Framtakssamur maður

26. apríl 2022

Framtakssamur maður

Einar Aron Fjalarsson, framtakssamur ungur maður – mynd: hsh

Einar Aron Fjalarsson er ungur maður og nákunnugur kirkjulegu starfi á ýmsum sviðum. Hann ólst upp við kristilegt starf á Húsavík sem barn og síðar á Akureyri. Hann hefur verið framkvæmdastjóri Gídeonsfélagsins, og er að læra félagsráðgjöf, byrjar í haust í meistaranámi í þeirri grein. Samhliða námi og starfi hefur hann komið fram sem skemmtikraftur og þá einkum í ýmsum viðburðum sem eru við allra hæfi.
Hann er skapandi einstaklingur, fullur af eldmóði fyrir hönd trúarinnar og hrindir hlutum í verk sem hann segir að Guð leiði sig í og hann finnur að gagnast munu kirkju og kristilegu starfi.

„Mér fannst vanta aðgengilegt og kristilegt efni á íslensku á YouTube -rásina,“ segir hann í samtali við tíðindamann kirkjunnar.is, „ég hafði samband við teiknara sem teiknaði persónurnar í myndböndunum og annan til að skrifa handritin.“ Hann segist sjálfur setja svo allt saman og flétta inn hljóðum þar sem þau eiga við.

Einar Aron kallar þetta biblíuteiknimyndasögur og þær koma fram í Sunnudagaskólanum: Biblíusögur fyrir börn, á YouTube.

„Þetta eru stutt myndbönd og þegar hafa átta þeirra birst en þau verða á þriðja tug alls og í vor verða þau öll komin út,“ segir hann. „Viðtökurnar hafa verið mjög góðar, margir hringt í mig og ýmsir stutt við bakið á mér því að allt kostar peninga.“

Myndböndin eru sett inn vikulega, alltaf á miðvikudögum. Lengd þeirra er misjöfn eða allt frá 90 sekúndum upp í þrjár til fjórar mínútur. Einar Aron talar sjálfur inn á myndböndin, hefur þægilega og skýra rödd.

„Þetta er hugsað fyrir yngri börnin,“ segir Einar Aron, „og foreldra þeirra til að horfa á með þeim og ræða efni þeirra.“

Hvað hefur þetta tekið langan tíma?

„Þetta er enn í vinnslu en ég hef undanfarin tvö ár unnið að þessu,“ segir hann, „fyrsta myndbandið var sent út á páskadag og þar sem páskarnir eru hápunktur í kristinni trú fannst mér viðeigandi að ýta verkinu úr vör á hátíðinni.“

Einar Aron segir að efnið sé ókeypis og öllum sé heimilt að nota það til dæmis í sunnudagaskólum eða annars staðar í kristilegu starfi eða á heimilum.

Fleira er í bígerð hjá Einari Aroni eins og gerð fræðslustunda sem hægt verður að nálgast í Sunnudagaskólanum. Þær stundir eru unnar upp úr hverju myndbandi með spurningum og vangaveltum sem börnin og foreldrar þeirra geta rætt um eftir að hafa horft. „Þetta getur hjálpað fólki til að efla trú barnanna,“ segir Einar Aron.

Það er ekki tilviljun að efnið sé aðgengilegt á YouTube þar sem það er annar stærsti leitarvefurinn á eftir Google.

Einar Aron sýnir og sannar að einstaklingsframtak í kirkjulegu starfi skilar sínu með markvissum, skjótum og vönduðum hætti.

hsh


(Skjáskot)

  • Biblían

  • Fræðsla

  • Frétt

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Barnastarf

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur
Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Fossvoginum

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall