Tónlistarsjóður kirkjunnar og STEFS

26. júní 2022

Tónlistarsjóður kirkjunnar og STEFS

Þau tóku við viðurkenningum. Frá vinstri: Keith Reed, Ágústa Sigrún Ágústsdóttir (f. framan), Valgerður Halldórsdóttir (f. aftan), Guðný Einarsdóttir, Arngerður María Árnadóttir, Þórunn Vala Valdimarsdóttir, Inga María Leifsdóttir, Árni Ólafur Jónsson, Halldór Hauksson (f. aftan), Einar Benedikt Gröndal, Sigurður Guðni Gunnarsson, Hreiðar Ingi Þorsteinsson - mynd: hsh

Siðastliðinn föstudag voru afhentir í fyrsta sinn styrkir úr Tónlistarsjóði kirkjunnar og STEFs. Afhendingin fór fram á Biskupsstofu í Katrínartúni 4, Reykjavík.

Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, flutti ávarp. Sagði hún að svo sannarlega hefði verið ánægjulegra að hafa styrkina hærri en þeir væru virðingar- og þakklætisvottur til þeirra er þá hlutu. Vonaði hún að það hvetti tónlistarfólkið til enn meiri dáða.

Þá flutti Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs, ávarp. Lýsti hún yfir ánægju sinni með nýja sjóðinn sem þó væri ekki nýr. Hann byggði á gömlum grunni. Gat hún um að stofnskrá sjóðsins hefði verið undirrituð 2. apríl síðastliðinn og þá var jafnframt nokkrum einstaklingum veitt viðurkenning af hálfu sjóðsins sem kirkjan.is sagði frá á sínum tíma.

Sr. Davíð Þór Jónsson, stjórnarmaður, greindi frá því að úthlutað hefði verið til tólf verkefna og væru þau af margvíslegum toga. Alls var úthlutað 3.480.000 krónum; 22 umsóknir bárust.

Í stjórn sjóðsins sitja: Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, formaður, Davíð Þór Jónsson, tilnefndur af biskupi Íslands, og Hilmar Örn Agnarsson, tilnefndur af STEFI.

Stjórn sjóðsins ákvað að veita styrki sem hér segir
Arngerður Maria Árnadóttir til að semja verk fyrir Kór Möðruvallakirkju
Barbörukórinn fyrir kórverk pantað hjá Huga Guðmundsson
Gísli Jóhann Grétarsson til að semja Stabat mater, fyrir kór, einsöngvara og strengi
Halldór Hauksson fyrir kórbók með sálmalögum í útsetningum J.S.Bach, með íslenskum texta
Hljómeyki - til að panta kórverk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur, Egil Gunnarsson og Eygló Höskuldsdóttir Viborg
Kammerkórinn Huldur – til að panta verk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur og Hróðmar Sigurbjörnsson
Keith Reed – útsetning á sálmalögum fyrir kvennaraddir
Kór Breiðholtskirkju – til að panta kórverk eftir Steingrím Þórhallsson
Kór Hallgrímskirkju – til að panta kórverk eftir Sigurð Sævarsson, Hjálmar H. Ragnarsson og Þorvald Örn Davíðsson
Kordía, kór Háteigskirkju – til að láta semja orgelverk fyrir plötuútgáfu
Márton Wirth – sálmaútsetningar fyrir sópran, alt og karlarödd
Óperudagar – Guja Sandholt: Matteusarpassían fyrir börn, textaþýðing og staðfæring.

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, ávarpaði gesti í lokin. Þakkaði hún styrkþegum fyrir þeirra framlag og nefndi að kirkjan væri sá vettvangur er veitti hvað flestum tækifæri til söngs og tónlistariðkunar.

Í lokin var gestum boðið upp á léttar veitingar.

hsh

 


  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju