Erlend frétt: Skotárás í kirkju

7. júní 2022

Erlend frétt: Skotárás í kirkju

Kirkja Heilags Frans Xavier eftir skotárásina. Hún er í borginni Owo í suðvestur Nígeríu. Mynd: Vårt land/Rahaman A Yusuf/AP

Á hvítasunnudag réðust vopnaðir menn inn í kaþólska kirkju Heilags Frans Xavier í borginni Owo í Ondo-héraði í suðvestur Nígeríu. Guðsþjónusta stóð yfir þegar óþekktir byssumenn létu til skarar skríða og lágu að sögn sjónarvotta um fimmtíu í valnum og fjölmargir særðust alvarlega. AP fréttastofan segir að 21 hafi að minnsta kosti fallið meðan aðrar fréttaveitur segja fimmtíu manns liggja í valnum. Tölur um látna hafa ekki verið staðfestar. Börn voru í hópi fallinna en sumir kirkjugestanna ásamt prestinum voru numdir á brott. Enginn hefur lýst hryðjuverkinu á hendur sér og þar af leiðandi er ekki vitað hver ber ábyrgð á því.

Árásir á kirkjur í suðvestur Nígeríu eru fremur sjaldgæfar.

Frans páfi bað fyrir hinum látnu og særðu þegar fréttist af þessu voðaverki. Forseti Nígeríu, Muhammadu Buhari, fordæmdi árásina og kallaði hana svívirðilega.

Fyrir réttri viku var safnaðarleiðtoga Meþódistakirkjunnar í Nígeríu rænt í suðausturhluta landsins ásamt tveimur öðrum kennimönnum. Safnaðarleiðtoginn segist hafa þurft að greiða mannræningjunum 190 000 sterlingspund eða rúmlega 30 milljónir íslenskra króna til að losna úr haldi mannræningjanna ásamt félögum sínum.

Nígería
Nígerísk yfirvöld eiga í höggi við íslamska uppreisnarmenn í norðausturhluta landsins og vopnaðar vígasveitir í þeim norðvestri sem engu eira; ræna börnum sem fullorðnum og krefjast lausnargjalds. Í norðurhluta landsins hafa jíhadistar gert hverja árásina á fætur annarri á kirkjur en í þeim landshluta eru flestir múslímar.

Nígería er í vestur Afríku. Efnahagskerfi þeirra er stórt og fjöldi landsmanna um 216 milljónir. Í landinu búa meira en 250 þjóðarbrot/ættflokkar sem tala 500 ólík tungumál. Stærsta borgin er Lagos og í henni búa um fimmtán milljónir manna. Höfuðborgin er Abuja.

Síðustu árin hefur Nígería verið plöguð af umfangsmikilli spillingu og hörðum innbyrðis átökum. Boko Haram, sem eru íslamistar, hafa haldið uppi miskunnarlausum skæruhernaði gegn almenningi. Mannrán eru tíð í landinu og sömuleiðis árásir vígamanna. Borgin Owo hefur að mestu verið laus við átök fram að þessu.

Nígería er í sjöunda sæti yfir þau lönd þar sem kristið fólk er mest ofsótt - kirkjan.is fjallaði um ofsóknir á hendur kristnu fólki í janúar á þessu ári, hér. 

Miðað við umfang þessa hryðjuverks ættu fjölmiðlar að fjalla nánar um það heldur en gert er. Kirkjan.is hefur aðeins rekist á eina litla frétt um málið í íslenskum fjölmiðli. Allt og sumt, en henni kann að hafa yfirsést. Ekki er óalgengt að því fjær sem atburðir eru Vesturlöndum því minni athygli fái þeir í fjölmiðlum enda þótt skelfilegir séu.

Hér má sjá myndband  af vettvangi frá fréttastofunni Reuter.

BBC/Reuter/Vårt land /hsh


Nígería - kort BBC

 

 

 

  • Frétt

  • Samfélag

  • Trúin

  • Erlend frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju