Hátíð í Mörk

6. júní 2022

Hátíð í Mörk

Hvítasunnuguðsþjónusta í Mörk - sr. Eva Björk Valdimarsdóttir þjónaði - mynd: hsh

Þjóðkirkjan sinnir ungum sem öldnum í þjónustu sinni. Flestir söfnuðir eru með öflugt starf fyrir eldri borgara. Þá er fjölbreytt starf og afar kröftugt á vegum Eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastsdæma.

Þjónusta við eldri borgara hefur ætíð verið gefandi og mikilvægur þáttur í starfi kirkjunnar í hverju byggðarlagi þar sem hjúkrunar- og dvalarheimili er að finna. Sú þjónusta hefur verið vel þegin af heimilisfólki og starfsfólki. Sömuleiðis hafa aðstandendur eldri borgara lýst mikilli ánægju sinni með þessa þjónustu.

Á mörgum dvalar- og hjúkrunarheimilum fer helgihaldið fram í fallegum sölum, til dæmis matsölum heimilanna. Í öðrum er að finna kapellur og er sennilega sú stærsta og glæsilegasta á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík. Grund fagnar á þessu ári 100 ára afmæli en það hóf starfsemi 1922. Einn aðalhvatamaður að stofnun Grundar var Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason, guðfræðingur, sem síðar tók vígslu sem heimilisprestur þar 1942 eða fyrir áttatíu árum í ágúst næstkomandi.

Í gær var guðsþjónusta á hjúkrunarheimilinu Mörk við Suðurlandsbraut. Það var sr. Eva Björk Valdimarsdóttir, prestur í Bústðaprestakalli, sem fylkti liði með nokkrum félögum úr kirkjukór Grensáskirkju og organistanum þar, Ástu Haraldsdóttur. „Þjónustan er mjög gefandi og ánægjuleg,“ segir sr. Eva Björk.

Heimilisfólkið í Mörk tíndist smám saman inn í hinn fallega sal þar sem lítil kapella er í einu horni hans. Það var kyrrlátt fólk og virðulegt, eldri kynslóðin sem hefur lifað margt. Margir heimilismannanna komu í hjólastólum sínum og er það starfsfólk eða ættingjar sem aka þeim inn í kapelluna.

Altaristaflan í kapellunni er eftir listmálarann Baltasar Semper, hún er stór um sig og kröftug eins og myndir hans eru gjarnan.

Saga Markar
Hjúkrunarheimilið Mörk var opnað í ágúst árið 2010 en Félags – og tryggingamálaráðuneytið undirritaði samning við dvalar- og hjúkrunarheimilið Grund um rekstur þessa nýja og glæsilega hjúkrunarheimilis. Heimilið er fyrir 113 heimilismenn sem búa tíu saman á ellefu notalegum heimilum. Stuðst er við Eden hugmyndafræðina við rekstur heimilisins. Við hlið hjúkrunarheimilisins eru 152 glæsilegar þjónustuíbúðir og geta íbúar sótt sér ýmsa þjónustu á hjúkrunarheimilið.

Sr. Auður Inga Einarsdóttir er heimilisprestur Markar og Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Grundar. Hún hefur um hönd guðsþjónustur mánaðarlega í Mörkinni en við orgelið er Kristín Waage. Þá eru að sjálfsögðu guðsþjónustur á öllum hátíðum kirkjuársins. 

Mikilvægast er að allir heyri það sem sungið er og sagt. Þess vegna bar þetta fína hljóðkerfi í Mörk allt sem sagt var svo það fór ekki fram hjá neinum viðstaddra.

Eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastsdæma.

hsh

 


Sr. Eva Björk prédikar - færst hefur í vöxt að prestar lesi prédikanir sinar beint af Ipad


Húsakynni eru stórglæsileg í Mörk


Þegar tíðindamann kirkjunnar.is bar að garði var presturinn að brjóta saman messuskrána - að mörgu er að hyggja

  • Frétt

  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Eldri borgarar

  • Fréttin er uppfærð

Krakkakór.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna í Hallgrímskirkju

02. maí 2024
...um 200 börn sungu
Anna Sigga, sr. Sigrún og Bylgja Dís

Sumarsöngvar í fangelsi

02. maí 2024
...frásögn fangaprests
Sr. Guðmundur og sr. Guðrún á kynningarfundi á Selfossi

Síðari umferð biskupskosninga hefst í dag

02. maí 2024
...lýkur 7. maí kl. 12:00