Liðsauki í Kársnesprestakall

17. maí 2022

Liðsauki í Kársnesprestakall

Kópavogskirkja í Kársnesprestakalli - helsta kennileiti Kópavogs - myndin tekin í bleikum október - mynd: hsh

Dr. Grétar Halldór Gunnarsson, prestur í Grafarvogsprestakalli, tekur til starfa í Kársnesprestakalli í Kópavogi við hliðina á sóknarprestinum sr. Sigurði Arnarsyni frá og með 1. ágúst n.k. Dr. Grétar Halldór er um þessar mundir prestur á Ísafirði en hann og sr. Magnús Erlingsson, sóknarprestur þar og prófastur, höfðu skipti á störfum í einn vetur.

Kársnesprestakall er í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra og er eina prestakallið þar sem einn prestur er að störfum. Biskupafundur og kirkjuþing hafa verið á einu máli um að ekki skuli vera einn prestur að störfum í hinum stóru prestaköllum.

Í Kársnesprestakalli í Kópavogi eru rúmlega sexþúsund íbúar. Kópavogsbær er í sókn og er gert ráð fyrir að íbúum í prestakallinu fjölgi á næstu sjö árum um hátt í þrjú þúsund manns. Byggð hefur verið þétt og nýtt hverfi risið á Kársnesinu. Samfara þessari fólksfjölgun mun fermingarbörnum fjölga og síðastliðið vor var fjölgun þeirra 20%. Sóknarprestur og sóknarnefnd hafa óskað eftir því að prestsþjónustan yrði efld í kallinu. Sr. Sjöfn Jóhannesdóttir starfaði frá árinu 2020 og fram á þetta ár við hlið sr. Sigurðar en fór á eftirlaun fyrir nokkru.

Skipulagsbreytingar hafa farið fram í þjóðkirkjunni til að koma jafnvægi á rekstur hennar og kirkjuþing hefur sett fram hagræðingarkröfu. Vegna hagræðingar hafa tveir prestar hætt í Austfjarðaprestakalli og síðan var ein staða auglýst þar. Eins mun hagræðingarkrafan hafa áhrif í Breiðholtsprestakalli í lok þessa árs þegar prestur þar lætur af störfum en það starf mun ekki verða auglýst.

Í ljósi þessa brá sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, á það ráð að styrkja prestsþjónustuna í Kársnesprestakalli með því að dr. Grétar Halldór hæfi þar störf við hlið sr. Sigurðar. Dr. Grétar Halldór var einn af fjórum prestum í Grafarvogsprestakalli sem er það stærsta á landinu. Starfið þar verður og endurskipulagt þar sem þrír prestar í stað fjögurra munu sinna því á næstunni. Fjölgun í Grafarvogsprestakalli mun svo eflaust kalla á endurmat á stöðunni.

hsh


  • Frétt

  • Kirkjustarf

  • Samfélag

  • Biskup

  • Fréttin er uppfærð

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur
Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Bústaðakirkju

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall