Orgelin hljóma
Í nýju myndbandi sem Björn Steinar Sólbergsson, organisti í Hallgrímskirkju og skólastjóri Tónskóla þjóðkirkjunnar, hefur staðið að er áhorfendum boðið inn í allar kirkjur - alls níu - í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra til að hlýða á ellefu orgelleikara flytja orgelverkið Was Gott tut, das ist wohlgetan, sálmalag og 9 tilbrigði eftir Johann Pachelbel. Þeir skipta verkinu á milli sín. Sálmalagið er nr. 214 í sálmabók kirkjunnar og heitir Gakk inn í Herrans helgidóm sem er yfirskrift myndbandsins. Það var sr. Valdimar Briem (1848-1930) sem þýddi sálminn.
Áhorfendur fá að kynnast orgelum kirknanna og organistunum sem leika jafnan á þau.
Björn Steinar segir að upprunalega hugmyndin komi frá Nils-Henrik Asheim sem er organisti tónlistarhússins í Stavanger í Noregi.
„Þorgrímur Þorsteinsson, tónmeistari, sá um upptökur og hljóðstjórn,“ segir Björn Steinar, „og gerir þetta listavel, vinna hans var hrífandi.“
Áhorfendum gefst ekki aðeins tækifæri til að hlusta á organista heldur og að svipast ögn um inni í kirkjunum sjálfum. Myndefnið allt er líka mjög vel heppnað. Myndbandið er tæpar tíu mínútur að lengd.
Upptökur fóru fram vorið 2022.
Sálmalag
Langholtskirkja, organisti: Magnús Ragnarsson. Orgel: The Noack Organ Company 1999, III/Ped/35.
Tilbrigði I
Langholtskirkja, organisti: Magnús Ragnarsson. Orgel: The Noack Organ Company 1999, III/Ped/35.
Hallgrímskirkja, organisti : Steinar Logi Helgason. Orgel: Frobenius Orgelbyggeri 1985, II/Ped/10.
Tilbrigði II
Grensáskirkja, organisti: Ásta Haraldsdóttir. Orgel: Bruno Christensen & Sönner 1988, III/Ped/18.
Bústaðakirkja, organisti: Jónas Þórir. Orgel: Frobenius 1990, III/Ped/33.
Tilbrigði III
Laugarneskirkja, organisti: Elísabet Þórðardóttir. Orgel: Björgvin Tómasson, orgelsmiður, 2002, II/Ped/28.
Tilbrigði IV
Áskirkja, organisti: Bjartur Logi Guðnason. Orgel: P. Bruhn & Søn Orgelbyggeri 1993, II/Ped/18.
Tilbrigði V
Hallgrímskirkja, organisti: Björn Steinar Sólbergsson. Orgel: Orgelbau Klais Bonn 1992, IV/Ped/72.
Tilbrigði VI
Seltjarnarneskirkja, organisti: Friðrik Vignir Stefánsson. Orgel: Björgvin Tómasson, orgelsmiður, 1999, II/Ped/18.
Tilbrigði VII
Háteigskirkja, organisti: Guðný Einarsdóttir. Orgel: Karl Schuke Berliner Orgelbauwerkstatt 1973, II/Ped/7.
Tilbrigði VIII
Dómkirkjan, organisti: Kári Þormar. Orgel: Karl Schuke Berliner Orgelbauwerkstatt 1985, III/Ped/31.
Tilbrigði IX
Neskirkja, organisti: Lára Bryndís Eggertsdóttir. Orgel: The Noack Organ Company 1999, II/Ped/33.
hsh