Sumar í kirkjunni

22. apríl 2022

Sumar í kirkjunni

Margrét Bóasdóttir ávarpaði gesti og stýrði samkomunni - Óskar Einarsson við flygilinn - mynd: hsh

Það var svo sannarlega sumar í sinni í Lindakirkju í gær á sumardaginn fyrsta þegar barnakórar kirknanna á höfuðborgarsvæðinu komu þar saman og sungu af mikilli ánægju og innlifun. Gleðin og eftirvæntingin lýsti úr augum þeirra enda var þetta í fyrsta sinn í tvö ár sem þau hittast til að syngja öll saman – og allir vita hvers vegna.

Segja má að þetta hafi verið sönghátíð barnanna og það var Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, sem stýrði viðburðinum og skipulagði en hátt í hundrað manns tóku þátt í honum – þar af á milli áttatíu og níutíu kórfélagar. Óskar Einarsson, tónlistarstjóri Lindakirkju var við flygilinn.

Barnakórar eru mjög mikilvægir í öllu kirkjulegu starfi. Söngurinn virkjar börnin og dregur þau saman. Hann er mikilvægur í uppeldi vaxandi kynslóðar sem kirkjan verður að leggja rækt við. Kórastarf bindur auk þess þátttakendur í því við kirkjuna traustum böndum og oft ævina út. Þess vegna ættu allir söfnuðir sem hafa tök á því að bjóða upp á barna- og unglingakórastarf í kirkjunum.

Hvaða kórar voru þetta? 
1. Barna- og unglingakór Lindakirkju – stjórnandi: Áslaug Hálfdánardóttir
2. Barnakór Guðríðarkirkju – stjórnandi: Ásbjörg Jónsdóttir
3. Barnakór Seltjarnarneskirkju – stjórnandi: Þorsteinn Sigurðsson og María Konráðsdóttir
4. Barnakór Neskirkju – stjórnandi: Lára Bryndís Eggertsdóttir
5. Barnakór Seljakirkju – stjórnandi: Rósalind Gísladóttir
6. Barnakór Grafarvogskirkju – stjórnandi: Svava K. Ingólfsdóttir.

Margrét Bóasdóttir var dagskrárkynnir og jafnframt stjórnaði hún kórsöng í nokkrum lögum.

Dagskráin hófst á því að börnin sungu eins og vera bar á sumardaginn fyrsta: Ó, blessuð vertu sumarsól.

Síðan kom hver kórinn á fætur öðrum og söng undir stjórn síns stjórnanda.

Áslaug Hálfdánardóttir, djákni og kórstjóri barna- og unglingakórs Lindakirkju, ávarpaði gesti og söngfugla í lokin þar sem sr. Guðmundur Karl Brynjarsson var vant við látinn vegna skírnar. En öllum að óvörum og til mikillar gleði spratt hann skyndilega upp og steig á svið að loknu ávarpi Áslaugar og sagði nokkur orð. Hann var þakklátur fyrir að sjá allan hinn vaska sönghóp. Þakkaði sérstaklega söngmálastjóra þjóðkirkjunnar, Margréti Bóasdóttur, fyrir að halda utan um þessa mikilvægu starfsemi kirkjunnar.

Í lokin stóðu allir viðstaddir upp og sungu með börnunum fyrsta erindið úr kvæðinu: Ó, blessuð vertu sumarsól.

Sönghátíðin var mjög vel sótt og var kirkjan sneisafull af fólki. 

Prúð og frjálsleg...
Það var eftirtektarvert hve börnin voru öll prúð í þessari athöfn og hve snurðulaust hún gekk fyrir sig. Augljóst var að börnin báru virðingu fyrir verkefninu sem beið þeirra og leystu það vel af hendi. Svo sannarlega var þarna á ferð syngjandi æskufólk sem er framtíðarsproti í kirkjunni og hlúa verður að. Kórastarfið hefur nefnilega ekki bara trúarlegt gildi heldur einnig uppeldis- og menningarlegt gildi. 

Um morguninn fór fram útvarpsguðsþjónusta í Lindakirkju þar sem sr. Guðmundur Karl Brynjarsson prédikaði og þjónaði fyrir altari. Organisti: Óskar Einarsson. Gítarleikari: Davíð Sigurgeirsson. Barna- og unglingakórar frá Lindakirkju, Seljakirkju, Vídalínskirkju, Seltjarnarneskirkju og Fríkirkjunni í Reykjavík sáu um messusönginn. Kórstjórar: Áslaug Hálfdánardóttir, Þorsteinn Sigurðsson, María Konráðsdóttir og Margrét Bóasdóttir. Umsjón með guðsþjónustunni hafði Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar.

Þetta var sannkallaður sumardagur í kirkjunni.

Kirkjan.is is óskar lesendum sínum gleðilegs sumars!


hsh

 


Sumir kórar voru stóru og aðrir litlir en allir sungu þeir vel

 


Lindakirkja var þéttsetin

 


Þau sungu sumarið inn

 


Kirkjuturn Lindakirkju

  • Barnastarf

  • Frétt

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Skipulag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju