Fólkið í kirkjunni: Enn að

9. júlí 2022

Fólkið í kirkjunni: Enn að

Reynir Sveinsson, sóknarnefndarformaður, í Hvalsneskirkju - mynd: hsh

Hann er fæddur og uppalinn í Sandgerði. Systkinin voru sjö. Fimm bræður og þrír þeirra rafvirkjar, hann er rafvirkjameistari að mennt, starfrækti rafmagnsverkstæði í áratugi.

Reynir Sveinsson, formaður sóknarnefndar Hvalsnessóknar í Útskálaprestakalli, er einn af þeim mönnum sem verða máttarstólpar í sínu samfélagi. Hann hefur komið víða við. Rak rafmagnsverkstæði í áratugi, tekið þátt í stjórnmálum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, setið í bæjarstjórninni, verið virkur í björgunarsveitinni Sigurvon sem er elsta sveitin í Slysavarnafélagi Íslands, stofnuð eftir strand togarans Jóns forseta árið 1928 við Stafnes. Verið slökkviliðsstjóri, flinkur ljósmyndari allt frá fermingu, fréttaritari Morgunblaðsins, forstöðumaður Fræðaseturs í Sandgerði, leiðsögumaður ... og svo mætti lengi telja. Maður sem hefur látið samfélagsmál sig varða og ekki talið neitt eftir sér.

Reynir er hógvær maður og viðræðugóður. Margfróður um sögu síns samfélags og er kirkjunnar maður.

Hvalsneskirkja er honum kær.

„Ég var alinn upp á trúræknu heimili,“ segir Reynir Sveinsson, formaður sóknarnefndar Hvalsnessóknar í Útskálaprestakalli, „móðir mín söng alla sálmana með útvarpsmessunum á sunnudögum og virtist kunna þá alla“. Hún hét Guðbjörg Hulda Guðmundsdóttir, húsfreyja, og faðir hans Sveinn Aðalsteinn Gíslason, rafveitustjóri.

Kirkjan er 135 ára á árinu

Reynir er búinn að vera sóknarnefndarformaður í rúm þrjátíu ár. „Var kosinn formaður að mér fjarverandi,“ segir hann með bros á vör. „Og er enn að, 74 ára.“

Þegar tíðindamann kirkjunnar.is bar að garði voru menn að vinna í turninum. „Þessi fallegi turn er einstakur,“ segir Reynir, „hann var orðinn fúinn að hluta til og skreytingar á honum höfðu fokið út í veður og vind.“

„Kirkjan er friðuð,“ segir hann, „Minjastofnun hefur verið mjög hliðholl öllum framkvæmdum við kirkjuna.“

Hvalsneskirkja var vígð á jóladag árið 1887 og verður því 135 ára á næstu jólum. Kirkjan var svo tekin í gegn 1945 en síðan hefur margt verið unnið henni til góða.

„Fyrsta sem ég gerði eftir að ég varð formaður var að hafa forystu um að hlaðnir yrðu grjótgarðar í kringum kirkjugarðinn,“ segir hann og bendir á fallega hleðslu. „Það var Sveinn Einarsson frá Hnjóti á Egilsstöðum sem hlóð þá – hann var 83ja ára – og blés ekki úr nös!“

Kirkjan og hafið

Reynir þekkir sögu kirkjunnar í þaula og rekur hana vel og áreynslulaust. Enda hefur hann þurft að segja hana býsna oft því að alls konar hópar sækja kirkjuna heim og óska eftir því að fá að heyra sögu hennar.

Nábýli við hafið gefur og tekur. Margur hefur farist á Suðurnesjunum. Eitt kunnasta strandið er þegar togarinn Jón forseti strandaði á rifi við Stafnes í febrúar 1928. Tíu mönnum var bjargað en fimmtán drukknuðu.

En það var seglskipið Jamestown sem gaf mikið timbur af sér. Árið 1881 rak það mannlaust að landi Hvalsness gegnt Kotvogi. Skipið var fullt af timbri. Reynir segir að efnaðir bændur hafi keypt timbur úr skipinu. Ketill í Kotvogi keypti aðra síðuna, hún var dregin yfir ósinn í Hafnir og var það margra mánaða vinna að taka hana í sundur. Allt hafi verið neglt með koparnöglum.

„Kirkjugólfið er allt úr Jamestown,“ segir Reynir, „og prédikunarstóllinn – úr amerískum rauðviði.“ Hann segir prédikunarstólinn vera þungan og hafi gólfið sigið undan honum um 6 sm. Það var lagfært og gólfplankarnir hvíla á grjóti en eru ekki festir út í kirkjuveggi. Jónískar súlur til sitt hvorrar handar eru einnig úr plönkum úr skipinu.

Kirkjubóndinn Ketill Ketilsson í Kotvogi lét reisa Hvalsneskirkju. Þar hefur kirkja staðið frá allt frá 1200. Ketill frétt að verið væri að reisa hlaðna kirkju í Njarðvík. Snaraðist þangað og samdi við steinsmiðina um að koma á Hvalsnes þegar verkinu væri lokið og hefja þar hleðslu. Grjótið var tekið úr klöppinni fyrir utan túnið og því ekki langt að fara.

„Hvalsneskirkja er af svipaðri stærð og Njarðvíkurkirkja,“ segir Reynir, „tveimur steinaröðum hærri, þakið brattara, - hún tekur um 100 manns í sæti.“

Einstakar minjar og góðir gipir

Hvalsneskirkja geymir legstein Steinunnar Hallgrímsdóttur sem sr. Hallgrímur Pétursson meitlaði en hún dó á barnsaldri. Steinninn er í kór kirkjunnar. Sr. Hallgrímur var vígður á sínum tíma til Hvalsnesssóknar og var þar prestur í sjö ár, 1644-1651.

„Skírnarfonturinn er frá því um 1835,“ segir Reynir, „og það er skemmtileg saga í kringum hann: Bóndinn í Stafnesi lá í fimmtán ár og var með öllu ógöngufær. Meðan svo stóð þá dundaði hann við að smíða þennan skírnarfont sem hann gaf síðan kirkjunni. Þegar búið var blessa skírnarfontinn þá gerist það undir að hann fær mátt í fæturna og gat gengið um.“

Fylgst vel með öllu

Reynir segir að ástand kirkjunnar og innanstokksmuna sé gott. Þó eigi eftir að laga altaristöfluna sem er eftir Sigurð málara Guðmundsson. „Þegar maður horfir vel á hana sést að hún er ögn gisin á köflum,“ segir hann. Altaristaflan er upprisumynd í sama stíl og tafla Dómkirkjunnar, „Já, og í Kirkjuvogskirkju og á Ingjaldssandi – íslenskur sérfræðingur sem starfar í Hollandi sagði mér að þær væru tíu svona á landinu.“ Farið var yfir allt grjótið í kirkjunni og fúgur lagaðar þar sem með þurfti. Lofthvelfingin var yfirfarin og þiljunar slegnar saman og fellt í rifur. Þá var þakið klætt kopar og kirkjuhurðir endursmíðaðar og gluggar settir í með tvöföldu gleri.

„Allar þessar framkvæmdir kosta sitt en við fáum styrki úr ýmsum sjóðum kirkjunnar,“ segir Reynir. „Gjaldendur í sókninni eru um 1000 og Hvalsnessókn er að Garðskaga og þá tekur Útskálasókn við, erum í Útskálaprestakalli.“

Ánægjuleg umsjón 

Reynir segir að starfið í kringum kirkjuna sé allumsvifamikið og veiti það honum mikla ánægju. Kirkjan sé vinsæl fyrir ýmsar kirkjulegar athafnir eins og brúðkaup. Hljómburður er afar góður í kirkjunni og hafi dregið tónlistarfólk að henni eins og Sumartóna á Suðurnesjum. Þá hafi kirkjan sjálf og umhverfi hennar heillað kvikmyndagerðarmenn sem hafa nýtt sér hana og nefnir hann mynd Friðriks Þórs, Á köldum klaka, og mynd Baltasars Kormáks, Mýrina, sem dæmi. Hann hlær glettnislega þegar hann segir frá tuttugu manna erlendu tökuliði sem kom til að taka upp og var þar í einn dag. „Það voru miklar tilfæringar og stúss,“ segir hann og síðar sýndi einn honum atriðið sem tekið hafði verið upp. „Það var þá sex sekúndur,“ hlær Reynir.

Snoturt aðstöðuhús er skammt frá kirkjunni og breytti það öllu til hins betra segir Reynir. „Það er þrefalt torflag á þaki þess og dugði ekki minna.“

Þá getur Reynir þess í lokin að í Sandgerði sé Safnaðarheimili, Sandgerðiskirkja, og þar fari fram fjölmennar athafnir.

Hvalsneskirkja er svo sannarlega í góðum höndum undir forystu Reynis.

Reynir Sveinsson, sóknarnefndarformaður Hvalsnessóknar, er einn af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni. Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.

hsh