Börn og undraveröld orgelsins

28. maí 2022

Börn og undraveröld orgelsins

Guðný Einarsdóttir, organisti, við orgel Háteigskirkju - mynd: hsh

Þær eru báðar organistar. Önnur er fyrir norðan og hin fyrir sunnan. Báðar hugmyndaríkar og öflugar. Þær eru fullar af eldmóði fyrir hönd orgelsins, hinnar virðulegu drottningar hljóðfæranna.

Félagið Orgelkrakkar er hugmynd þeirra og henni ýttu þær á flot. Þetta félag stendur fyrir alls konar viðburðum tengdum orgelinu og eru ætlaðir börnum.

Þetta eru þær Guðný Einarsdóttir, organisti í Háteigskirkju, og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, organisti við Akureyrarkirkju.

Nú hafa þær Guðný og Sigrún Magna hafið samstarf við Tónskóla þjóðkirkjunnar um námskeiðahald í sumar þar sem heimur orgelsins verður kynntur fyrir 7-12 ára börnum. Námskeiðið fer fram í Hjallakirkju í Kópavogi.

„Við smíðum orgel á námskeiðinu,“ segir Guðný, „reyndar svona Lego-orgel.“ Þau eru leidd í gegnum smíðina og segir hún að börnin hafi mjög gaman af samsetningunni og séu áhugasöm. Orgelsmíð er vandaverk en börnin eru með gott smiðsauga og leggja pípu eftir pípu eftir leiðsögn ef með þarf og fá svo að spila eins og þau vilja. Hún segir það vera lykilatriði til að opna heim orgelsins fyrir börnum að þau fái að kynnast hljóðfærinu, sjá og reyna.

Menn grípa gítarinn með sér, bera fiðlu á baki sínu og mjög víða eru píanó. Allt sýnileg hljóðfæri. En orgelið situr kyrrt á sínum stað í kirkjunni. Stórt um sig og mikið að vallarsýn. Þú ferð ekki langt með það. Þú verður að koma til þess. Þannig er grunnhugsunin hjá félaginu Orgelkrökkum. Koma til barnanna með orgelið og láta þau setja saman og þreifa á. Leika á það og hlusta eftir tónum og hljóðum. Markmið félagsins er enda að kynna börnum orgelið á skemmtilegan hátt og veita ungum nemendur stuðning og hvatningu.

Spunasmiðja er hluti af námskeiðinu. Sögð eru ævintýri og börnin semja sögur. Finna svo tóna í orgelinu sem hæfa persónum sögunnar og atburðum. Þetta er afar skapandi þáttur í námskeiðinu sem börnin eru afskaplega spennt fyrir og ánægð með.

Hvað finnst börnunum merkilegast við orgelið?
„Það eru hljóðin sem eru svo mismunandi og svo allir þessir takkar – þau spyrja mikið út í þá, hvað gerir þessi og til hvers er þessi hérna og svo framvegis,“ segir Guðný. Sum hrífast af stærð orgelanna og finnst þau vera eins og geimskip.

„Orgelið er eins og litakassi,“ segir Guðný, „og börnin grípa það strax.“ Þau geta nefnilega líka litað með tónum! Hún segir að börn hafi mikinn áhuga á orgelinu.

Börnin þurfa ekki að hafa neinn tónlistarlegan bakgrunn til að taka þátt í námskeiðinu. Námskeiðið stendur yfir dagana 20. -24. júní, frá klukkan 10.00-12.00 – sem sé fimm daga námskeið.

„En við gerum fleira á námskeiðinu en að spá í orgelið,“ segir Guðný, „við förum í óvissuferð, leikum okkur og finnum alltaf upp á einhverju skemmtilegu.“

Skráning á námskeiðið fer fram á netfanginu: tonskoli@tonskoli.is og námskeiðsgjaldið er 10.000 kr.

Tónskóli þjóðkirkjunnar styður við bakið á Orgelkrökkum og námskeiðinu. Skólinn mun í haust bjóða börnum upp á kennslu í orgelleik. Það er í fyrsta sinn í sögu skólans sem slíkt gerist. Spennandi verður að sjá hve mörg börn munu skrá sig til náms.

Félagið Orgelkrakkar fékk listamannalaun til að standa fyrir orgelhátíðum sem eru vinnusmiðjur og tónlistarflutningur fyrir börn á öllum aldri. Þegar hefur ein slík hátíð verið haldin, á Akureyri nú í vor.

Í ágústmánuði verður orgelkrakkahátið á Hólum í Hjaltadal, á Blönduósi í september, á Ísafirði um miðjan september, í Reykjavík í lok september og á Selfossi og Höfn í Hornafirði í byrjun október.

hsh

 

  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Frétt

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði