Bryndís ráðin

20. maí 2022

Bryndís ráðin

Bryndís Böðvarsdóttir er nýr prestur í Austfjarðaprestakalli - mynd: Alexander Ingvarsson.

Biskup Íslands auglýsti fyrir nokkru eftir presti til þjónustu í Austfjarðaprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi. Umsóknarfrestur rann út 13. apríl sl. Miðað var við að viðkomandi gæti hafið störf sem fyrst, en í síðasta lagi þremur mánuðum eftir að niðurstaða um ráðningu lægi fyrir.

Valnefnd kaus Bryndísi Böðvarsdóttur, mag. theol., til starfans og hefur biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, staðfest ráðningu hennar.

Nýi presturinn
Bryndís Böðvarsdóttir er fædd 1972 á Akureyri og uppalin þar. Hún lauk stúdentsprófi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 1992 frá félagsvísinda- og uppeldisbraut.

Bryndís hefur starfað við verslunarstörf, barnagæslu og skrifstofustörf, þá lengst af innan ýmissa deilda Símans. Hún starfaði við fyrirtækjaþjónustu Símans þegar hún fann að tími væri kominn til að afla sér frekari menntunar. Þá kaus hún að stunda námið á lengri tíma samhliða vinnu.

Hún hóf fyrst djáknanám en skipti svo yfir í guðfræðinám og lauk BA-prófi árið 2011 og síðar mag. theol.- prófi frá Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands 2019. Starfsþjálfunarnámi lauk hún ári síðar.

Eftir að prófum lauk hefur hún starfað sem kirkjuvörður og meðhjálpari við Lágafellssókn.

Bryndís á þrjú börn og tvö þeirra eru uppkomin.
Austfjarðaprestakall
Austfjarðaprestakall nær frá Brekkusókn í Mjóafirði í austri til Hofssóknar í Álftafirði í suðri. Það var til við sameiningu fimm prestakalla árið 2019, Norðfjarðarprestakalls, Eskifjarðarprestakalls, Djúpavogsprestakalls, Heydalaprestakalls og Fáskrúðsfjarðarprestakalls. Prestakallið nær yfir stórt svæði og m.a. tvö sveitafélög.

Í Austfjarðaprestakalli eru ellefu sóknir, allar með sóknarkirkju – sóknirnar eru: Hofssókn í Álftafirði, Djúpavogssókn, Berufjarðarsókn, Heydalasókn, Stöðvarfjarðarsókn, Fáskrúðsfjarðarsókn /Kolfreyjustaðasókn, Reyðarfjarðarsókn, Eskifjarðarsókn, Eskifjarðarsókn, Norðfjarðarsókn, og Brekkusókn.

Prestar prestakallsins eru í miklu samstarfi og þjóna öllu prestakallinu, en samstarfssamningur kveður nánar á um skiptingu verkefna og hver prestur er tengiliður við ákveðnar sóknarnefndir. Nýr prestur hefur sérstakar skyldur við Norðfjarðarsókn og Eskifjarðarsókn auk fjölmargra annarra verkefna í prestakallinu.

Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna – Biskupsstofu og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

 hsh


  • Kirkjustarf

  • Samfélag

  • Starf

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju