Með krossinn

21. apríl 2022

Með krossinn

Henrik Knudsen með krossinn góða - mynd: AðsendHann er á fertugsaldri og fékk köllun um að ganga þvert yfir landið með kross á bakinu sem hann smíðaði sjálfur. Undir krossinum er hjól sem auðveldar honum ferðina og yfir einhverjar heiðar fær hann bílfar þannig að ekki er um að ræða samfellda göngu. Engu að síður er þessi leið rúmir 600 km og drýgstan hluta af henni gengur hann eða 400 km. Daglega mun hann ganga 40 km. Hann ætlar sér að fara gangandi yfir Vopnafjarðarheiðina og hluta af Möðrudalsheiði. Og hann verður auðvitað að fá far í gegnum Hvalfjarðargöngin því ekki má fara í gegnum þau gangandi.

Henrik Knudsen býr á Vopnafirði og er hvítasunnumaður.

Kirkjan.is tók hann tali.

„Árið 2019 komst ég til persónulegrar trúar,“ segir Henrik og hef stundað hana síðan. Hann var leitandi og skoðaði nokkur trúfélög áður en hann gekk til liðs við hvítasunnukirkjuna.

Henrik mun ganga frá heimabæ sínum, Vopnafirði, og til Reykjavíkur. Fer norðurleiðina og ganga hans hefst í dag kl. 9.30 sama tíma og bænagöngur víða um land og kirkjan.is sagði frá hér. Gangan mun taka um tíu/ellefu daga og kemur hann til Reykjavíkur 1. maí eða svo. Ekki er enn ljóst hvar endastöð ferðarinnar er. Það kemur síðar í ljós.
Hvernig datt þér þetta í hug?

„Þetta kom til mín í fyrra sumar, Drottinn talaði til mín,“ svarar hann glaður í bragði, „ég var líka búinn að smíða krossinn.“

Hugmyndina að hjóli undir krossinn fékk hann í gegnum Arthur Blessit sem er amerískur og hefur gengið um mörg lönd með kross á bakinu og á honum hjól. „Mér fannst þetta góð hugmynd en krossinn er svona í kringum 25 kíló,“ segir hann.

En hvernig ætlar hann nærast á leiðinni?

„Ég er með harðfisk, þurrmat, þurrkaða ávexti í bakpokanum,“ segir hann, „svo fæ ég góða aðstoð, á nokkrum köflum fylgir mér hálfgert trúss svo ég þarf ekki að bera mikinn mat og þess háttar.“ Hann segir að eftir Öxnadalsheiðina verði hann einn á ferð í um þrjá daga og þá muni eitthvað hægjast á göngunni.
Hvar muntu gista á leiðinni?

„Ég er með tjald í bakpokanum, gisti á tjaldsvæðum og svo ég marga góða að sem bjóða mér gistingu á leiðinni,“ segir Henrik.

„Ég vinn í sláturhúsinu á Vopnafirði og það er vinna sem reynir á,“ svarar Henrik þegar hann er spurður hvort hann hafi undirbúið gönguna með einhvers konar líkamsrækt, „ég er svo af Guði gerður að ég er líkamlega sterkur – hef heilmikið úthald.“ Henrik segist reyndar lítið hafa stundað göngur.

Hver er tilgangurinn?
„Fyrst og fremst að vekja athygli á kristinni trú og því hve Jesús Kristur er mikilvægur fyrir mennina og nauðsyn þess að hlýða Drottni þegar hann talar til manns,“ segir Henrik.
Hann hefur gengið aðeins á Vopnafirði með krossinn á bakinu, „til þess að fá taktinn“ segir hann léttur í lund.

Og hvernig bregst fólkið við þegar það hittir þig með krossinn?

„Misjafnlega, sumir skilja þetta ekki alveg, en aðrir eru jákvæðir.“

Henrik segir að hann hafi fengið köllun um að fara í þennan leiðangur, drottinn talaði til hans, og hann hlýðir.

Hægt verður að fylgjast með honum gegnum Feisbókarsíðuna Share the Cross, þar sem hann setur myndir og umfjöllun meðan á göngu stendur.

Kirkjan.is óskar honum góðrar ferðar á göngunni.

hsh







  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju