Stöðugleiki í kirkjustarfi

12. júlí 2022

Stöðugleiki í kirkjustarfi

Breiðholtskirkja - mynd: hsh

Margt í kirkjustarfi breytist þegar sumarið gengur í garð. En sumt breytist ekki.

Bæna- og kyrrðarstundir Breiðholtskirkju í hádeginu á miðvikudögum standa eins og stafur á bók. Falla ekki niður. Meira að segja í kórónuveirufaraldrinum var kirkjan alltaf opin og stundin á sama stað.

Í bæna- og kyrrðarstundinni er höfð um hönd guðsþjónusta, fyrirbænir lagðar fram og gengið til altaris. Allir geta gengið að þeim vísum á sama tíma og á sama degi. Þessi stund á sér djúpar rætur í safnaðarstarfi Breiðholtskirkju. Fer ekki hátt og er vel þegin.

„Það eru allir komnir í sumarfrí og verða fram í ágúst, nema nýi kirkjuvörðurinn okkar, Hrafn Sveinbjarnarson ,“ segir Vigdís V. Pálsdóttir, fyrrverandi formaður sóknarnefndar Breiðholtssóknar. Þessar samverur hafa verið eins og akkeri í starfi kirkjunnar og ekkert hreyft við þeim.

Samveran er alla jafnan í höndum héraðsprestsins, sr. Sigurjóns Árna Eyjólfssonar og Valgerðar Guðmundsdóttur. Sr. Sigurjón Árni blæs af mikilli list í saxófóninn og hefur þjónað til altaris en Valgerður séð um veitingar. Nú er saxófónleikarinn sr. Sigurjón Árni í sumarfríi.

„Síðasta miðvikudag var á borðum kakósúpa og heimabakað bakkelsi að hætti Valgerðar,“ segir Vigdís ánægð. Þau sem sækja samveruna láta smávegis fé af hendi rakna til kirkjustarfsins og leggja í körfu en Valgerður afhendir það kirkjuverðinum.

„Mæting er svona þegar flest er hátt í þrjátíu manns,“ segir Vigdís.

Þetta er samfélag bænar og kyrrðar. Samfélag trúar, samtals og kirkjulegrar vináttu. Safnaðarstarf sem er til fyrirmyndar.

Stundin hefst á morgun kl. 12.00 - eins og alltaf.

hsh

 


  • Kirkjustarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Sjálfboðaliðar

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju