19. júní á Grund

20. júní 2022

19. júní á Grund

Sr. Anna Sigríður Pálsdóttir, prédikar - mynd: hsh

Í gær var þess kvenréttindadagsins víða minnst í mörgum kirkjum. Bústaðakirkja auglýsti guðsþjónustu með „kvenlægri slagsíðu“ þar sem þar sem merkilegar konur ú Biblíunni kæmu við sögu. Í Grensáskirkju voru sungnir sálmar eftir konur og þar var rætt um konur og spurt hvort Guð væri kona. Kvennakirkjan var líka með kvöldguðsþjónustu á Bríetartorgi og með messukaffi að henni lokinni. Margir prestar viku að deginum í prédikunum sínum með einum eða öðrum hætti.

Hvað er kvenréttindadagurinn?
Hátíðis- og baráttudagur kvenna á Íslandi þar sem því er fagnað að 19. júní 1915 fengu konur á Íslandi, 40 ára og eldri, kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Með stjórnarskrárbreytingu var kosningaréttur kvenna og vinnufólks rýmkaður. Aldurslágmarkið var 40 ár og færðist svo niður um eitt aldursár á hverju ári þar til 25 ára aldri væri náð en það var kosningaaldur karla.

Á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund var kvenréttindagsins líka minnst í guðsþjónustu í hátíðarsal heimilisins. Sr. Anna Sigríður Pálsdóttir prédikaði og þjónaði fyrir altari. Grundarkórinn söng og Kristín Waage var við orgelið. Guðsþjónustan var í umsjón Félags fyrrum þjónandi presta.

Sr. Anna Sigríður vék að sjálfsögðu að þessum merkilega degi og fór nokkrum orðum um hann. Þorri þeirra sem hlýddi á voru konur sem höfðu ánægju af því að þessa dags væri minnst.

Eftir guðsþjónustuna bauð Grund venju samkvæmt félögum í Félagi fyrrum þjónandi presta og maka í kaffi. Stjórnarfundur var haldinn og ávarpaði sr. Kristján Valur Ingólfsson, formaður félagsins, fundarmenn. Með honum í stjórn eru sr. Birgir Thomsen og sr. Kristján Búason. Síðan voru nokkur mál félagsins rædd – og svo sitthvað um dag og veg. Það var létt yfir félagsmönnum og rjómakakan bragðaðist augljósleg vel og kaffið rann ljúflega niður.

Félagsmenn eru hátt í eitt hundrað. Elstur presta á Íslandi nú er sr. Fjalar Sigurjónsson, fæddur 1923.

Hvað er Félag fyrrum þjónandi presta og maka?
Félagið var stofnað 1. nóvember 1939 og fékk nafnið: Félag fyrrverandi presta og prófasta í Reykjavík sem síðar var breytt. Markmið félagsins er að endurnýja gömul kynni, flytja fróðleik og fylgjast með því sem efst er á baugi í kirkjunni hverju sinni. Félagið annast guðsþjónustur á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund að jafnaði einu sinni í mánuði, auk þess að annast sumarguðsþjónustu í Hveragerðiskirkju í samvinnu við Ás og árlega guðsþjónustu í Mörkinni.

Sumir félagsmanna hafa gantast með nafnið. Einn kallaði það ætíð Pokafélagið. Annar Gamlingjafélagið og þannig mætti lengi telja. En öllum þykir þeim vænt um félagið og njóta þess að sækja fundi hjá því.
Dvalar- og hjúkrunarheimilið Grund
Félagið hefur ætíð verið tengt hjúkrunar- og dvalarheimilinu Grund. Sérstakur velgjörðarmaður þess var sr. Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason í Ási, heimilisprestur Grundar og forystumaður í málefnum aldraðra á sinni tíð. Síðar tók sonur hans við merkinu, Gísli Sigurbjörnsson, og reyndist félaginu haukur í horni. Þeir feðgar styrktu félagið með ýmsu móti og sennilega hefði það ekki lifað nema vegna atbeina þeirra. Þessi stuðningur hefur haldið áfram í gegnum dóttur Gísla, Guðrúnu Birnu Gísladóttur, og síðar son hennar og sr. Páls Þórðarsonar, Gísla Pál.

Hátíðarsalur Grundar er stór og fallegur. Altaristaflan er eftir Jóhann Briem.

Guðrún Gísladóttir, fyrrverandi forstjóri Grundar, er enn vakin og sofin yfir heimilinu og kemur þar daglega, segist ekki geta annað. „Ég bý í næsta húsi,“ sagði hún. Heimilisprestur Grundar er sr. Auður Inga Einarsdóttir.

hsh


Guðsþjónusturnar á Grund eru vel sóttar


Formaður Félags fyrrverandi presta og maka, sr. Kristján Valur Ingólfsson, flutti ávarp


Sr. Kristján Búason, ritari félagsins, les fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt


Frá vinstri: Guðrún Lára Ásgeirsdóttir, sr. Tómas Guðmundsson, fyrrum prófastur, og kona hans Anna Ólöf Sveinbjörnsdóttir, koma til guðsþjónustu og fundar

  • Frétt

  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Eldri borgarar

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði