Á Jónsmessu við Esjubergsaltarið

25. júní 2022

Á Jónsmessu við Esjubergsaltarið

Bjarni Sighvatsson, varaformaður Sögufélagsins Steina, flytur ávarp - vinstra megin við hann er túlkurinn Tanya Aleksandersdóttir og hægra megin sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir, sr. Arna Grétarsdóttir og sr. Arndís Bernhardsdóttir Linn - mynd: hsh

Nú standa yfir Kjalnesingadagar og samkvæmt venju var guðsþjónusta á Esjubergi og nú við útialtarið sem vígt var 20. júní í fyrra.

Guðsþjónustan í gær var að þessu sinni sameiginlegt verkefni Sögufélagsins Steina og samstarfssvæðis Reynivalla- og Mosfellsprestakalls- og prests innflytjenda.

Við Vesturlandsveg var búið að koma upp íslenska fánanum og þeim úkraínska. Það tók hressilega í þá á köflum og bar þá fagurlega við Esjuna.

Stór og þéttsetin rúta renndi upp að Esjubergi á fimmta tímanum í gær. Í henni var úkraínskt flóttafólk sem boðið hafði verið til stundarinnar. Eflaust hefur þeim þótt vænt um að sjá fánann sinn þarna við hliðina á þeim íslenska í norðanvindinum.

Stundin hófst á því að Bjarni Sighvatsson, varaformaður Sögufélagsins Steina á Kjalarnesi, flutti stutt ávarp og bauð fólk velkomið og sérstaklega úkraínska flóttafólkið. Tanya Aleksandersdóttir túlkaði ávarpið yfir á úkraínsku eins og annað er fram fór í stundinni.

Prestarnir sem leiddu guðsþjónustuna voru þær sr. Arna Grétarsdóttir, sóknarprestur í Reynivallaprestakalli, sr. Arndís Bernhardsdóttir Linn, prestur í Mosfellsprestakalli og sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir, prestur innflytjenda - sú síðastnefnda prédikaði. Kirkjukór Reynivallaprestakalls söng undir stjórn Maren Barlien. Stjórnarmenn úr Sögufélaginu Steina sáu um lestra, þau Bjarni Sighvatsson, Sigríður Pétursdóttir og Þorvaldur Friðriksson.

Í hópnum var fjöldi úkraínskra barna sem naut stundarinnar með sínum hætti. Nokkur þeirra tíndu sóleyjar og settu á altarið. Önnur skokkuðu um prúð og róleg; sum léku sér með sand og steina meðan á athöfninni stóð. Enn önnur sátu meðal fullorðinna og fylgdust vel með.

Eftir guðsþjónustuna var haldið í Fólkvang, félagsheimili Kjalnesinga, en þar beið fólks rjúkandi heit íslensk kjötsúpa og kaffi.

Fyrir utan Fólkvang var búið að koma upp hoppukastala sem börnin flykktust að eftir að hafa borðað fylli sína af kjötsúpunni.

Veður var gott þó blési nokkuð að norðan. Bjart var og sólin skein. Ekki var annað sjá en að flóttafólkið kynni vel að meta þetta framtak og skipuleggjendur viðburðarins voru ánægðir með að hann hefði tekist vel.

Sterkur samhugur með úkranínsku þjóðinni í þrengingum hennar kom vel fram í guðsþjónustinni við útialtarið á Kjalarnesi.

hsh


Engin logmolla á Kjalarnesi - vegurinn upp að útialtarinu á Esjubergi


Sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir prédikaði


Áhrifarík stund

 
Kirkjukór Reynivallaprestakalls söng undir stjórn organistans Maren Barlien


Þorvaldur Friðriksson, stjórnarmaður í Sögufélaginu Steina, las ritningarlestur


Sigríður Pétursdóttir, varaformaður sóknarnefndar Brautarholtssóknar og stjórnarmaður í Sögufélaginu Steina, las bæn


Í lok guðsþjónustunnar


Allir nutu stundarinnar, hver á sinn hátt


Sóknarpresturinn í Brautarholtssókn, sr. Arna Grétarsdóttir, flutti drottinlega blessan í lokin


Hoppukastali við Fólkvang og hann heillaði börnin

  • Frétt

  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Sjálfboðaliðar

  • Trúin

  • Úkraína

  • Flóttafólk

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði