Útvarpsmessan góða

27. apríl 2022

Útvarpsmessan góða

Kór Egilsstaðakirkju - mynd: Margrét Bóasdóttir

Fæstir hugsa til þess þegar þeir kveikja á útvarpi og hlusta á guðsþjónustu að mikill undirbúningur liggur að baki þeirra. Ekki bara undirbúningur prests og kórs heldur og allt sem snýr að upptöku guðsþjónustunnar. Undirbúningurinn er ekki minni þegar teknar eru upp margar guðsþjónustur úti á landi og það í einum rykk.

Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Margrét Bóasdóttir, hefur mikla reynslu af skipulagi á upptökum á guðsþjónustum úti á landsbyggðinni. Þetta er umfangsmikið starf því að upptökur fara fram í einni kirkju en kórar og prestar koma víða að.

Nú var farið fyrir skömmu á Austurland í upptökuleiðangur og sá söngmálastjóri um allt skipulag að vanda. 

Upptökur fóru fram í Egilsstaðakirkju 22.-23. apríl og voru 6 messur teknar upp til að senda út á Rás 1 og verður þeim útvarpað frá lokum maímánaðar og fram í júlí. Þó skal á það bent að nokkrum dagskrárbundnum guðsþjónustum verður skotið inn á milli eins og á sjómannadaginn og þjóðhátíðardaginn.

Söngmálastjóri segir að það sé kraftaverki líkast að tekist hafi að manna alla kóra þar sem kórónuveiran og inflúensa hafi leikið starfið grátt undanfarin misseri.

Margrét segir að margir hafi komið um fjallveg og það hafi verið öllum sammerkt að vinna af mikilli gleði og fórnfýsi. Hún bendir á að starf kirkjukóra sé fjölmennasta sjálfboðaliðastarf landsins og sá tryggi kjarni sem alltaf er boðinn og búinn að þjóna með söng sínum í guðsþjónustum og víðar. Kirkjukór í hverju plássi er mikil menningarleg auðlind.

Alls voru þátttakendur sem komu að guðsþjónustunum 130 að tölu.

En að guðsþjónustu koma fleiri en prestur og kór. Lesarar, meðhjálparar og kirkjuverðir leggja sitt af mörkum svo allt fari sómasamlega fram og með reglu eins og þar segir.

„Það er alltaf jafn dýrmætt að vinna að þessu árlega verkefni á landsbyggðinni og finna hve kirkjan á traust starfsfólk og velunnara,“ segir Margrét í lokin.

Nú er bara að fylgjast með dagskránni og hana má sjá hér fyrir neðan. Hún sýnir fjölbreytnina í helgihaldinu og mörgum finnist gaman að hlusta á ólíka kóra syngja sem og presta prédika.

Útvarpsmessurnar

Egilsstaðakirkja – 22. maí:
Sr. Þorgeir Arason, Dóra Sólrún Kristjánsdóttir, djákni, Torvald Gjerde, organisti, Hlín Pétursdóttir Behrens, einsöngvari, Elke Schnabel, trompet, Barnakór Egilsstaðakirkju og Kór Egilsstaðakirkju ásamt lesurum.

Ássókn í Fellum á Héraði – 29. maí: Sr. Brynhildur Óla Elínardóttir, Dóra Sólrún Kristjánsdóttir, djákni, Drífa Sigurðardóttir, organisti, Hlín Pétursdóttir Behrens, sópran og kór Áskirkju í Fellum ásamt lesurum.

Seyðisfjarðarkirkja – 19. júní: Sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir, prófastur, Rusa Petriashvili, organisti og Kór Seyðisfjarðarkirkju ásamt lesurum.

Djúpavogskirkja – 3. júlí: Sr. Alfreð Örn Finnsson, Guðlaug Hestnes, organisti, Kristján Ingimarsson, söngur og gítar, Helga Björk Arnardóttir, einsöngur, Kór Djúpavogskirkju.

Egilsstaðaprestakall – 10. júlí: Sr. Þorgeir Arason, Jón Ólafur Sigurðsson, organisti, einsöngvarakvartett og félagar úr kórum 7 kirkna; Bakkagerðis-, Eiða-, Kirkjubæjar-, Sleðbrjóts- og Valþjófsstaðarkirkna, ásamt lesurum.

Vopnafjarðarkirkja – 17. júlí: Sr. Þuríður Björg Wiium Árnadóttir, Stephen Yates organisti, Kór Vopnafjarðar- og Hofskirkju.

hsh



Kór Egilsstaðaprestakalls ásamt sr. Þorgeiri Arasyni


Kór Ássóknar í Fellum ásamt sr. Brynhildi Óla Elínardóttur


Kór Djúpavogskirkju ásamt sr. Alfreð Erni Finnssyni


Kór Seyðisfjarðarkirkju ásamt sr. Sigríði Rún Tryggvadóttur


Kór Vopnafjarðarkirkju ásamt sr. Þuríði Björgu Wiium Árnadóttur


Gamla góða Gufan stendur fyrir sínu eins og útvarpsmessan

 


  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Frétt

  • Fréttin er uppfærð

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur
Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Fossvoginum

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall