Erlend frétt: Nýr erkibiskup í Svíþjóð

9. júní 2022

Erlend frétt: Nýr erkibiskup í Svíþjóð

Dr. Martin Modéus, nýr erkibiskup Svía, er meðal annars áhugaljósmyndari og heldur hér á ljósmyndabók sem hann tók saman - mynd: Svenska kyrkan - Katarina Sandström Blyme

Biskupinn í Linköping, dr. Martin Modéus, hlaut 59 prósent atkvæða í seinni umferð kosninga til erkibiskups Svíþjóðar sem fram fór í gær. Valið stóð á milli hans og dr. Johan Dalman, biskups í Strängnässtifti.

Dr. Martin verður settur inn í embætti 4. desember næstkomandi í Dómkirkjunni í Uppsala. Dr. Martin tekur við af dr. Antje Jackelén sem fer á eftirlaun í október á þessu ári. Hún leggur frá sér hirðisstafinn í sjónvarpsmessu 30. október. Þá spyrja margir sem ekki eru kunnugir málum: Hvar verður hirðisstafurinn frá 30. október til 4. desember? Svarið við því er að aðrir biskupar taka við verkefnum erkibiskupsins þar til hann er kominn til starfa. Erkibiskupinn er ekki yfir öðrum biskupum heldur fremstur meðal jafningja. 

Hver er dr. Martin Modéus?
Hann er fæddur 1962 í Jönsköping og vígðist til prests 1986 og 2011 til biskups í Linsköpingstifti. Dr. Martin er gamlatestamentisfræðingur og lauk doktorsprófi frá háskólanum í Lundi í þeim fræðum 2005. Kona hans er Marianne Langby Modéus, dómkirkjufræðari. Bróðir Martins er líka biskup, dr. Fredrik, í Växjöstifti.

Dr. Martin er sagður vera í ýmsu mjög ólíkur fráfarandi erkibiskupi sem hefur látið mjög til sín taka í málum líðandi stundar. Hann muni ekki blanda sér í viðkvæm deilumál og myndi fremur kjósa langt viðtal í útvarpi þar sem hann gæti gefið sér góðan tíma til að svara ýmsum spurningum heldur en að skjóta einhverju út á Twitter. En álitsgjafar efast um að fjölmiðlar gefi honum ráðrúm til þess. Forveri hans, dr. Antje, var mjög virk á samfélagsmiðlum eins og Facebook, Twitter og Instagram til þess að koma á framfæri boðskap kirkjunnar og skoðunum sínum á knýjandi samfélagsmálum. Það hafi tekist vel hjá henni. Dr. Martin verður með öðrum orðum ekki mjög pólitískur að sögn álitsgjafa. Hann sé hægur maður og yfirvegaður. Vinni skipulega í málum og af einbeitni.

Dr. Martin hefur unnið mikið með guðsþjónustuna og velt fyrir sér þátttöku leikmanna og barna í henni; hlutverki safnaðarins. Hann hefur tekið upp á sína arma sitthvað úr guðsþjónustuarfi fríkirknanna og frá Grundtvig. Guðsþjónustan eigi að vera með þeim hætti að kirkjufólkið finni sig í henni á sama hátt og í hversdagslegu lífi.

Margir hafa bent á að sænska kirkjan hafi leiðst út í meiri miðstýringu en áður þar sem margt hefur snúist um erkibiskupinn sjálfan, embætti hans og höfuðstöðvarnar í Uppsala. Horft er til dr. Martins með að veita grasrótinni meira frelsi og frumkvæði sem og að draga úr kirkjuskrifræði sem plagar prestana og aðra starfsmenn kirkjunnar. Hann var safnaðarprestur í Växjö og Stokkhólmi, og í fararbroddi fyrir safnaðarþróun í sænsku kirkjunni auk þess að rita bækur um hefðir og og helgisiði. Allt þetta muni styrkja hann sem erkibiskup.

Hér fyrir neðan má sjá stutt viðtal við nýja erkibiskupinn - viðtalið er með sænskum texta.


Svenska kyrkan/KristeligtDagblad/hsh

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Erlend frétt

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði