„...og allt á tilveru sína í honum.“

10. júní 2022

„...og allt á tilveru sína í honum.“

Frá vinstri: sr. Þuríður Wiium Árnadóttir, sr. Árni Svanur Daníelsson og Magnea Sverrisdóttir, djákni - mynd: LWFÞessa dagana, 8. – 14. júní, stendur yfir stjórnarfundur í Lútherska heimssambandinu. Þjóðkirkjan á þar einn stjórnarmann, sr. Þuríði Wiium Árnadóttur, sóknarprest í Hofsprestakalli í Austurlandsprófastsdæmi. Magnea Sverrisdóttir, djákni, er ráðgjafi í fjárlaganefnd stjórnarinnar. Sr. Árni Svanur Daníelsson leiðir samskiptasvið og situr í framkvæmdastjórn heimssambandsins. Segja má að íslenska þjóðkirkjan hafi á að skipa einvalaliði á vettvangi Lútherska heimssambandsins.

Í stjórn Lútherska heimssambandsins sitja 48 einstaklingar sem þing sambandsins kýs.

Þetta er fyrsti fundur undir stjórn nýs framkvæmdarstjóra sambandsins, sr. Anne Burghardt, sem hóf störf á haustmánuðum 2021. Kirkjan.is ræddi við hana á sinum tíma og hér má lesa viðtalið við hana. En hún er fyrsta konan til að gegna framkvæmdastjórastarfi hjá sambandinu.

Yfirskrift fundarins er sótt í Kólossubréfið 1.17: „...og allt á tilveru sína í honum.“

Við upphaf fundarins flutti sr. Anne Burghardt skýrslu Lútherska heimssambandsins sem fagnar á þessu ári 75 ára afmæli sínu.

Úr ræðu framkvæmdastjórans
Hún fagnaði því að þetta væri fyrsti fundurinn eftir kórónuveirufaraldurinn þar sem fólk gæti hist augliti til auglitis á staðnum. Sem fyrr er grunnstefna sambandsins fjórar meginstoðir: hjálp til nauðstaddra; efling guðfræðimenntunar; áhersla á samkirkjulega einingu og sameiginlegt frumkvæði í kirkjulegri þjónustu. Mikilvægt væri að koma þessum grunnstoðum til skila til allra aðildarríkja sambandsins.

Sr. Anne Burghardt ræddi um innrásina í Úkraínu og hin gífurlegu áhrif sem hún hefði á alla heimsbyggðina. Ekki væri útséð hvernig því lyki og hvað biði þjóða heimsins. Margar þjóðir hefðu dregið úr aðstoð til annarra þjóða og beint kröftum sínum að Úkraínu og flóttafólkinu þaðan. Þá gæti kornskortur haft alvarlegar afleiðingar og auk þess væri brýn þörf á meiri orku og gæti farið svo að þjóðir sneru sér aftur að orkuvinnslu í kjarnorkuverum. Jarðefnaeldsneyti fengið auk þess meira vægi en reynt hefur verið að draga úr notkun þess. Alþjóðabankinn hefði varað við því að allt að 95 milljónir manna myndu búa við afar mikla fátækt í kjölfar þessa og kórónuveirufaraldursins. Faraldurinn hefði og leitt til aukinnar einstaklingshyggju þar sem fólk setti sjálft sig í forgang umfram aðra.

Hún ræddi einnig um uppgang popúlisma og stjórnmála sem einblína eingöngu á valdið. Hvort tveggja vanmæti lýðræðislegan grunn mannréttinda og alþjóðalaga. Í sumum löndum væri leitast við að kljúfa þjóðina og skipa henni í andstæðar fylkingar. Vildi hún vara við því að guðfræði væri notuð í þessu skyni til að skjóta stoðum undir ranglátt þjóðfélag.

Þá ræddi hún um bókstafstrú og guðfræðikenningar sem afvegaleiða. Hvort tveggja býður upp á einfaldar lausnir á flóknum vandamálum sem ganga ekki upp.

Loftslagsmálin og réttindi til góðs loftslags voru sr. Anne Burghard einnig ofarlega í huga. Síðan ræddi hún um ýmis önnur mál sem og innri mál Lútherska heimssambandsins.

Ræðu sr. Anne má lesa hér  í heild inni. 

Hvað er Lútherska heimssambandið?

Lútherska heimssambandið var stofnað árið 1947 og var íslenska þjóðkirkjan einn af stofnaðilum þess. Innan sambandsins eru 148 lútherskar kirkjur og þeim tilheyra ríflega 77 milljónir kristins fólks í 99 löndum. Grunngildi sambandsins eru: virðing og réttlæti; samhugur og samstaða; fjölbreytileikinn virtur; samvinna og þátttaka; gagnsæi og traust.

Sambandið leitast við að bera trúnni vitni í orði og verki, treysta á leiðsögn Guðs og anda hans. Starf samtakanna fer fram í samtali og íhugun með fulltrúum lútherskra kirkna, og annarra kirkjudeilda og trúarbragða, í þeim tilgangi að dýpka skilning og bera kristinni trú vitni. Samtökin taka sér stöðu með þeim sem minna mega sín, ganga fram fyrir skjöldu á réttlæti og friði í anda sáttargjörðarinnar.

Höfuðstöðvar Lútherska heimssambandsins eru í Gefn, Sviss. Æðsta valdastofnun Lútherska heimssambandsins er þing þess og á því sitja fulltrúar allra aðildarlanda. Þingið kýs stjórn sambandsins, 48 fulltrúa. Sr. Þuríður Björg Wiium Árnadóttir, situr í stjórninni. Magnea Sverrisdóttir, djákni, er ráðgjafi í fjárlaganefnd stjórnarinnar.

hsh


Sr. Anne Burghardt, framkvæmdastjóri Lútherska heimssambandsins - mynd: LWF - Árni Svanur Daníelsson  • Frétt

  • Fundur

  • Samfélag

  • Þing

  • Trúin

  • Alþjóðastarf

  • Lútherska heimssambandið

Sveinbjörn Blöndal í góðum félagsskap herra Guðbrands Þorlákssonar og fleiri andans kappa- mynd: hsh

Viðtalið: Menningarlegt þrekvirki

05. júl. 2022
...um Guðbrandsbiblíu og fleira
Hallgrímskirkja í gær - Bente Colding-Jørgensen stjórnar nokkrum félögum úr Nordisk Koncertkor Nuuk - mynd: hsh

Kirkjulegt menningarstarf

04. júl. 2022
...kór frá Nuuk og upphafstónleikar Orgelsumarsins
Dr. Guðmundur Björn við doktorsvörnina í Brussel - mynd: Haraldur Hreinsson

Doktor í Brussel

04. júl. 2022
...guðfræðingur og heimspekingur ver doktorsritgerð