Yngsti meðhjálpari landsins

16. apríl 2022

Yngsti meðhjálpari landsins

Ungi meðhjálparinn bar sig fagmannlega að þegar hann færði prestinn í hinn gamla hökul - mynd: Margrét Brynjólfsdóttir

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson er yngsti meðhjálpari landsins. Hann býr á Patreksfirði og þjónaði í gær sem meðhjálpari í fyrsta sinn við guðsþjónustu í Saurbæjarkirkju á Rauðasandi í Patreksfjarðarprestakalli hjá sr. Kristjáni Arasyni, sóknarpresti. Tryggvi Sveinn er fjórtán ára gamall, verður fimmtán í júlí, og faðir hans og afi voru meðhjálparar á Rauðasandi. Sem sagt þriðji ættliður og sá yngsti er tekur við keflinu. Þá var móðurafi hans prestur í Stafholti í Borgarfirði, sr. Brynjólfur Gíslason. Segja má að kirkjublóðið renni í sveininum unga.

Nú sjá eflaust ekki margir fyrir sér meðhjálparann sem ungan nýfermdan pilt heldur sem eldri karl eða konu. Svo var það reyndar fyrr á tíð að góðir og traustir bændur voru meðhjálparar. Síðan komu konurnar og gegna þær víða þessari þjónustu. Nú eru meðhjálparar á öllum aldri. Ekkert er getið um hlutverk meðhjálpara í reglum kirkjunnar nema hvað í innri samþykktum hennar er sagt að þeir séu „þjónar safnaðarins í samfélagi heilagrar kirkju“.

Kirkjan.is ræddi við Tryggva Svein áður en hann þjónaði í fyrsta skipti sem meðhjálpari og spurði náttúrlega fyrst hvernig honum litist á þetta.

„Bara vel,“ svarar hann að bragði, „þetta verður bara skemmtilegt.“

Er búið að setja þig inn í starfið?

„Það var æfing í dag, presturinn fór yfir þetta helsta sem ég á að gera,“ segir Tryggvi Sveinn, „eins og að kveikja á kertum og aðstoða hann í sambandi við prestsskrúðann.“

Hökullinn notaður einu sinni á ári
Kirkjan á hökul frá 17. öld og er hann svartur. Um hann er getið í vísitasíu 1683 með þessum orðum: „Svartur flauelshökull með örslitnum atlask silkikrossi, örslitinn.“ (Kirkjur Íslands, 26. bindi, R. 2017, bls. 319). Þessum hökli skrýddist sr. Kristján í dag og Tryggvi Sveinn meðhjálpari aðstoðaði hann með það. Hökullinn er aðeins notaður þennan eina dag ársins, föstudaginn langa.

Já, ungur er meðhjálparinn og má minna á að ungmenni hafa oft komið að kirkjustarfi með ýmsum hætti enda segir í 1. Tímóteusarbréfi 4.12: „Lát engan líta smáum augum á æsku þína...“

Ekki er annað hægt að segja en að hin aldna kirkja frá 1856 hafi fagnað hinum unga meðhjálpara í gær en milli þeirra eru 151 ár. Myndirnar með fréttinni sýna Tryggva Svein að störfum og er ekki annað að sjá en að hann standi sig með mikilli prýði. 

Eftir guðsþjónustuna buðu húsráðendur í Saurbæ á Rauðasandi, þau Kjartan Gunnarsson og Sigríður Á. Snævarr, upp á kirkjukaffi eins og þau hafa ætíð gert.

Smellið á myndirnar til að stækka þær. 

hsh


Myndir með frétt

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar