Úr Dómkirkjunni í Guðríðarkirkju

19. júní 2022

Úr Dómkirkjunni í Guðríðarkirkju

Kári Þormar við orgel Dómkirkjunnar 19. júní - mynd: hsh

Dómorganistinn í Reykjavík, Kári Þormar, ætlar að söðla um í eitt ár. Heldur úr Kvosinni í Reykjavík og upp í Grafarholt.

Úr Dómkirkjunni og í Guðríðarkirkju. Úr 101 og í 113.

Kirkjan.is spurði hann út í málið.

„Breytingar eru góðar og hollar og ekki gott að ílengjast á einum stað í langan tíma,“ segir Kári hress í bragði.

„Ég er búinn að starfa í tólf farsæl ár við Dómkirkjuna og búinn að byggja þar upp frábæran kór og tónlistarstarf og er afar stoltur af því.“ Kári segir að starf dómorganista sé mjög krefjandi og álagið mikið, sérstaklega um hátíðir. „En þetta hefur nú allt gerst á mjög skömmum tíma, og starfið í Guðríðarkirkju er bara til eins árs og því mun ég sækja um leyfi í Dómkirkjunni sem þeim tíma nemur,“ segir hann. „Starfið í Guðríðarkirkju er mjög spennandi, og gífurlegur áhugi hjá sóknarnefnd að halda áfram því góða starfi sem þar hefur verið í tónlistarmálum“.
Guðríðarkirkja er að mati Kára eitt fallegasta hljómhús – eins og hann orðar það – á landinu og aðstaða gífurlega góð fyrir kórtónlist. „Þar er einnig nýtt orgel smíðað af Björgvini Tómassyni, sem passar einstaklega vel inn í þetta dásamlega hús,“ segir Kári. Við það má bæta að orgelsmiður var með í ráðum allt frá upphafi hönnunar Guðríðarkirkju og er það einsdæmi hér á landi.

Kári segir að kirkjustarfið sé mjög mismunandi eftir kirkjum og áherslur breytilegar. „Meiri áhersla er lögð á safnaðarstarf og ungmennastarf í Guðríðarkirkju, sem fer þá meira fram í miðri viku og því er messuskylda ekki eins gífurlega mikil eins og í Dómkirkjunni,“ og hann bætir við: „Það þýðir að ég fæ meiri frí um helgar og get haft meiri tíma til að sinna fjölskyldunni, meiri tími til að æfa mig á orgel, sinna öðrum áhugamálum og jafnvel setja niður einhverja nótur á blað.“

Á dögunum óskaði Hrönn Helgadóttir organisti Guðríðarkirkju eftir ársleyfi frá störfum en hún hefur verið organisti safnaðarins frá 2005. Í kjölfar þessa ákvað sóknarnefnd að auglýsa starfið laust til eins árs. Fjórar umsóknir bárust frá afar færum einstaklingum og sóknarnefnd og sóknarprestur áttu úr vöndu að ráða. Á fundi þann 14. júní sl. var ákveðið að ráða Kára Þormar dómorganista til starfa frá 15. ágúst næstkomandi til jafnlengdar 2023.

hsh


Nótnataska dómorganistans fer líka úr 101 í 113


  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Starf

  • Tónlist

  • Frétt

  • Fréttin er uppfærð

holarihjaltadal.jpg - mynd

Hólahátíð 2025: Forseti Íslands flytur Hólaræðu

12. ágú. 2025
Hólahátíð fer fram dagana 16. - 17. ágúst n.k. Halla Tómasdóttir forseti Íslands flytur Hólaræðuna að þessu sinni.
garpsdalskirkja2.jpg - mynd

Kirkjuklukkum á Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hringt samtímis til stuðnings íbúum Gasa

05. ágú. 2025
Fimmtudaginn 7. ágúst kl. 13:00 verða kirkjuklukkum dómkirknanna þriggja á Íslandi hringt og hvetja biskupar Íslands til þess að öðrum kirkjuklukkum verði hringt samtímis. Systurkirkjur Þjóðkirkjunnar í Noregi, Svíþjóð...
Elísa Mjöll Sigurðardóttir

Elísa Mjöll ráðin

22. júl. 2025
...sóknarprestur við Breiðafjarðar og Strandaprestakall