Þau sóttu um

21. apríl 2022

Þau sóttu um

Presturinn mun hafa skrifstofuaðstöðu í Fella-og Hólakirkju og bera m.a. ábyrgð á barna– og æskulýðsstarfi í prestakallinu - mynd: hsh

Biskup Íslands auglýsti fyrir nokkru eftir presti til þjónustu í Breiðholtsprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra.

Umsóknarfrestur rann út á miðnætti 13. apríl.

Alls sóttu fimm um og einn umsækjandi óskaði nafnleyndar:

Hilmir Kolbeins, mag. theol.
Hjördís Perla Rafnsdóttir, mag. theol.
Laufey Brá Jónsdóttir, mag. theol.
Sr. Pétur Ragnhildarson

Í auglýsingunni kom fram að miðað væri við að viðkomandi gæti hafið störf þann 1. ágúst næstkomandi.

Breiðholtsprestakall
Í Breiðholtsprestakalli eru tvær sóknir, Breiðholtssókn og Fella- og Hólasókn. Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna – Biskupsstofu og önnur kirkjuleg stjórnvöld. Sóknirnar eru tvær, hvor með sína sóknarkirkju.

Lögð er sérstök áhersla á að byggja upp barna- og æskulýðsstarf í prestakallinu. Mun erindisbréf fyrir starfið kveða á um sérstakar skyldur prests þar að lútandi. Allir þrír prestar prestakallsins þjóna prestakallinu í heild sinni, en skipta verkefnum á milli sín eins og við á. Prestarnir eru í miklu samstarfi og starfið er mjög fjölbreytt.

Tveir prestar hafa aðstöðu í Fella- og Hólakirkju og einn í Breiðholtskirkju. Ráðið er í stöðu prests sem mun hafa skrifstofuaðstöðu í Fella-og Hólakirkju og bera ábyrgð á barna– og æskulýðsstarfi í prestakallinu. Vegna fjölda innflytjenda í Breiðholti er mikilvægt að presturinn hafi reynslu af starfi með innflytjendum, einkum á meðal barna-og unglinga og hafi áhuga á að efla það í prestakallinu.

Allar gildar umsóknir fara til valnefndar sem fer yfir allar umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8 gr. starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Fyrirvari
Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall.

Ofangreind þjónusta var auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera mætti að biskupafundur legði tillögur fyrir kirkjuþing sem kynnu að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hlytu þær samþykki kirkjuþings.

hsh

  • Frétt

  • Kirkjustarf

  • Starf

  • Biskup

477730743_3904126276524324_423667161409772734_n.jpg - mynd

Gleðilega páska

20. apr. 2025
Þjóðkirkjan óskar landsmönnum öllum gleðilegrar páskahátíðar.
Sr. Sigurður Jónsson

Sr. Sigurður Jónsson valinn sóknarprestur

19. apr. 2025
...í Laugardalsprestakalli
Sr. Jón Ómar

Sr. Jón Ómar ráðinn

16. apr. 2025
...prestur við Neskirkju