Kirkjuvarpið þitt

2. júní 2022

Kirkjuvarpið þitt

Arndís Björk Ásgeirsdóttir er þaulreynd dagskrárgerðarkona - mynd: Dagur Gunnarsson

Hlaðvarp þjóðkirkjunnar kallast Kirkjuvarpið. Þar er eitt og annað að finna meðal annars umfjöllun um kirkjutónlist.

Hlaðvarpið er nýjung þar sem hlustandinn er eigin útvarpsstjóri og er engum háður nema sjálfum sér ásamt eigin áhugamálum.

Arndís Björk Ásgeirsdóttir hefur unnið um skeið við tónlistarhlaðvarp kirkjunnar á vegum söngmálastjóra þjóðkirkjunnar.

„Hlaðvarp er hið nýja útvarp og eins og staðan er í dag eru fleiri sem hlusta á hlaðvörp en útvarp í línulegri dagskrá,“ segir Arndís Björk þegar kirkjan.is spjallar stuttlega við hana um málið. „Hlaðvarpið er komið til að vera og það er skemmtilegur miðill enda getur það tekið til allra hluta án þess að einhver einn dagskrárstjóri ákveði umræðuefni og efnistök.“

Arndís Björk segir að efnistök í Kirkjuvarpinu séu tengd kirkjunni og kirkjutónlist og á dagskrá sé frekari útlistun og kynning á nýjum sálmum í nýju sálmabókinni sem stefnt er að komi út í haust.

Hlaðvarpið er svo sannarlega mikilvæg menningarstarfsemi. „Hlaðvarpið er skrásetning heimilda – varðveisla munnlegrar geymdar,“ segir Arndís Björk, „Raddir tónskálda, flytjenda og annarra sem koma fram varðveitast í hlaðvarpinu. „Það gefur þessu persónulegan blæ og verður án efa dýrmæt heimild í framtíðinni.“

„Að auki er stefnt að því að kynna safnaðarstarf vítt og breitt um landið, kórastarf og tónlistarlíf í kirkjum stórum sem smáum, með áherslu á hvern landshluta fyrir sig,“ segir hún og því ljóst að margt er í bígerð í hlaðvarpsmálum kirkjunnar. Kirkjan.is hvetur því allt kirkjufólk til að hlustu á Kirkjuvarpið sér til ánægju og yndisauka. 

Hver er Arndís Björk
Hún hefur starfað sem útvarpskona í aldarfjórðung og er þekkt sem dagskrárgerðarkona og þulur á Rás 1. Hún hefur haft umsjón með fjölda þátta og þáttaraða um klassíska tónlist og annað á Rás 1. Arndís Björk var í tólf ár umsjónarmaður beinna útsendinga frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þá var hún fyrsti umsjónarmaður þáttarins Á leið í tónleikasal, þar sem hlustendum er veitt innsýn í efnisskrá kvöldsins.

Arndís Björk er menntaður píanókennari og lauk hún einnig burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og stundaði framhaldsnám í píanóleik hjá Peter Toperczer, prófessor, í Prag á árunum 1991-1996. Hún starfaði um árabil sem píanókennari við Nýja tónlistarskólann. Í ár ákvað hún að snúa sér meira að kennslu og taka jafnframt að sér dagskrárgerð fyrir Kirkjuvarpið í samráði við Margréti Bóasdóttur, söngmálastjóra þjóðkirkjunnar.

Kirkjuvarpið. 

hsh



  • Menning

  • Samfélag

  • Frétt

  • Kirkjuvarp

  • Tónlist

  • Kirkjustarf

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju