut Djúpavogskirkju. Íbúar og sóknarnefndarfólk sjá um lesturinn og koma fulltrúar úr öllum sóknum í nágrenni Djúpavogs. Lesturinn er tengdur við það sem kallast tignun krossins. Kór Djúpavogskirkju syngur og honum stjórnar Kristján Ingimarsson.

Suðurprófastsdæmi

Valdir sálmar verða lesnir af sr. Gunnari Stíg Reynissyni, sóknarpresti í Hafnarkirkju, Höfn í Hornafirði. Samkór Hornafjarðar (kirkjukórinn), sér um söng.

Í Keldnakirkju les forseti kirkjuþings, Drífa Hjartardóttir, og sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir, nokkra valda Passíusálma og hefst lestur kl. 14.00. Guðjón Halldór organisti leikur á orgelið og leiðir almennan safnaðarsöng.

Í Hveragerði hefst helgistund kl. 11.30 og að henni lokinni verður gengin pílagrímsganga að Kotstrandarkirkju. Þar verður lesið úr Passíusálmunum en tónlistarflutningur verður í höndum Unnar Birnu Björnsdóttur.

Kjalarnessprófastsdæmi

Í Garðaprestakalli verða tvær helgigöngur. Önnur frá Vídalínskirkju að Garðakirkju og hin frá Bessastaðakirkju að Garðakirkju. Fyrri gangan hefst kl. 15.15 og sú seinni kl. 16.00. Helgistund hefst í Garðakirkju kl. 17.00 og þar verða lesnir Passíusálmar og kór Vídalínskirkju syngur undir stjórn Jóhanns Baldvinssonar.

Passíusálmarnir verð sungnir í Hafnarfjarðarkirkju kl. 11.00 og það er Magnea Tómasdóttir sem syngur þá við gömlu íslensku þjóðlögin í útsetningum Smára Ólasonar.

Ástjarnarkirkja í Hafnarfirði fer nýstárlega leið í þessu efni. Sr. Arnór Bjarki Blomsterberg, prestur, fer með myndatökuvél til fólks sem les sálmana og klippir síðan allt saman. Það verður svo sent út á föstudaginn langa. Svo sannarlega spennandi verkefni.

Hvalsneskirkja - sjá hér ofar.

Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

Í Áskirkju eru Passíusálmarnir lesnir á föstunni, tveir sálmar í senn, og svo hefur verið gert í ein sjö ár. Byrjað var á öskudaginn og lauk lestrinum á miðvikudaginn. Lesturinn var í höndum starfsfólks kirkjunnar og annarra áhugasamra.

Passíusálmarnir hafa verið lesnir í Seltjarnarneskirkju um árabil og svo verður einnig í ár. Seltirningar lesa sálmana milli kl. 13.00 og 18.00. Tónlistarflutningur verður í höndum Friðriks Vignis Stefánssonar organista og Örnólfs Kristjánssonar sellóleikara.

Hallgrímskirkja í Reykjavík, sjá hér ofar. 

Reykjavíkurprófastsdæmi eystra

Fyrrum þjónandi prestar í Grafarvogskirkju lesa sálmana frá kl. 13.00 til 18.00. Hákon Leifsson sér um tónlistina.

Vesturlandsprófastsdæmi

Í Hellnakirkju í Staðastaðarprestakalli verða valdir Passíusálmar lesnir kl. 11.00-16.00 og íhugað milli lestra.

Hallgrímskirkja í Saurbæ, sjá hér ofar.

Vestfjarðaprófastsdæmi

Passíusálmarnir verða lesnir í safnaðarheimili Bolungarvíkurkirkju og ástæðan er sú að sögn sóknarprestsins sr. Ástu Ingibjargar Pétursdóttur að þar eru íbúðir aldraðra og þá þurfa þau ekki að fara „upp á Hól í kirkjuna“. Presturinn les, fólk úr kirkjukórnum og aðrir Bolvíkingar. Engin tónlist verður flutt.

Lesið verður úr Passíusálmunum í kapellu sjúkrahússins á Ísafirði. Prestur, sr. Grétar Halldór Gunnarsson, og verður lesturinn í hans höndum en Tuuli Rähni sér um tónlistina. Þetta er guðsþjónusta og hugsuð fyrir fólkið á sjúkrahúsinu og vistmenn á hjúkrunarheimilinu.

Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi

Fimmtán lesarar sjá um lesturinn í Hvammstangakirkju og koma þeir úr söfnuðinum. Helgistund verður svo haldin eftir lesturinn og hefst hún kl. 17.00.

Í Hólaneskirkju á Skagaströnd sjá nokkrir úr söfnuðinum um Passíusálmalesturinn en tónlistin verður á könnu Hugrúnar Sifjar Hallgrímsdóttur.

Valin vers úr Passíusálmunum verða lesnir í Blönduóskirkju kl.17. 00. Nýi sóknarpresturinn í Þingeyrarklaustursprestakalli, sr. Edda Hlíf Hlífarsdóttir, les.ásamt nokkrum sóknarnefndar- og kirkjukórsmeðlimum.

Sauðárkrókskirkja býður upp á Passíusálmalestur frá kl. 10.00 og mun fólk úr söfnuðinum lesa, sóknarnefndarfólk og kirkjuvinir. Engin tónlist verður flutt.

Passíusálmalestur fer fram í Hóladómkirkju og hefst kl. 13.00 og sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup, hefur umsjón með honum. Viðstöddum er einnig boðið að lesa. Eftir fimmta hvern lestur er flutt tónlist.

Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Passíusálmar Hallgríms Péturssonar verða lesnir í Skútustaðakirkju yfir daginn.

Heimafólk les Passíusálmana í Ólafsfjarðarkirkju og um tónlist sér Ave. Lestur hefst kl. 11.00.

Sterk hefð

Þessi stutta samantekt sem þó er ekki tæmandi sýnir hve Passíusálmarnir eru rótfestir í kirkjustarfi á föstunni. Kirkjan.is hvetur fólk til að skoða nánar um þessa viðburði á heimasíðum kirknanna og Feisbókarsíðum.

Fróðlegt væri að gera rannsókn á því hvað það er sem veldur vinsældum þessara 17. aldar sálma hins lútherska rétttrúnaðar. Er það skáldsnilldin? Guðfræðin? Eða hvort tveggja fléttað saman við harmkvælaævi skáldsins? Hafa þeir einhvers konar ósamþykkt kennivald í kirkjunni? Nálgast lesendur þá sem heilagt orð eða sem orð er flytur píslarsögu frelsarans?

Fleira í boði

Í nær flestum kirkjum er píslarsagan lesin á föstudaginn langa og tónlist höfð um hönd. Sumar kirkjur bjóða upp á kyrrðarstund við krossinn og íhugundarstundir. Aðrar bjóða upp á tónlistarstundir. Í sumum kirkjum eru æðruleysismessur á föstudaginn langa. Í guðsþjónustum þennan dag eru einn eða fleiri Passíusálmar sungnir. Sum staðar er þeim fléttað inn í lestur píslarsögunnar. Friðarganga verður í Skútustaðaprestakalli.

Aths. Kirkjan.is hafði samband við fjölda presta og spurðist fyrir um hvort Passíusálmalestur yrði hafður um hönd í kirkjum þeirra. Eins kannaði kirkjan.is heimasíður og Feisbókarsíður nokkurra kirkna í sama skyni. Upptalningin er ekki tæmandi eins og áður sagði. Vilji einhver bæta við listann þá er það meira en velkomið til að halda öllu til haga. 

hsh

  • Kirkjustarf

  • Leikmenn

  • Menning

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju